föstudagur, apríl 28, 2006

Eldhús í spariklæðunum


Í dag rignir. Mér sýndust trén rétt vera að taka við sér í vætunni.

Minn elskulegi bróðir gerði mér þann greiða að taka fáeinar myndir um páskana af eldhúsinu mínu. Ég setti þær inn hér.

Ég vildi hafa sem mest hvítt og málaði því veggi hvíta og lakkaði innréttinguna einnig í þeim lit. Svo hafði ég keypt þessar möttu, svörtu flísar fyrir rúmu ári síðan (þær biðu aðeins of lengi undir rúmi...) og ég ætla mér að flísaleggja gólfið, og ganginn líka, með grásvartri, mattri skífu, þ.e.a.s. þegar ég hef ráð á. Í þriðja lagi vildi ég burstað stál (háfurinn, aukahlutir) en til að lokaútkoman yrði ekki allt of kuldaleg ákvað ég að hafa viðarplötu á eldhúsbekknum og velja límónugrænt sem aukalit (fyrir aukahluti). Það er auðvelt að skipta honum út.

Jæja, hvernig líst ykkur svo á?
Til samanburðar getið þið hér séð e-r myndir daginn sem ég tók við íbúðinni: Grænt og gult, sjá myndir 4 og 11-15.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Sveppaþema


Já, lífið á Truffluveginum er bara fínt. Rólegt og gott. Á sunnudgasmorgun fór ég í smá könnunarferð út í Haukadal og skóginn, sem er ekki nema hálfa mínútu frá útidyrunum. Ég rölti um í klukkutíma í sólinni, sá blóm stinga sér upp úr þurrum og enn litlausum sverðinum. Verst að ég gleymdi myndavélinni, hún hefur ekki verið mikið notuð síðan ég kom.

Ég tók eftir því er ég skrapp í búðina um helgina, að strætóstoppistöðin mín ber nafnið Sveppatorgið. Þegar betur var að gáð eru göturnar í kring kenndar við hinar og þessar sveppategundir. Skondið:-)

föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar


Sumarið kom alls ekki með bros á vör til Uppsala í gær. Ég vaknaði í grenjandi rigningu. Mér fannst það næg ástæða til að láta hjólið eiga sig og taka strætó. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að sitja skjálfandi í nokkrar klukkustundir í rennblautum gallabuxum. Svo ekki sé nú minnst á vandræðin sem ég lenti í á heimleið í fyrradag: keðjan fór tvisvar af aftara tannhjólinu. Mér tókst að koma henni aftur upp á en var öll útötuð í olíudrullu.
Rigningin í gærmorgun breyttist svo í slyddu þegar leið á morguninn. Já. Ég gerði mér samt glaðan dag. Rölti niður í bæ og keypti mér nammigott í konditorí Fuglasöngnum. Fór svo í prjónabúðina og keypti mér ennþá meira "nammigott fyrir sálina" þar:-)

Annars er ég búin að vera voða, voða dugleg við að halda mér frá sætindum síðan ég kom hingað. Að páskaegginu undantöldu. Samt virðist vigtin ekki vera mér sérlega hliðholl. Djöfulli er það nú fúlt!#$%%!!#$%)!

Ojæja sólin er þó aftur farin að skína í dag. Ég er líka flutt á Tryffelvägen til Cedrics, kunningja míns svissneska. Og það lítur allt út fyrir að ég geti verið þar þar til ég fer heim. Vúííí. Ég var nefnilega farin að hafa verulega áhyggjur að þurfa vera eins og jójó hingað og þangað þar til ég færi.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ef flugur lenda á bakinu verða þær algerlega bjarglarlausar! Furðulegt.

Þegar ég er ástfangin verð ég algerlega berskjölduð og stressuð. Ergilegt.

Dagurinn silast áfram. Hvað á ég að hafa í matinn á eftir. Spagettí? Er það ekki bara?

Heyrðu mig. Flugan bjargaði sér víst. Hún er nú aftur farin að suða í glugganum hjá mér. Glugganum sem ég má víst ekki opna.
Hmmm. Nei, ég er reyndar ekki alveg komin með lestraráætlunina á hreint, en ég gerði gott betur og bókaði far til Finnlands til að hitta Siggu Sif 13.-15. maí. Vííí. Ég hlakka til! Það er ódýrara að ferðast til Helsinki með Flyme heldur en að fara með nettilboði á Sauðárkrók (frá Reykjavík, þ.e.a.s). Menn geta vart kallað mig ,,heimska'' eftir þessa Svíþjóðardvöl!

Sólin skín


Já, sólin hamast við að skína, vorið hefur hafið innreið sína til Uppsala, sem og annars staðar, geri ég ráð fyrir. Ég reyni að pína mig til að lesa. Einbeitingin er svona svona, kannski allt í lagi í dag en ég les allt of hægt. Ég er því orðin svolítið (mikið) stressuð og hyggst gera smá lestraráætlun í dag. Hræddust er ég þó um að ég nái ekki að skrifa staf í ritgerðinni. Hmmmm.

Ég tók þá ákvörðun að nota síðustu dagana mína hér úti til að skoða mig um. Ég náði í flugmiða með IE á feykigóðu verði og býð því Böðvarimínum hingað í fjóra daga. Við fljúgum svo heim sama dag, en með sitthvorri vélinni. Svolítið leiðinlegt, en það eru aðeins 40 mínútur á milli flugvélanna. Ég gerði gott betur, og pantaði siglingu fyrir okkur á helmingsafslætti til Tallinar! Við munum því eyða tveimur kvöldum/nóttum á dalli á Eystrasaltinu, og höfum svo tæpan dag til að skoða okkur um í borginni! Ooooo, ég er farin að hlakka til.

Helst þyrfti ég þó að komast líka í heimsókn til Siggu Sifjar í Helsinki. Og plana e-ð sniðugt með mömmu, sem kemur hingað fjögurra daga heimsókn í byrjun maí. Það er því nóg að gera.

Ég sakna samt sumra heima alveg óskaplega...

þriðjudagur, apríl 11, 2006

hey Ya...

My baby dont messaround caus she loves me sooooo auhhhhh


Vorið hefir hafið innreið sína hingað til Úfsala. Snjórinn sem lá hér víst yfir öllu fyrir viku síðan hörfar nú óðum, einstaka skaflar eftir. Sólin vermir Frónbúa á heimaprjónaðri lopapeysu. Ég er búin að fá úthlutaðri þessari líka notalegu skrifstofu, með útsýni yfir afar sænskt og fallegt, gult hús hinum megin götunnar (þarf að ná á mynd fyrir ykkur). Ég hefi líka endurheimt hjólfákinn minn glæsilega, svörtu þrumuna (útheimtir einnig mynd) og mun nú reyna að rata hjólandi heim á eftir. Hér er víst 9 stiga hiti, ótrúlegt en satt! En sveiflast niður fyrir núllið að næturlagi.

Mér sýnist ég vera í þrusukúrs, RR skrifa jöfnur með krulli og dívergens á töfluna í þrjár klukkustundir á dag. Á morgun bætist svo við tveggaj klst dæmatími síðdegis. Ég er þvi vart í afslappelsi hér, a.m.k. ekki á meðan ég næ upp dampinum!

mánudagur, apríl 10, 2006

Halló heimur!

Þá er ég komin til Svíþjóðar, nánar tiltekið á Altfiolvägen í Gottsunda. Hér var ágætisveður í gær og síðdegis í dag, léttskýjað og ekki svo kalt (um 2 gráður, svo við höfum nú smáatriðin á hreinu;-) Nú, ég rogaðist með mína 25 kílóa tösku í lestina og svo í troðfullan strætisvagninn. Var uppgefin (en þó aðallega svöng) er ég kom loks inn í íbúð og réðst á goslaust kók (já!) og flögupoka inni í skáp. Ohhhh.
Ég afrekaði þó um síðir að rölta út í Gottsundacenter og kaupa sitthvað ætilegt í ICA: jógúrt, ávaxtasafa, mandarínur, sultu, og alveg hræðilega óspennandi sænska limpu... Það er satt sem Pálmi segir: Svíar kunna ekki að baka brauð.

Í morgun fór ég á alcapóne-bílnum í skólann í fyrsta fyrirlesturinn. Mér tókst að rata, eins og ég ætti heima hérna, líka út á völl að sækja húsráðendur. Ojæja, mér er fátt skemmtilegt ofarlega í huga. Sakna bara strax sumra heima, það er nú bara svo. Ægilegt að verða svona háð sumur fólki;-)