föstudagur, janúar 24, 2003

Stibblad neb


Ojjjjojjjojjjojjojjjjj. Í dag er ég (eins og í gær) með stíflað nef og nefrennsli. Ég vona að veirufjandarnir hafi sig á brott sem fyrst svo ég geti sofið í friði um nætur og notið þess að finna bragð af matnum sem ég verð boðin í í kvöld og annað kvöld.

Ég ákvað að vera heima í gær í veikindaleyfi. Auk þess að sofa svolítið meira en venjulega, tókst mér að koma nokkru í verk sem ég hefi lengi ætlað mér; nefnilega að festa tölur á nokkrar flíkur. Þetta hefur dregist og dregist, af þeirri einföldu ástæðu að mér hundleiðist að festa tölur. Svo kom í ljós að þetta var auðvitað minnsta mál í heimi því að fína saumavélin mín getur nefnilega gert þetta sjálf. Ójá, og ekki nóg með það. Ég komst í svo mikinn ham að ég gerði líka átta hnappagöt á pils sem ég saumaði á námskeiðinu fyrir jól. Og festi allar tölurnar á það líka. Núna get ég loksins farið að spóka mig um í nýja pilsinu. Og þó. E-n veginn efast ég stórlega um að það verði mikið notað...

þriðjudagur, janúar 21, 2003

Grimmdar-vísindi í Uppsölum


Í morgun vaknaði ég upp með slæma hálsbólgu vinstra megin og vorkenndi mér svo mikið að mér tókst að plata sjálfa mig og svaf í klukkutíma í viðbót. Ég var því ekki komin í vinnuna fyrr en rúmlega níu. Ég óttast að andstyggðarkvef muni hellast í mig í dag. En þótt klukkan væri ekki orðin margt var ég fljótlega farin að finna steikingarlykt úr eldhúsinu (sem er við hliðina á skrifstofunni minni). Og svei mér þá, ég held að kokkurinn sé að djúpsteikja e-ð.

En það sem ég ætlaði nú aðallega að minnast á í dag er sænski þátturinn sem ég horfði á í gærkvöldi. Sáuð þið hann? Almáttugur, það er varla að ég hafi nokkra lyst á að fara þarna og læra við skólann þar sem öll þessi grimmd á sér rætur. Það kom í ljós að Svíar stóðu í kynþáttahreinsunum frá því snemma á 20. öld fram yfir öldina miðja. Já, ófrjósemisaðgerðir áttu sér stað í miklum mæli frá 1913 og allt fram til 1975!!! Flestar voru þær þó í kringum 1948. Læknar ákváðu á einstökum fundum að framkvæma 80-100 aðgerðir á saklausum börnum í einu. Þeir gengu svo langt að t.a.m. voru flogaveikir álitnir heimskingjar og tekið var viðtal við konu sem varð flogaveik þegar hún fékk fyrstu blæðingar. Þar með var hún stimpluð "óæskileg" og þegar hún var með barni, 21 árs gömul og komin sex mánuði á leið, fór hún glöð til læknis síns og hugðist segja honum gleðitíðindin. Sú ferð endaði með því að hann varð ofsareiður og sendi hana beina leið í fóstureyðingu og ófrjósemisaðgerð. Þetta er bara eitt dæmi af mýmörgum. Langflestar ófrjósemisaðgerðanna voru gerðar á konum, þótt þær séu miklu hættulegri, flóknari og kostnaðarsamari en á körlum. Hugsið ykkur. 63.000 aðgerðir og flestar á börnum sem voru ekki einu sinni komin á kynþroskaskeið.

Í Uppsölum er að finna mikið safna bóka um þessi fræði og fjöldann allan af höfuðkúpum og öðrum beinum úr fólki. Menn höfðu einkum áhuga á beinum úr Sömum og víluðu ekki fyrir sér að ræna grafir og afhausa lík Samanna. Þeir þóttu nefnilega óæðri kynþáttur í landinu. Samar hafa annars konar höfuðlag en "hreinir, germanskir" Svíar. Höfuðkúpa Samanna er (svipað og N-Finna og slavneskra þjóða) breiðari og þeir hafa flatara andlit. Breið kúpa var ávísun á heimsku mann, þeir væru drykkfelldari, áttu erfiðara með að læra og væru til meiri vandræða í samfélaginu. Það var því mælt eindregið gegn blöndun Sama við hreina Svía.

Það varð mikið hneiksli þegar upp komst um málið fyir nokkru og fréttin barst út. Menn skömmuðust sín og buðu öllum fórnarlömbum ófrjósemisaðgerðanna 175.000 kr í bætur. En það eru hlutfallslega fáir sem gefa sig fram. Skömmin er mikil og margt fólk kærir sig alls ekki um að vinir og nágrannar fái nokkra vitneskju um þennan svarta blett á fortíð þeirra. Skiljanlega. Svona nokkuð mun aldrei verða bætt með peningum eða yfirhöfuð á nokkurn hátt.

mánudagur, janúar 20, 2003

Kuldi og meiri kuldi


Núna er -5.5C úti og vindhraðinn 1.4m/s hér við Veðurstofuna. Það var kalt og feykilega hált að ganga í morgun. Ég lagði ekki í að hjóla, bæði vegna þess að ég er ekki búin að setja nagladekkin á hjólið og ég er dauðhrædd við að detta og hins vegar ætla ég að jafna mig aðeins betur í fætinum; þetta er allt að koma en ég er ekki orðin nógu góð. Ég hef líklega tognað illilega.
En svo er annað að hrjá mig lika. Nú er orðið kalt og ég virðist vera búin að týna fínu, færeysku húfunni minni! Ég er mjög svekkt. Ef e-r skildi rekast á hana heima hjá sér, látið mig vita. Hún er sauðbrún (dökkbrún) með leppum og hárri totu, svolítið álfaleg. Ég er að reyna að rifja upp ferðir mínar síðastliðna daga en hefi ekki hugmynd um hvar ég hef gloprað henni niður. Bara ekki hugmynd!

föstudagur, janúar 17, 2003

Snilldartaktar í leikfimi


Fimmtudagar eru leikfimisdagar. Ég hjólaði því eftir vinnu í WC og hamaðist þar sem mest ég mátti í pallatíma. Eftur öll lætin teygðum við vel. Mér datt í hug að reyna að komast í splitt eftir teygjurnar, og viti menn, ég held bara að það hafi tekist, bæði með hægri og vinstri fram. Ég varð nú svolítið montin.

Á leiðinni heim tókst mér að detta á hjólinu, það hreinlega rann undan mér út á hlið. Sem betur fer var lendingin mjúk en ég hafði þeim mun meiri áhyggjur af því að vegfarendur á Bústaðaveginum hefðu séð mig, það er ferlega pínlegt að detta á almannafæri. Þegar ég kom svo heim datt mér í hug að endurtaka splittæfinguna. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég ætlaði að renna mér niður fékk ég allt í einu ægilegan verk aftan í vinstri fótinn, og svei mér, ef ég heyrði ekki e-ð rifna. Ég hætti snarlega við en það var auðvitað um seinan. Skaðinn var skeður. Ég vona þetta sé ekki alvarlegt, en það er vont að ganga, beygja sig og mér datt ekki í hug að hjóla í dag. Ætli ég taki því ekki rólega í dag og sjái hvort þetta jafnar sig ekki.

Stundum get ég verið óttalegur kjáni!

fimmtudagur, janúar 16, 2003

Raunir hjólreiðakonunnar


Þá er ég komin aftur. Ég tók mér smá frí frá dagbókarskrifum í tíu daga en er nú komin aftur á skrið.

Ég er byrjuð á nýjum vinnustað og þarf því að hjóla nýja leið til vinnu upp á Öskjuhlíðarhálendið (þar sem Veðurstofan er). Fyrsta morguninn, þ.e. á mánudaginn var, ákvað ég að reyna að besta leiðina, þ.e. fara þá stystu og tapa sem minnstri hæð. Ég er nefnilega dalbúi og þarf að hjóla upp langar brekkur upp úr dalnum. Þetta tókst ekki betur en svo að eftir fyrstu brekkuna reyndi ég að komast á göngustíg milli húsa (neðan við Borgarspítalann) en þurfti hvað eftir annað að snúa við og þegar ég loks komst út úr götunni tók ég eftir því að ég var í nákvæmlega sömu hæð og ef ég hefði bara rennt mér strax niður brekkuna.

Þá var ég komin að göngubrúnni og hjólaði yfir (í áttina að Fossvogs-kirkjugarðinum) og enn tók við brekka. Svo beygði ég inn í hverfið (Suður-Hlíðar ?) vitandi af undirgöngum undir Bústaðaveginn efst í hverfinu. Þar þurfti ég aftur að fara fram og til baka enda eru göturnar eitt völundarhús. En loks hitti ég á réttan botnlanga og göngin falin bak við leikvöll. Ég var allt of lengi að fara þessa stuttu leið.

Nú, nú. Dagin eftir ákvað ég að reyna ekki aftur að komast hjá hæðartapi og fór sátt upp fyrstu brekkuna og niður aftur. Þegar ég kom að göngubrúnni ákvað ég að fara bara beinustu leið upp meðfram Hafnarfjarðarveginum/Kringlumýrarbraut og hjóla bara yfir á stóru brúnni. Það var enn föl frá mánudeginum og því þyngra að hjóla en venjulega. A.m.k. blés ég eins og hvalur síðustu metrana upp brekkuna löngu og var komin með blóðbragð í munninn þegar ég komst loks á áfangastað. Þvílíkur aumingi!

Mér leist því ekkert á veðrið í morgun og ákvað að kúra lengur þegar ég sá allan snjóinn. Klukkutíma síðar hafði ég mig á fætur og lagði af stað. Veðrið er nefnilega sjaldnast eins vont og menn halda. Ég hugsaði með hryllingi til brekkunnar löngu og byrjaði að puða upp. Þegar ég var að koma að brattasta kaflanum og næstum farin að örvænta, kom snjóruðningstæki æðandi á móti mér og ég varð að forða mér hið snarasta út af gangstéttinni. Eftir þetta varð leið mín mun greiðfærari.

Mikið svakalega er ég heppin að fá svona fína læraæfingu á hverjum morgni! Er ekki um að gera að líta á björtu hliðarnar?

sunnudagur, janúar 05, 2003

Óvænt bátsferð


Í gær drattaðist ég seint á lappir. Eftir síðbúinn morgunverð kíkti ég í blöðin. Kalli fór út að hjóla, ég nennti því ómögulega en tók blaðið þess í stað með mér inn í stofu og asnaðist til að leggjast upp í sófa. Þegar ég hafði lesið allt sem mér fannst áhugavert í blaðinu, velti ég mér á hliðina og sofnaði auðvitað. Ég hrökk svo við af blundinum þegar Kalli kom heim. Ég reyndi af veikum mætti að hrista af mér svefndrungann en það heppnaðist ekki betur en svo að ég endaði uppi í rúmi undir sæng og steinsofnaði aftur. Ég rankaði loks við mér um kaffileytið, alveg eins og tuska. Ég virðist alltaf verða alveg ferlega slöpp ef ég sofna svona á daginn. Við ákváðum því að drífa okkur út í göngutúr út með voginum í átt að Nauthólsvík.

Eftir góðan spotta þóttist Kalli sjá bát á reki nálægt ströndinni, hugsaði svo með sér að það gæti ekki verið. Báturinn hvarf honum sjónum en birtist síðan aftur undir klettunum í fjöruborðinu stuttu síðar. Þá var tekið á rás niður í fjöru til að líta á bátinn. Hann var óbundinn og Kalli kannaðist strax við hann. Þetta var bátur sem hann hafði séð nokkrum sinnum hinum megin vogsins í fjörunni neðan við íbúðarhús við sjóinn. Svo stakk hann upp á því að við rérum honum til baka og gerðum eigendum hans stórgreiða. Og það gerðum við.

Við lögðum að landi á þeim stað sem Kalli hafði séð hann. Þar var kaðalspotti í fjörunni og út í sjó. Við bönkuðum svo upp á í húsinu fyrir ofan. Þar reyndust eigendurnir búa og við fengum þakkir fyrir (þótt heimilisfaðirinn, sem hafði misst bátinn, hefði farið á bíl með kerru til að sækja fleytuna og gripið í tómt).
Það rættist því bara nokkuð vel úr deginum

föstudagur, janúar 03, 2003

Veraldlegir hlutir


Ég er farin að hafa svolitlar áhyggjur af því hvað ég eigi að taka með mér. Bara það að ákveða hvaða skó eigi að taka með er nógu erftitt. Skór taka allt of mikið pláss. Á ég svo að taka með allar heklunálarnar mínar og prjónana? Eitthvað verða ég að hafa fyrir stafni á kvöldin, ekki geri ég ráð fyrir að ég hafi sjónvarp, eða hvað? Ohhh. Hvernig fer fólk að því að flytja svona út?


Í hádeginu dreif ég mig í leikfimi. Eftir tímann kom ég við á Orkustofnun til að heimsækja "gömlu" vinnufélagana. Kalli hafði komið við á útsölu og fengið þennan líka fína regnjakka á mig á spottprís. En ég heppin! Það vill svo skemmtilega til að hann er í fánalitum Svía. Hann verður sko pottþétt tekinn með.

fimmtudagur, janúar 02, 2003

Nýtt ár/ný klipping


Kæru lesendur/vinir! Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka liðið.


Ég las hjá Kristjáni og Stellu að þau hafa verið að líta yfir liðið ár og gera sniðugan "to-do"lista. Ég er sjálf með nokkrar hugmyndir sem ég myndi setja á minn lista, ef hann væri nú til. Mig hefur lengi langað til Grænlands og Færeyja og sé mikið eftir því að hafa ekki spurt hvort ég mætti koma með í Færeyja ferð Siggu og co. Auk þess hef ég aldrei komið til Vestmannaeyja. Það væri sniðugt að setja upp plan fyrir eyja-ferðasumar, Grænland, Færeyjar og Vestmannaeyjar! Ég efast þó stórlega að nokkuð verði úr því. Mér þykir líklegra að fríið mitt fari í gönguferðir, eins og síðustu þrjú sumur.
Í sumar kláruðum við hornalínuna yfir landið, frá Reykjanestá út á Font á Langanesi. Ég hef því stigið hvert einasta skref á allri leiðinni og er þar með sönnu orðin landshornaflakkari. Þetta byrjaði með hvítasunnuferð vorið 2000 með Siggu Sif, við þrömmuðum saman á tveimur og hálfum degi frá Reykjanesvita að Kaldárnesi. Það var eftirmynnileg og skemmtileg ferð. Ætili Hornstrandirnar verði ekki fyrir valinu í sumar. Þaðan má svo halda áfram seinna í SA og draga hina línuna yfir landið. Á ekki-til-listann fer líka gönguferð á Botnsúlur. Svo finn ég kannski upp á e-u sniðugu í Svíþjóð. Jafnvel gæti ég skroppið yfir til Finnlands, þangað hef ég heldur aldrei komið.


Í morgun átti ég pantaðan tíma í klippingu. Eftir það hringdi ég í Gerðu. Við hittumst á Súfistanum og fengum okkur þar léttan hádegismat og göngutúr i bænum og niður á bryggju. Mér finnst ég koma allt of sjaldan í miðbæinn eftir að ég hætti í HÍ. Þá var oft gaman að fara snemma heim á föstudegi, ganga niður í bæ og upp Laugaveginn og taka strætó á Hlemmi.


Nú hætti ég, þetta er orðið æði ruglingslegt, þið verðið að afsaka. Sæl að sinni.