mánudagur, desember 18, 2006

Jólastress hvað?

1. Við mamma bökuðum vanilluhringi í síðustu viku. Aðeins ein tegund eftir (þ.e. sem ég var sérstaklega búin að kaupa í).

2. Lauk við jólagjafainnkaupin í gær. Samt ekki búin að pakka inn.

3. Skúraði í gær. Jahhh, svona inn á milli draslins.

4. Lifi stúdentalífi í 1 og 1/2 dag og geri e-ð í púff-ritgerðinni. Sum sé í gærkvöld (og fram á nótt) og í dag. Tók þessu meira að segja svo alvarlega að ég borðaði rosa-slísí hamborgara áðan af ónefndu sjoppugrilli með Böðvari og co. Tók þetta með enn meiri stæl og sullaði tvisvar niður á mig frönskum með tómatsósu. Sest nú við á nýjan leik og pikka inn e-t bull í kafla 2.

Er þetta ekki allt að koma?
Hef svo gaman af svona skipulagi og listum. Gerir kaótískt líf ögn bærilegra...

miðvikudagur, desember 13, 2006

Senn rýf ég 10 kílóa múrinn. Sté á baðvogina í gær. Og ég á meira en tvo mánuði eftir!!! Og enn á eftir að bætast við. Þetta er erfitt upp á að horfa fyrir fyrrum megrunarþráhyggjusjúkling!

Samt fékk ég mér malt og appelsín í gær. Og nammi. Þykist ekki muna hvað vogin sýndi. hahaha...

Jólastressið er að ná tökum á mér eins og öðrum. Og hvað geri ég í því? Nákvæmlega ekki neitt. Jólakortin bíða mín, óáskrifuð. Er heldur ekki enn búin að baka þessa tvær smákökusortir í viðbót. Allt í skít. Gólflistarnir?

Og ritgerðin...

Púff.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Af aulahætti og fyrri hetjudáðum


Um helgina lágum við í makindum seint á laugardagskveldi og horfðum á e-a bíómynd, sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað um hvað snerist. En það er nú heldur ekki aðalatriðið. En í myndinni var sýnt frá útför háttsetts hermanns. Verið var að brjóta saman fána á kistu mannsins þegar ég sé hvernig þeir fara að við verkið og hrópa upp yfir mig: Nei sko, þeir brjóta fánann alveg eins og ég brýt plastpokana! Böðvar skellti upp yfir sig, átti ekki orð yfir bjánaskapnum í mér og spurði mig hvort ég vissi virkilega ekki hvernig fánabrot væri.

Hvernig í fjandanum átti ég að vita það. Ég hef aldrei verið skáti. Og fánastöng var aldrei til á mínu heimili. Ég hef heldur aldrei unnið í Nóatúni, IKEA eða nokkurri annarri verslun þar sem fánar eru dregnir að húni hvern morgun. (Hef reyndar aldrei unnið í verslun en það skiptir ekki höfuðmáli hér.) Ég var hins vegar frekar sár yfir því að gert væri grín að mér (vegna þess að ég á að vita allt). Er þetta annars almenn þekking? Hvernig brjóta skuli saman fána? Eða er þetta e-ð sem allir strákar kunna? Ég lærði aldrei lífsleikni í skóla. Ætli fánabrot sé ekki tekið fyrir þar. Pokabrot kannski líka. Líklega.

Ég eyddi ekki mörgum stundum í nóvembermánuði í að skrifa á bloggið. En þeim mun meiri tími fór í að lesa gamlar færslur. 13. nóvember síðastliðinn stóð ég undir sturtunni, á leið í meðgöngusund, í upphitaðri innilaug. Mér var kalt og hugsaði með hryllingi til þess að nákvæmlega tveimur árum áður hafði ég verið á svamli úti í Skerjafirði á leið á Bessastaði! Jaháá, þá var nú meira um hetjudáðir. Ég myndi sko ekki hafa látið hafa mig út í þess konar ævintýri í ár. Onei. Enda mun meiri frosthörkur þennan mánuðinn en fyrir tveimur árum. Svo efast ég líka stórlega að laumufarþeginn hefði verið nokkuð hrifin af slíku uppátæki. Verandi afkvæmi föður síns (sem er víst ekkert allt of hrifin af of köldu eða of heitu vatni). Samt var gaman að rifja þetta upp. Ég þarf greinilega að vera duglegri að skrifa;-)


Jú, núna man ég eftir kvikmyndinni á laugardagskvöld: Mulholland Falls. Og hún var bara hreint ágæt...

Barnið vex og belgurinn með


Og enn finnst mér ég vera að springa. Og ég er orðin leið á andvökunóttum sökum hósta sem fylgir þessu leiðindakvefi sem ég ætla að því er virðist aldrei að losna við.

Annars hef ég það bara ágætt. Mér tókst samt að hlassast á rassinn í kjallaratröppunum í fyrrakvöld, þrátt fyrir að vera afar varkár. E-n veginn runnu lappirnar undan mér á svellbunka, ég bar hendurnar aftur fyrir mig og tókst að rispa mig vel, og gullúrið mitt líka. Slapp svo bara með auman rass, skrámur og marblett á baki. Og skældi smá. Aðallega af hræðslu. Ég virðist vera farin að skæla yfir ýmsu þessa dagana.

En að öllu skemmtilegri fréttum. Ég eignaðist litla frænku í morgun. Hún er ljósrauðhærð og kann að syngja. Og er Þorsteinsdóttir. Ég er því orðin föðursystir og brosi hringinn. Óskaplega hlakka ég til að sjá litlu fjölskylduna fyrir norðan!

mánudagur, október 30, 2006

Samviskubit


JGE spurði mig í hádeginu hvernig gengi með listana sem eftir á að setja á eftir parketlögnina. Ég er náttúrulega ekki búin að gera neitt í þeim málum. Og fékk ógurlegt samviskubit er ég var spurð. Dæmalaus leti er þetta!
Mér er ekki við bjargandi...

Prófið um daginn gekk annars vel. Mér gengur hins vegar ekki jafn vel að koma mér í skrifham. Ohh, vildi að þetta væri jafn auðvelt og í vi: i í ritham, Esc úr ritham...

Asskoti getur brjóssviði annars verið hvimleiður kvilli! Sér í lagi þegar hann plagar daglega...

Laumufarþeginn virðist stækka. Og æfir samviskusamlega sprikl og kollhnísa. Kviðurinn gengur stundum í bylgjum. Og mér finnst ég vera að springa!

miðvikudagur, október 18, 2006

Próflestur, eina ferðina enn


Sit við, alltof sein að vanda. Fyrirlesturinn fyrir morgundaginn er þó langt kominn.
Ótrúlegt hvað ég er orðin kærulaus varðandi allan undirbúning. Ég gerði ekki rassgat síðustu helgi; samt er ég að fara í síðasta prófið mitt að sinni. Á sama tíma á morgun verð ég búin. Og get kannski haldið haus. Og kannski ekki. Verð ábyggilega líka búin að eignast meira garn. Svona til að halda upp á. Hvers vegna ekki? Sumir nota hvert tækifæri...

föstudagur, október 13, 2006

Sagan er ekki öll


Sagan af Kaupmannahöfn er ekki alveg öll. Hverfum aftur á flugvöllinn...

Upphaflega ætluðum við fimm saman í ferðina. En sökum anna í vinnu höfðu tvær frestað brottför. Kata ætlaði með eftirmiðdagsfluginu, þennan sama dag. Það stefndi því allt í það að hún færi í loftið á svipuðum tíma og við. En fluginu hennar var líka seinkað, um 1-1 og hálfan tíma. Þá var farið í það að reyna að koma henni í flugið okkar, svo við gætum allar orðið samferða. Það er nú eiginlega skemmtilegra. Svona í hópferð. En allt kom fyrir ekki og starfsmenn flugvallarins sögðu aðra farþega sem áttu pantað tengiflug hafa forgang. Við bitum í það súra epli að skilja við Kötu við útganginn í vélina. Fengum okkur sæti. Og biðum svo. Í dágóðan tíma í þvílíkri mollu inni í vélinni. Hver birtist svo allt í einu á gangi vélarinnar? Kata. Hún hafði talað sig inn í vélina, enda voru enn fjögur sæti laus. Farangurinn hennar var hins veger ekki með, kom með næstu vél. Og hún átti að fá hann daginn eftir. Svo varð hins vegar ekki. Hann kom ekki í hús fyrr en með Berglindi á hádegi á laugardag. Svo allt fór þetta vel að lokum;-)

Ég eyddi sunnudeginum ein á menningarlegum nótum: Fékk mér tesopa og alveg óskaplega góða efteraarskage í elsta konditori í Kaupmannahöfn, La Glace í Skoubostræde 3 (sem Árdís hafði einmitt mælt með; kærar þakkir, Árdís). Svo skundaði ég til baka á Thorvaldsenssafnið, að þessu sinni markvert til að skoða húsakynni safnsins og þá einkum gólfmynstrin. Ég þurfti á smá hressingu að halda eftir safnið, settist inn á kaffihús með appelsínusafa og alveg óskaplega óspennandi ,,brownie''. Skundaði svo aftur niður í bæ og eyddi þeim tíma sem ég átti eftir á erótíska safninu í Köbmagergade. Athyglisvert, en ég verð þó að segja að ég hafði meira gaman af fyrri hluta safnsins.

Við komumst svo áfalla- og tafarlaust alla leið heim til Íslands, allar fimm í sömu vél. Synd að ég skyldi ekki eiga hópmynd til að setja hér inn... Ég fékk annars þær sorgarfréttir í gær að stafræna Sony-myndavélin mín er ónýt. Hún var dæmd úr leik med-det-samme á rafeindaverkstæðinu. Myndflagan ónýt; hún er frekar flókin rafeindatæknilega séð og það tekur því víst ekki að skipta um. Assssskotans. Þriggja ára ending er fremur lélegt, verð ég nú að segja. Litla greyið dettur í fyrra horf af og til, en mjög óvænt og æ sjaldnar. Meðfylgjandi er svo ein artífartí mynd sem átti að verða voða flott:

Hva, sjáiði ekki hver þetta er? Ég, kanallinn og Thorvaldsenssafnið í baksýn. Þessi er hins vegar nokkurn veginn í fókus:

Lítið kríli sem sneri sér lengi vel undan á miðvikudaginn var og vildi lítt sýna sínar betri hliðar. Eftir pot ljósmóðurinnar ákvað það þó að líta aðeins við, til að fá svo e-n svefnfrið. Allt virtist annars vera í stakasta lagi:-) og ég sveif um á dúnmjúku, bleiku skýi það sem eftir lifði dags...

miðvikudagur, október 11, 2006

Biðin langa


Ég lá í greinalestri fram á miðvikudag í síðustu viku, og náði að klára síðasta greinaskammtinn áður en ég hélt í vinkvennaferð SNEMMA á fimmtudagsmorgni. Saumaklúbburinn hafði sum sé skipulagt þrítugsafmælisferð til Köben síðastliðið vor og nú var loksins komið að því. Við höfðum verið svo heppnar að fá leigða íbúð í einni af elstu götum bæjarins til þriggja nátta, í Magstræde. Magstræde liggur rétt við einn kanalinn, einmitt þann sem Thorvaldsenssafnið stendur við. Ég var harla kát er ég uppgötvaði það. Þar að auki uppgötvaði ég líka að í tveggja mínutna göngufæri var garnverslun, Sommerfuglen, sem ég eyddi dágóðum tíma í. Ferðalagið varð þó öðruvísi en vonast var til...

Ég vaknaði rétt upp úr fjögur aðfararnótt fimmtudags. Ég hafði vakað yfir lestri fram á nótt í vikunni og var því ekkert voðalega vel upplögð, en átti þó ekki í miklum vandræðum með að drösla mér fram úr. Ég ætlaði nefnilega ekki að missa af rútunni, þeirri fyrstu sem fór þá nóttina, því ég var búin að mæla mér mót við tvær vinkvenna minna í henni. Ég kom í tæka tíð og sat ein, prjónandi í myrkrinu þar til við komum í Hafnarfjörð þar sem Arnþrúður og Ella biðu. Eins og vera ber kíktum við í Fríhöfnina og skoðuðum okkur um í öðrum búðum. Ég hélt hins vegar að mér höndum, ætlaði nefnilega að vera ógurlega sparsöm í þessari ferð. Ég endaði því með að kaupa e-ð smotterí handa Böðvari og útskriftargjöf handa vinkonu; ekkert handa sjálfri mér. Eftir að hafa náð mér í skyr og banana, bland i poka og setið og prjónað var tími til kominn til að fara út í vél. Landgangur nr. 2. Engin röð. Enginn starfsmaður við hliðir. Ellu minnti ekki betur en að vélin hafi verið ,,on time'' þegar við skráðum okkur inn niðri. Furðulegt. Okkur varð litið á skjáinn: Delayed. Ohh, gaman. Við settumst niður, ég fór aftur að prjóna. Eftir smá stund gall við rödd í hátalarakerfinu: ,,Okkur þykir leitt að tilkynna seinkun á flugi...'' Næstu upplýsingar klukkan tíu. Ég tek það fram að upphaflega átti að fljúga kl 07:15. En það er skemmst frá því að segja að við stöllurnar þrjár eyddum öllum deginum á flugvellinum. Allt þar til við stigum út í vél um 15:30. Til þess eins að bíðan nærri klukkustund í viku þar úti. Níu tíma seinkun og heill dagur af fjögurra daga ferðalagi farinn til einskis. Bömmer. Þeir sem mig þekkja vita þó að ég hef ekki getað setið iðjulaus allan þennan tíma. Sem betur fer hafði ég vaðið fyrir neðan mig og var með hin ýmsu handavinnuverkefni til reiðu. Ég náði að klára smekk sem ég var byrjuð á, tók þar næst til við þvottastykki, sem ég náði að ljúka við líka. Þar næst notaði ég afganginn af garninu til að byrja á öðru með nýju mynstri sem mig langaði til að prófa. Í vélinni byrjaði ég svo á handstúkum með perlum. Ég get því ekki neitað því að dagurinn hafi verið ,,pródúktífur''...

Annars er ég voða spennt núna. Á pantað í sónarskoðun upp úr hádegi. Ætli ég fái að sjá hvors kyns laumufarþeginn er? Annars er voða mikið líf og fjör oft niðri í koti hans, mikil spörk og læti, sér í lagi þegar ég leggst út af á kvöldin. Ég get legið stundum saman og fylgst með poti hér og þar á mallanum. Alveg einstaklega furðuleg upplifun. Engu öðru líkt...

mánudagur, september 18, 2006

Huhh, svo gleymi ég að minnast á Nick Cave! Við fórum sum sé öll saman, fjölskyldan að bera ofurtöffarann augum. Sátum uppi í stúku. Ég var bara frekar ánægð með tónleikana, þótt ég sé reyndar svolítið sammála Hjörleifi með það að það hefði stundum verið skemmtilegra að heyra meiri melódíu frá píanóinu og minna glamur. En Nick tók óskalagið mitt, þótt ég hafi ekki æpt það yfir skrílinn: Rock of Gibraltar. Og gerði það stórvel;-) Ég var reyndar líka að vonast eftir Henry's Dream. En hva, það er víst ekki hægt að fá allt!

sunnudagur, september 17, 2006

Fréttir?Ég gerði þessi líka reyfarakaup í gær: Eftir að hafa farið marga, marga hringi í Stóra Gólfefnamálinu (eldhúsið mitt, holið, hef hlíft ykkur alveg við öllu því rugli) dreif ég mig í Húsasmiðjuna og keypti mér plastparkett á útsölu. Fyrir valinu varð hvíttaður askur, ef ég man rétt. Nú þarf ég bara að finna tíma til þess að koma þessu á gólfið! Hvar sá tími er, veit ég ekki...

Nú, að öllu skemmtilegri hlutum: Örlitlar fréttir sem hafa kannski ekki borist til allra minna bestu vina:

Ábending 1: Tvö hjörtu slá næstum því í takt; annað bara helmingi hraðar en hitt.
Ábending 2: Langtímaverkefni.
Ábending 3: Fékk smá aðstoð;-)

Af frekari afrekum mínum er annars lítt að frétta. Nema ef vera skyldi að þið hefðuð e-n áhuga á prjónaskap;-) (Tengill til vinstri...)

mánudagur, september 04, 2006

Viðbrennt uppstúf í massavís og enn fleiri mistök


Það er víst ekki alltaf nóg að láta sig dreyma um hlutina. Ég fór því heim á fimmtudaginn var, setti bjúgun og kartöflurnar í pott og tók til við að gera uppstúf, í fyrsta sinn á minni annars viðburðaríku ævi! Nú, þeim sem til mín þekkja finnst ég yfirleitt vera ansi þolinmóð, einkum er kemur að handavinnudútli. En þegar kemur að eldamennsku... Mér finnst yfirleitt tímasóun að standa yfir pottunum, a.m.k. er það ekki alltaf það skemmtilegasta sem ég geri. Mér tókst sum sé að brenna uppsúfið, heldur betur. Afraksturinn voru tvær fullar skálar af óætri hveitisósu og mjög svo svartar skófir í pottinum. Þar sem Böðvar var ekki kominn enn tók ég fram stálullina og byrjaði upp á nýtt. Það er ekki hægt að hætta á miðri leið...

Nú. Eftir matinn fór ég að huga að því að ljúka skrautritunarverkefninu. Það vantaði aðeins punktinn yfir i-ið, smá skraut neðan við textann, er ég uppgötvaði ,,smá'' mistök. Það vantaði eitt té í ljóðið

Þú sem kveikir ástareld...
í stað
Þú sem kveiktir ástareld...

Smávægileg mistök? Veit ekki. Böðvar fór með mér á rúntinn og við reyndum að finna aðra eins minningarbók. Fórum í þrjár bókabúðir en án árangurs. Var orðin heldur stressuð en ákvað að redda þessu morguninn eftir og mæta klukkan átta í Pennan í Hallarmúla.

Bókin var ekki til þar heldur. Og ég átti að skila af mér þennan sama morgun. Ég rauk heim í ofboði og ákvað að skrifa á karton og líma yfir. Þá uppgötvaði ég önnur mistök, sem ég vildi alls ekki að nokkur sæi: Ég hafði af e-m undarlegum ástæðum skrifað vitlaust millinafn í bókina. Í snarhasti hætti ég við kartonið og tók fram dúkahnífinn. Það var lítið mál að skera fyrstu síðuna snyrtilega úr og með mikilli einbeitni og hæfilegu stressi tókst mér að skrifa allt saman upp á nýtt, áfallalaust.

Ég slapp með skrekkinn.

Og sultaði af miklum móð um helgina. Ég á nú 13 krukkur af dásamlega fallega rauðu rifsberjahlaupi og svolítið af sólberjum fyrir sultu. Eins gott því ég þarf að fóðra heilann vel af sykri fyrir næsta verkefni. Það er nokkuð víst.

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Vansvefta


Ég fékk fyrsta skrautritunarverkefnið mitt í gegnum símaskrána í gær. Ég ákvað að klára verkið í gærkvöld og vakti allt of lengi. Ég er því hálfvansvefta í dag (sem oftar). Læt mig nú dreyma um heit kindabjúgu og uppstúf.... Ummmm.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Fýla


Ég tók 2-3 tíma í þrif og þvott heima í gær. Ég er að reyna að stræka á að þvo sameignina þegar öðrum bera að vinna verkið. Ég gafst þó upp í gær og skúraði niður stigann eftir að hafa gert hreint inni hjá mér; en þó ekki jafnvel og venjulega. Og sem verra var, reykingarfnykurinn náði alveg að kæfa skítafýluna á ganginum. Og er ég var komin niður bættist við spíralykt. Þannig að rétt eftir hádegi á sólríkum sunnudegi lyktaði stigagangurinn heima eins og knæpa klukkan þrjú að nóttu til. Þetta er alveg hreint dásamlegt!

Mér tókst að klára að prjóna lopapeysuna á laugardag, ég þvoði hana svo í gær. Ég er harla ánægð, held ég bara. Rennilásinn keypti ég í dag og kannski nenni ég að sauma hann í í kvöld, þegar ég fæ Siggu Sif í heimsókn í prjón og spjall.

Hvað á maður annars að gera við svona lata og óþekka nágranna?

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Sneypuför að Langasjó

Á föstudag héldum við Böðvar og Björn austur á bóginn. Förinni var heitið inn í Hólaskjól, þar sem við ætluðum að hitta aðra göngufélaga um kvöldið. Ég vildi nota daginn í skoðunarferð svo við stoppuðum hér og þar, skoðuðum Seljalandsfoss, Gljúfrabúa, Skógarfoss (Björn er sérlega hrifinn af fossum). Kíktum líka í sund í Vík og strákarnir fengu sér þar ,,djúsí'' hamborgara. Hmmm, og ég kannski líka.

Það var súldardrulla allan daginn, og þar eð við höfðum fengið þau skilaboð frá ferðafélögum okkar að þau ætluðu að gista í Landmannalaugum, sáum við þann kost vænstan gista í gamla húsinu á Norðurhjáleigu, í stað þess að keyra í myrkrinu inn í Hólaskjól og tjalda þar í vætunni.

Enn rigndi daginn eftir. Hópurinn lagði af stað hálf-eitt frá suðurenda Langasjávar, norður eftir vatninu. Svo var gengið með stoppum til sex, þegar við tjölduðum þar sem við höfðum gengið h.u.b. 2/3 inn vatninu, eða rúmlega til móts við Fagrafjörð. Og enn rigndi. Skyggni var lítið og Fagrafjörð sáum við aldrei. Menn fóru snemma inn í tjöld sín, og allflestir voru sofnaðir um níu-leytið! Ég sat þó inni í tjaldi og saumaði út til ríflega hálf-tíu. Þá var mér farin að leiðast einveran (Böðvar var búin að ,,durra'' síðan um átta-leytið) og ég kom mér í háttinn. Enn herti rigninguna um nóttina, og heldur hvessti líka. Ég vaknaði öðru hverju við veðrið en svaf að öðru leyti vel á nýrri dýnu og í hlýjum og þurrum pokanum. Morguninn eftir kom þó í ljós að það voru ekki allir jafn þurrir og greyið hann Björn hafði hríðskolfið mest alla nóttina. Enn aðrir voru með raka poka, og enn rigndi svo það var afráðið að snúa við, enda skyggni afar lítið.

Í Hólaskjóli beið okkar skáli og heit sturta, gnægð matar og drykkja og í stuttu máli sagt var etið, drukkið og sungið til hálf-fjögur þá nótt. Menn vöknuðu svo í brakandi blíðu næsta morgun. Enginn minntist þó á að snúa aftur og ganga á Sveinstind!

Björn fékk því aðra og betri útsýnisferð á heimleiðinni, og var bara harla sáttur.

En ég hef aldrei nokkurn tíma þurft að snúa við áður. Einu sinni er allt fyrst, býst ég við. Réttast er að láta skynsemina ráða. Eða eru þetta e-r ellimörk???

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Slurp...
Er á öðrum frostpinnanum í dag. Síðan á hádegi. Varð að athuga hvort að sykurlaus ananas hlunkur bragðaðist jafnvel og venjulegur ananas hlunkur.
Svo reyndist vera:-)
Rúmar 14 gráður á Celsíus úti.
Þessi sumarhiti, fer alveg með mann!

Á í dag von á gesti alla leið frá Uppsölum.
Björn Bergman ætlar að gleðja okkur með nærveru sinni og ég dreg hann með í Eyvindargöngu í kringum Langasjó næstu helgi. Vonandi fær hann skaplegt veður, strákurinn.

föstudagur, júlí 21, 2006

Alger þögn rofin


Mér brá heldur betur í brún áðan er ég fékk aðvörun frá ,,The Blogg Police'' senda til mín, óforvarendis:

Attention Attention Attention

Message to: "beauty is pain!"

Date: July 21st 2006


WARNING!

This is an automatic blogg reminder, that activates itself after two months of no blogg activity from the reciever of this message .... or what is somtimes called "total silence". Since "total silence" is not at all good for the well-being of our beloved internet, action has to be taken - immediately. By you.

You are therefore and hereby strongly urged to break the silence and take full advantage of the internet.
...

Mér fannst þetta óskaplega fyndið en hrökk í kút og ákvað að gera e-ð í málunum.

Málið var að eftir að ég kom heim frá Uppsölum fannst mér allt falla í sama gamla horfið og óskaplega lítið spennandi gerast. Auk þess myndi ég hitta alla reglulega og fólk væri því lítið að kíkja þessa blessað síðu. Hér vil ég enn fremur minna á að ég hef heldur ekki uppfært prjónabloggið í enn lengri tíma! Svo ég er í vondum málum þar líka. Sem ég er annars að reyna að bæta úr þessa dagana því ég keppist nú við að klára lopapeysu svo ég hafi frá e-u ,,spennandi'' að segja;-) Það mætti því segja að viðburðarríkt líf mælist í fjölda prjónaðra lykkna um þessar mundir.

Áður en ég kvaddi vini í Uppsölum héldum við Stína og Pálmi kveðju-Mojito partý. Viðstaddir reyndu glænýjan grip sem húsfreyjan hafði gefið spúsa sínum í afmælisgjöf:

Mojito-drykkirnir höfðu tilætluð áhrif og jafnvel saklausustu stúlkur úr Hafnarfirði freistuðust til að prófa:


Daginn eftir lögðum við Böðvar af stað til Stokkhólms eftir ausandi þrumuskúr. Við héldum beint til hafnar og í þessa líka glæsilegu ferju sem bar hið sjarmerandi nafn M/S Romantica:Gamli bærinn í Tallin er afar heillandi og vel þess virði að leggja á sig ferðalag fyrir. Við gengum um götur og torg, kíktum inn í hinar og þessar kirkjur og keyptum handprjónaða vettlinga. Ég varð þó enn kátari er Böðvar fann fyrir mig eintök af "Eistneskir vettlingar I og II" (=prjónauppskriftir) í bókabúðinni. Þvílíkur happafengur!

Böðvar var svo dregin um Gamla Stan í Stokkhólmi er ferjan kom til baka daginn eftir. Svo var fríið á enda og allt féll lífið í fastar skorður heima á ógnarskömmum tíma.

Er sumarið annars loksins komið? Bjórvinir ætla að grilla í dag til að fagna sólarglætunni. Ég ætla að kíkja með lopapeysuna mína og snúsnú bandið. Og reyna að prjóna sem mest svo ég hafið frá e-u merkilegu að segja sem fyrst;-)

sunnudagur, maí 21, 2006

Olnæter


Nú stefnir í lítinn svefn. Enn eina ferðina. Í þetta sinn í örvæntingu við að reyna að bjarga prófinu í fyrramálið!

Ojæja. Ég fann varalit, varalitablýant og gloss í veskinu mínu, sem ég gleymdi að nota í gærkvöldi. Er nú með afar vel málaðar og glansandi varir. Ekki verra við lesturinn! Mér tókst líka að ná mér í pízzu áðan, hálftíma fyrir lokun Bláhornsins hér í nágrenninu. Og ég get svo svarið það hun rann fljótt niður. Var ekki alveg buin að gera mér grein fyrir hversu svöng ég var orðin. Ég var nú samt ekki gráðugri en það að ég gaf Stínu tæpa hálfa pizzu. Held að hún sé líka enn að við greinarskrif, er víst með dellu á morgun (della=deadline).

Já, dásamlega stúdentalíf;-)

föstudagur, maí 19, 2006

What's up dog?


Ég brá mér í heimsókn í gærkvöldi og kíkti á Júróvísjón. Jahhh, þvílík vonbrigði! Silvía okkar Nótt komst ekki í hóp hinna útvöldu í gærkvöld! Ég lagði samt mitt af mörkum til að svo yrði! Auðvitað. Þótt ég hafi reyndar verið frekar viss um að svona færi. En, mér til ómældrar ánægju rokkaði Finnland feitt og komst inn, svo og Dressman-liðið frá Lettlandi. Afar svalir;-)

Hér er ekkert sumarveður sem stendur. Skýjað og dumbungslegt, sem er kannski ekki svo slæmt þar sem ég er að fara í próf á mánudaginn næsta. Og ég á eftir að lesa slatta.

þriðjudagur, maí 02, 2006

30


Er ekki alltaf rétti tíminn fyrir freyðivín og jarðarber með súkkulaði og kókos?
Jú er það ekki?

Bauð upp á slíkt hér upp úr þrjú úti í garði. Hefði bara átt að kaupa tíu flöskur, en ekki þrjár. Það hefði bara verið svo helv... þungt að bera þær hingað úr bænum.
Ætlum út að borða í kvöld á e-n tyrkneskan stað niðri í bæ.

Ég hef ekkert heyrt frá Böðvari. Ætli hann hafi gleymt mér? Ég trúi því ekki!

föstudagur, apríl 28, 2006

Eldhús í spariklæðunum


Í dag rignir. Mér sýndust trén rétt vera að taka við sér í vætunni.

Minn elskulegi bróðir gerði mér þann greiða að taka fáeinar myndir um páskana af eldhúsinu mínu. Ég setti þær inn hér.

Ég vildi hafa sem mest hvítt og málaði því veggi hvíta og lakkaði innréttinguna einnig í þeim lit. Svo hafði ég keypt þessar möttu, svörtu flísar fyrir rúmu ári síðan (þær biðu aðeins of lengi undir rúmi...) og ég ætla mér að flísaleggja gólfið, og ganginn líka, með grásvartri, mattri skífu, þ.e.a.s. þegar ég hef ráð á. Í þriðja lagi vildi ég burstað stál (háfurinn, aukahlutir) en til að lokaútkoman yrði ekki allt of kuldaleg ákvað ég að hafa viðarplötu á eldhúsbekknum og velja límónugrænt sem aukalit (fyrir aukahluti). Það er auðvelt að skipta honum út.

Jæja, hvernig líst ykkur svo á?
Til samanburðar getið þið hér séð e-r myndir daginn sem ég tók við íbúðinni: Grænt og gult, sjá myndir 4 og 11-15.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Sveppaþema


Já, lífið á Truffluveginum er bara fínt. Rólegt og gott. Á sunnudgasmorgun fór ég í smá könnunarferð út í Haukadal og skóginn, sem er ekki nema hálfa mínútu frá útidyrunum. Ég rölti um í klukkutíma í sólinni, sá blóm stinga sér upp úr þurrum og enn litlausum sverðinum. Verst að ég gleymdi myndavélinni, hún hefur ekki verið mikið notuð síðan ég kom.

Ég tók eftir því er ég skrapp í búðina um helgina, að strætóstoppistöðin mín ber nafnið Sveppatorgið. Þegar betur var að gáð eru göturnar í kring kenndar við hinar og þessar sveppategundir. Skondið:-)

föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar


Sumarið kom alls ekki með bros á vör til Uppsala í gær. Ég vaknaði í grenjandi rigningu. Mér fannst það næg ástæða til að láta hjólið eiga sig og taka strætó. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að sitja skjálfandi í nokkrar klukkustundir í rennblautum gallabuxum. Svo ekki sé nú minnst á vandræðin sem ég lenti í á heimleið í fyrradag: keðjan fór tvisvar af aftara tannhjólinu. Mér tókst að koma henni aftur upp á en var öll útötuð í olíudrullu.
Rigningin í gærmorgun breyttist svo í slyddu þegar leið á morguninn. Já. Ég gerði mér samt glaðan dag. Rölti niður í bæ og keypti mér nammigott í konditorí Fuglasöngnum. Fór svo í prjónabúðina og keypti mér ennþá meira "nammigott fyrir sálina" þar:-)

Annars er ég búin að vera voða, voða dugleg við að halda mér frá sætindum síðan ég kom hingað. Að páskaegginu undantöldu. Samt virðist vigtin ekki vera mér sérlega hliðholl. Djöfulli er það nú fúlt!#$%%!!#$%)!

Ojæja sólin er þó aftur farin að skína í dag. Ég er líka flutt á Tryffelvägen til Cedrics, kunningja míns svissneska. Og það lítur allt út fyrir að ég geti verið þar þar til ég fer heim. Vúííí. Ég var nefnilega farin að hafa verulega áhyggjur að þurfa vera eins og jójó hingað og þangað þar til ég færi.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ef flugur lenda á bakinu verða þær algerlega bjarglarlausar! Furðulegt.

Þegar ég er ástfangin verð ég algerlega berskjölduð og stressuð. Ergilegt.

Dagurinn silast áfram. Hvað á ég að hafa í matinn á eftir. Spagettí? Er það ekki bara?

Heyrðu mig. Flugan bjargaði sér víst. Hún er nú aftur farin að suða í glugganum hjá mér. Glugganum sem ég má víst ekki opna.
Hmmm. Nei, ég er reyndar ekki alveg komin með lestraráætlunina á hreint, en ég gerði gott betur og bókaði far til Finnlands til að hitta Siggu Sif 13.-15. maí. Vííí. Ég hlakka til! Það er ódýrara að ferðast til Helsinki með Flyme heldur en að fara með nettilboði á Sauðárkrók (frá Reykjavík, þ.e.a.s). Menn geta vart kallað mig ,,heimska'' eftir þessa Svíþjóðardvöl!

Sólin skín


Já, sólin hamast við að skína, vorið hefur hafið innreið sína til Uppsala, sem og annars staðar, geri ég ráð fyrir. Ég reyni að pína mig til að lesa. Einbeitingin er svona svona, kannski allt í lagi í dag en ég les allt of hægt. Ég er því orðin svolítið (mikið) stressuð og hyggst gera smá lestraráætlun í dag. Hræddust er ég þó um að ég nái ekki að skrifa staf í ritgerðinni. Hmmmm.

Ég tók þá ákvörðun að nota síðustu dagana mína hér úti til að skoða mig um. Ég náði í flugmiða með IE á feykigóðu verði og býð því Böðvarimínum hingað í fjóra daga. Við fljúgum svo heim sama dag, en með sitthvorri vélinni. Svolítið leiðinlegt, en það eru aðeins 40 mínútur á milli flugvélanna. Ég gerði gott betur, og pantaði siglingu fyrir okkur á helmingsafslætti til Tallinar! Við munum því eyða tveimur kvöldum/nóttum á dalli á Eystrasaltinu, og höfum svo tæpan dag til að skoða okkur um í borginni! Ooooo, ég er farin að hlakka til.

Helst þyrfti ég þó að komast líka í heimsókn til Siggu Sifjar í Helsinki. Og plana e-ð sniðugt með mömmu, sem kemur hingað fjögurra daga heimsókn í byrjun maí. Það er því nóg að gera.

Ég sakna samt sumra heima alveg óskaplega...

þriðjudagur, apríl 11, 2006

hey Ya...

My baby dont messaround caus she loves me sooooo auhhhhh


Vorið hefir hafið innreið sína hingað til Úfsala. Snjórinn sem lá hér víst yfir öllu fyrir viku síðan hörfar nú óðum, einstaka skaflar eftir. Sólin vermir Frónbúa á heimaprjónaðri lopapeysu. Ég er búin að fá úthlutaðri þessari líka notalegu skrifstofu, með útsýni yfir afar sænskt og fallegt, gult hús hinum megin götunnar (þarf að ná á mynd fyrir ykkur). Ég hefi líka endurheimt hjólfákinn minn glæsilega, svörtu þrumuna (útheimtir einnig mynd) og mun nú reyna að rata hjólandi heim á eftir. Hér er víst 9 stiga hiti, ótrúlegt en satt! En sveiflast niður fyrir núllið að næturlagi.

Mér sýnist ég vera í þrusukúrs, RR skrifa jöfnur með krulli og dívergens á töfluna í þrjár klukkustundir á dag. Á morgun bætist svo við tveggaj klst dæmatími síðdegis. Ég er þvi vart í afslappelsi hér, a.m.k. ekki á meðan ég næ upp dampinum!

mánudagur, apríl 10, 2006

Halló heimur!

Þá er ég komin til Svíþjóðar, nánar tiltekið á Altfiolvägen í Gottsunda. Hér var ágætisveður í gær og síðdegis í dag, léttskýjað og ekki svo kalt (um 2 gráður, svo við höfum nú smáatriðin á hreinu;-) Nú, ég rogaðist með mína 25 kílóa tösku í lestina og svo í troðfullan strætisvagninn. Var uppgefin (en þó aðallega svöng) er ég kom loks inn í íbúð og réðst á goslaust kók (já!) og flögupoka inni í skáp. Ohhhh.
Ég afrekaði þó um síðir að rölta út í Gottsundacenter og kaupa sitthvað ætilegt í ICA: jógúrt, ávaxtasafa, mandarínur, sultu, og alveg hræðilega óspennandi sænska limpu... Það er satt sem Pálmi segir: Svíar kunna ekki að baka brauð.

Í morgun fór ég á alcapóne-bílnum í skólann í fyrsta fyrirlesturinn. Mér tókst að rata, eins og ég ætti heima hérna, líka út á völl að sækja húsráðendur. Ojæja, mér er fátt skemmtilegt ofarlega í huga. Sakna bara strax sumra heima, það er nú bara svo. Ægilegt að verða svona háð sumur fólki;-)

mánudagur, mars 13, 2006

Persónuleiki


Hversu vel þekkið þið mig? Ég apaði eftir Skringsli og setti upp stutt próf sem tekur ekki nema hálfa til eina mínútu. Prófið það!

Sólin vermir harðfennið í mælireitnum. Ég fitjaði upp á enn einni peysunni í gær, og náði að prjóna upp að höndum (þetta er lítil peysa). Ég kíkti líka á bráðskemmtilega tréútskurðarsýningu í Tjarnarsal Ráðhússins, kíkti í bókabúð niðri í bæ og keypti mér bráðgirnilega köku. Ég kíkti líka í bíó og sá þessa líka góðu mynd, The Constant Gardener. Hún fékk mig til að hugsa um þann fjölda manns sem lætur lífið árlega við það að reyna að gera heiminn ögn betri, þar sem siðferðisleg blinda og spilling ráða lofum og lögum. Mynd sem svo sannarlega skilur margt eftir. Ég mæli með henni.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Enn ein peysan


Eitthvað er ég farin að vanrækja þessa síðu. Nú, til að vera kona með konum (sbr. maður með mönnum) er ég búin að koma mér upp prjóna-dagbók, þar sem ég segi frá afrekum mínum í því sviði og handavinnuhugleiðingum hvers konar. En það er ekki þar með sagt að ég geti ekki montað mig hér líka!

Síðustu helgi dvaldi ég í sumarbústað nærri Laugarvatni með Böðvari og allri hans stórfjölskyldu. Veðrið var dásamlegt, stilla og heiðskýrt, og þar af leiðandi svolítið kalt. Ég var búin að gleyma því að til væru svona margar stjörnur! Vá, það er langt síðan ég hefi farið út úr bænum að vetrarlagi á svona stjörnubjörtu kvöldi. Að sjálfsögðu prjónaði ég sem mest ég mátti og náði að klára Fönn, létt-lopapeysuna á Böðvar, á sunndugagskvöld. Hún lítur svona út:


Ég keypti garn í aðra peysu á B. í febrúar, og er rétt byrjuð á bolnum. Af eldhúsinu er það að frétta að JGE hefur eytt dágóðum tíma í að hjálpa mér og er nú búinn að festa upp háfinn, ljós undir efri skápum og færa loftljósið. Það er því bara smotterí eftir og spurning hvort ég fari ekki að henda inn myndum af nýja elhúsinu, og hvernig það var áður!

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Kvöldstund við sjónvarpið


Sit og prjóna og horfi á sjónvarpið. Bráðavaktin á dagskrá. Slösuð kona kemur inn og er að fæða barn með miklum ópum og kveinstöfum. Ylfa Rós (5 ára) segir íbyggin: Ég ætla sko aldrei að eignast barna þegar ég verð stór. Ég ætla að verða eins og mamma og vera ekkert að eignast börn.
Ég: Núhhh, en mamma þín á börn, ykkur tvær!
YR: Já, en núna er hún ekkert að eignast börn og ég ætla að verða eins og hún.
Ég: Aha
Þögn
YR: Hvenær ætlar þú að eignast lítið barn?
Ég: Uhhh, ummm, þegar ég finn einhvern sem vill eingast barn með mér.
Stutt þögn.
YR: Af hverju spyrðu ekki bara pabba?

Alveg hreint kostulegt;-)

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Flísalögn


Á laugardaginn var kom pabbi og lagði með mér flísar. Hann kemur væntanlega í kvöld og lýkur við verkið. Ég get ekki beðið eftir að þetta klárist. Ég er orðin svoooooo leið á að hafa allt í drasli og skít!

Ég prjóna og prjóna og er nú komin vel á veg með peysuna á Böðvar; bolurinn er ég búin að prjóna upp að höndum og er langt komin með fyrri ermina. Ég byrjaði fyrir 10 dögum. Þótt ég sé í vinnunni núna er ég alltaf að fá nýja og nýja hugmynd að peysum eða útfærslum, litasamsetningum o.s.frv. Hmmmm, það er nokkuð ljóst hvað ég er með á heilanum núna;-)

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Fyrsta greinin birt


Í kvöld ætla ég að skála. Fyrir sjálfri mér. Ég er nú búin að fá eintak af Jökulgreininni um skjálftavirkni árið 2004 og þar með búin að fá birta fyrstu ritrýndu greinina sem ég er aðalhöfundur að (hún fékk nú reyndar svona skyndiritrýningu, en hvað með það). Húrra fyrir því!!!

Stelpurnar koma í saumó til mín í kvöld. Ég náði að pússa borðplötuna og olíubera í gær. Eldhúsið er því svona smátt og smátt að taka á sig endanlega mynd. En í kvöld verður kjaftað. Og prjónað.

Ég er vanalega á þönum að gera hitt og þetta meðan ég borða morgunmatinn; til að nýta tíman á meðan ég tygg múslíið. Það er nú eiginlega hollara að setjast niður og gefa sér tíma í að næra sig. Svo ég ákvað að prjóna á meðan ég mataðist. Þá gat ég nefnilega gert tvennt í einu. Og setið kyrr. Sniðugt. Peysan á Böðvar potast sum sé áfram.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Skrautritari óskar eftir verkefnumOhhhh. Dásamlegt. Ég fékk þessa stórgóðu hugmynd hvernig ég get fengið sjálfa mig til að lesa fleiri vísindagreinar (á eftir að lesa slatta t.d. fyrir ritgerðina...): Ég prjóna á meðan ég les!!!

Breytingar á eldhúsinu standa enn yfir. Um helgina sótti ég eikarlímtrésplötuna sem ég var búin að panta. Hún var nú ekki gefins! JGE kom í gærkvöld og hjálpaði mér að fella hana inn á sinn stað og skrúfaði fasta. Ég á því eftir að pússa hana fína og olíubera og mun ég hefjast handa við það verk í kvöld. Annars er eldhúsinnréttingin nú þegar tekið stakkaskiptum því ég er búin að hvítlakka hana nær alla. Nokkrar hurðir þurfa eina til tvær umferðir í viðbót. Það hefir birt mikið til. Pabbi kemur á laugardagsmorgun og hjálpar mér við að flísaleggja milli skápanna og við eldavél og vask. Ég er farin að hlakka til. Svei mér þá.

Ég ákvað að taka að mér smá aukastarf sem mér bauðst, og hef hafnað hingað til. Ég kenni nú einum hóp verklega eðlisfræði í Háskólanum á föstudögum, og hef nú þegar kennt tvisvar, tvö skipti eru eftir. Það hefur gengið svona lala, en ég hef bara gaman að þessu. Það er heldur ekki slæmt að fá svolítinn aukaskilding í budduna, þótt það verði varla neitt að ráði. Það munar þó um það. Eftir að ég fékk skrautritunarverkefni frá Veðurstofunni fyrir síðustu áramót, og ágætlega greitt fyrir, hugsaði ég með mér að ég ætti að reyna að koma mér e-ð á framfæri og hafa þetta sem aukabúgrein. Svo nú er ég titluð í símaskrá sem jarðeðlisfræðingur og skrautritari. Mig er einnig að finna í gulu síðunum en hvort ég fæ e-ð að gera út á þetta er annað mál. En það sakar ekki að reyna.

Ég þarf að fara til Uppsala til að taka einn kúrs í viðbót. Auk þess ætla ég að reyna að skrifa RITGERÐINA. Ég verð því væntanlega úti mestallan apríl og maí. Ég er því alvarlega að velta því fyrir mér að leigja út íbúðina í þessa tvo mánuði með húsgögnum og fl. Ef þið vitið um e-n sem hefði áhuga og er snyrtilegur, og ábyrgur (og reykir ekki inni) megið þið gjarna láta vita.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Nútíminn


Ég er komin með dyrasíma;-? Rafvirkinn kom loks síðdegis í gær og hófst handa við að tengja. Það tók dágóðan tíma að draga gömlu vírana úr, þeir voru nánast grónir við leiðslurnar. Strákgreyið var að til hálf-tólf. Ég bauð honum upp á e-a hressingu og hljóp að síðustu niður með glasið með appelsínusafanum því hann gaf sér ekki tíma til að klára. Hann sagðist að sig langraði varla heim, það væri dekrað svo við hann;-) Mér finnst nú lágmark að menn næri sig e-ð...

Ég hélt áfram að stússast í innréttingunni í gær. JGE, sem er nú sem áður hin besta hjálparhella og haukur í horni, kom og náði stálkantinum framan af eldhúsbekknum og gaf mér góð ráð við lýsingu, sem er þar engin. Mamma kom líka og hjálpaði til við að grunna skápahurðir, á meðan ég renndi yfir með lakki á skúffur og vaskskáp. Þetta mjatlast.

Ég gerði svolítið af mér í gær:-} Keypti nokkrar dokkur af léttlopa í peysu. Ég ætla að breyta litunum og er að hugsa að nota tóna í stað eins lits í mynstrið. Hmmmm, skiljiði hvað ég á við? Dökkblágrænan neðst, svo ljósblágrænan og efst ljósgráan. Grunnliturinn er hærusvartur. Æ, veit ekki hvort þetta virkar ætla að gera prufu fyrst. Er annars með varaplan.

Í kvöld fer ég með Dóru vinkonu að kíkja eina á eina nýfædda og færa henni sams konar sokka og dóttir mágkonu minnar fékk (er sum sé búin að gera tvö slík pör). Ég er byrjuð á hjálmhúfu í stíl:mánudagur, janúar 30, 2006

Hamast og ryk í öllum vitum


Og enn pússaði ég og pússaði um helgina. Ég er nú langt komin með vaskborðið og skúffurnar tólf; klára líklega í kvöld. Mamma kom og hjálpaði mér í gær að grunna skápagrindina. Ég byrjaði líka á að grunna skápahurðirnar tíu. Mikið verk eftir.

Ég lauk líka við húfuna gulu handa júníbarninu. Er byrjuð á annari eins í stíl við hosurnar yrjóttu og ætla að gefa barninu hennar mágkonu minnar, í viðbót við hosurnar sem ég afhenti á föstudaginn var. Iða nú í skinninu eftir að komast í að velja lopa í peysu handa Bö. Er með hugmynd í kollinum og þyrfti að bera saman liti. Ég þyrfti að komast upp í Ístex og verða mér úti um litaspjöld...

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Unaðsstundir í eldhúsinu?


Nei, ekki alveg. Þótt ég dvelji þar löngum þessa dagana. Ég tók mig nefnilega til síðustu helgi og málaði loks eldhúsið hvítt. Eftir þrjár umferðir á loft og veggi var ég komin í framkvæmda gír og ákvað að pússa aðeins yfir gluggann og lakka. Og taka innréttinguna í gegn líka. Ég tók mér frí frá vinnu í gær og sat við að pússa skúffurnar og grunna. Ég er líka byrjuð á að pússa upp skápahurðirnar. Þetta er ansi mikil vinna og nokkuð ljóst hvað helgin mun fara í;-) Ég keypti flísar fyrir ári síðan (já!!!) og fæ pabba til að hjálpa mér að flísaleggja þegar innréttingin verður orðin klár. Mig dreymir líka um að flísaleggja gólfið hið fyrsta, þar sem línoleum dúkurinn á eldhúsinu er svo skelfilega slitin að hann virðist alltaf vera skítugur. Ég er líka búin að sletta vel af málningu og lakki á hann. Er spennt að klára því á meðan framkvæmdunum stendur er allt í drasli inni í stofu. Ég þoli ekki óreiðu. Ordnung, Danke schön.

Fréttir af hannyrðum. Er nú búin að prjóna tvenna sokka fyrir stúlkurnar tvær sem fæddust í janúar. Í gærkvöld byrjaði ég svo á gulri húfu fyrir júníbarnið. Sum sé, allt á fullu.

föstudagur, janúar 20, 2006

Fæðingar á fullu tungli


Matseldin fyrir hátíðarfund í síðustu viku tókst líka bara svona rosalega vel að allir voru hæstánægðir, að ég held. Böðvar hjálpaði mér að skera niður lærin sex í gúllas, kvöldið áður; eða öllu heldur nóttina áður því við vorum að til þrjú! (Byrjuðum reyndar seint). Vorum svo aftur að til þrjú, en að þessu sinni við bjórdrykkju og hangs á Celtic Cross.

Ég var því frekar þreytt morguninn eftir þegar ég var vaknaði við Sms-píp klukkan átta. Druslaðist þó fram úr til að kíkja. Þarna fékk ég gleðifréttir því í skilaboðin voru þau að æskuvinkona mín hafði eignast sitt fyrsta barn fyrr um morguninn, stúlku. Ég skreið svo aftur upp í rúm. Um 10-leytið var ég aftur vakin og í þetta skiptið hringdi sími Böðvars. Hann nennti þó ekki að ansa og snéri sér á hina hliðina. Í hádeginu kom þó í ljós að mamma hans hefði verið að hringja með þær fréttir að systir hans væri loks búin að eiga; stúlku. Þess má geta að á laugardaginn var fullt tungl.

Um kvöldið fór ég í afmæli vinkonu. Fannst ein úr saumaklúbbnum vera orðin svolítið gild. Og hvað haldiði? Ólétt, á að eiga um páskana. Nú, vinkonum mínum færði ég svo þau gleðitíðindi að önnur úr saumó væri líka ólétt, á að eiga í byrjun júní. Ég sit því við á kvöldin og prjóna barnasokka. Eins gott að ég fari að gefa svolítið í, ekki veitir af. Þvílíkt og annað eins.

Hvenær ætli komi að mér?

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Prjónamanía


Halló, halló. Still alive and kicking!
Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir/lesendur. Ég hef það bara ágætt, mig hrjáir helst óskapleg rit-leti, hef ekki nennt að skrifa hér staf (né í "ritgerð" minni) í mánuð. Skammdegið hefur farið soldið illa í mig þetta árið. Ferðin til San Fran var fín fyrir lundina, en ég hefði helst þurft að halda áfram suður á bógin og vera e-s staðar í sólinni fram yfir áramót. Það er komin svolítil snjóföl hérna núna, svo það hefur birt dulítið til.

Í vinnunni er ég að reyna að kreista út úr mér skýrslu um efni sem ég hef verið að vinna að í desember. Er líka að skipuleggja stórmáltíð fyrir hátíðarfund Bjórvinafélagsins á föstudag. Fer í Fjarðarkaup á morgun og kaupi sex læri sem ég pantaði í dag! Hvað ætli þurfi marga bolla af hrísgrjónum fyrir 30 manns:-?

Er líka haldin prjónamaníu um þessar mundir. Er með hitt og þetta í gangi, var að byrja á peysu fyrir mater, sem mér finnst ekki alltof skemmtilegt að prjóna, keypti því efni í húfu fyrir frænku mína sem ég prjónaði í fyrrakvöld og gærkvöld, en leist ekkert alltof vel á svo ég rakti hana upp. Er hins vegar komin með stórfína hugmynd að jólagjöfum og langar til að hrinda henni strax í framkvæmd. Langar líka að byrja á vesti á sjálfa mig núna strax. Var svo að klára þessa sokka, sem eru á myndinni hér að neðan, og var byrjuð á peysunni við... Sum sé, nóg að gera, en hef lítinn tíma fyrir nokkuð annað en prjónaskap!;-)