mánudagur, október 31, 2005

...En krúttið mitt ég vil þig, því hugur þinn er svo ofboðslegt flæmi!



Ég sat hér á vakt um helgina, potaði í nokkrar stöðvar og pikkaði skjálfta með Megas í eyrunum. Gluggi skrifstofu minnar veit að mælireitnum, sem er snævi þakinn um þessar mundir. Ég var fegin að komast út upp úr hádegi og hóaði í Böðvar og Berglindi. Skíðin voru sett í bílinn og svo var brunað upp í Skálafell. Við fundum nægan snjó meðfram veginum upp að möstrum. Púluðum áleiðis upp brekkuna og renndum okkur svo niður. Á leiðinni reyndum við Þelamerkurbeygju til hægri. Vinstri beyjan var ekkert æfð í þessari ferð; til þess hefðum við þurft að fara yfir veginn.

Aumingja Böðvar, fær ekkert kjet hjá mér! Ég eldaði grænmetissúpu á föstudagskvöld og bauð vinkonu minni og unnusta hennar í mat. Eftir skíðaferðina á laugardag gerði ég grænmetisböku. Ég var líka búin að skipuleggja matarboð á sunnudagskvöld og gerði fiskisúpu og gúmmulaðisúkkulaðikökur með hindberjasósu. Reyndi að hafa það svona í fínna lagi, því foreldrar Böðvars og mater komu í mat. Held þetta hafi heppnast ágætlega, nema það var fátæklega lítið af fiski í súpunni. Kona verður nú að reyna að sýnast svolítið húsmóðurleg, er það ekki? Slatti af uppvaski bíður mín heima núna. Jei...

miðvikudagur, október 19, 2005

Jökulgreinina sendi ég núna áðan fyrir kaffi. Vei. Þetta hefur tekið miklu meiri tíma en mig óraði fyrir. Það tók langstysta tímann að skrifa uppkastið. Það hefur tekið ívið lengri tíma að laga og láta lesa yfir og laga, og láta lesa yfir... Dæs. Var orðin svo niðurbrotin af allri gagnrýninni frá vinnufélaga mínum að mig langaði til að hætta hér med det samme! Langar það soldið enn. Mér þykir það skítt að hafa ekki drifið mig í að skrifa helv... greinina í sumar svo hún kæmist í ,,review''. Það hefði verið öllu skárra.
Þarf helst að koma frá mér tveimur skýrslum í viðbót fyrir mánudag. Það er því nóg að gera. Get ekki kvartað yfir verfefnaskorti.

En út í léttari sálma. Við mamma og Böðvar drifum okkur norður á Sauðárkrók síðustu helgi. Bróðir minn og mágkona voru að kaupa sér sitt fyrsta hús og við hjálpuðum þeim við flutningana. Atið náði hámarki þegar þrír röskir karlmenn, bror, Böðvar og tannlæknir á staðnum, komu Kornelíusi öfugum upp stigann og inn í stofu. Kornelíus er antíkskápur, sem fylgdi núverandi eigendum sínum frá Þýskalandi, allbreiður og illmeðfærilegur í fremur þröngum stiga í húsi sem þessu! Eftir að hafa gert vistlegt í svefherbergjum, eldhúsi og stofu töfraði Böðvar fram hamborgara og svo var djúsað í öllu búsinu sem keypt var fyrir sunnanliðið. Kíkti svo í leikhús er ég kom heim á sunnudagskvöldið. Híbýli vindanna, ágætis stykki, en svona í það langdregnara á köflum.

mánudagur, október 10, 2005

Hressandi: Mæli með Cleaning Women-Clean up Your Body (af Pulsator)...

Dreymdi í nótt að ég væri að kemba hár mitt. Er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað hárið var orðið svo óskaplega sítt. Það hefur ábyggilega náð mér niður að hnjám. Hmmm. Ég held það sé fyrir e-u fjarska góðu að dreyma sig með svona sítt hár:-o Dreymdi líka að e-r furðulegur drengur að nafni Bjarki Þór Einarsson (þekki í vöku ekki nokkurn með því nafni) gengi eftir mér með grasið í skónum. Ég reyndi að koma mér undan, og var svo voða voða leið yfir því að bara furðufuglar og nötts gaurar, en ekki nokkur með fullu viti, yrðu ástfangnir af mér!!!

Jökulgreinin er enn bara uppkast. Er að útbúa myndirnar í dag.
Ég var annars búin að hugsa upp e-ð svo óskapleg sniðugt til að skrifa hér á síðuna á leið minni í skólann fyrir hádegi. Furðulegt, sú hugsun er bara bókstaflega gufuð upp og ég get ekki fyrir nokkra muni rifjað hana upp!

fimmtudagur, október 06, 2005

Tilfinningasemi óhófleg


Það er sá tími mánaðarins. Mér finnst ég vera gangandi vandamálapakki. Tárast af minnst tilefni. Rýk út í fússi frá mínum nánustu út af tittlingaskít og engu. Tárast í vinnunni af tilhugsuninni af því að vera búin að klúðra e-u sem er mér afar dýrmætt. Almáttugur. Ég var ekki svona í langan tíma. Hélt að svona hegðan hyrfi alveg með tilbúnu hormónunum. Verandi laus við þau ætti þetta ekki að gerast. Meika ekki alveg að vera svona sentimental. Held bara líka að ekki nokkur í kringum mig meiki það heldur. Og það er heldur slæmt. Helvítis hormón!

Jökulgreinin er langt frá því að vera tilbúin, en ég gerði uppkast í síðustu viku. Helgin mun því líklega fara í viku. Ég leyfði mér að slugsa síðustu helgi, fór upp í sumarbústað með Bö og systrum. Spilaði Popppunkt fram á nótt, svaf út, prjónaði meðan rigningin lamdi á rúðurnar og skaust út í heita pottinn. Notalegt, allt saman.