þriðjudagur, janúar 31, 2006

Nútíminn


Ég er komin með dyrasíma;-? Rafvirkinn kom loks síðdegis í gær og hófst handa við að tengja. Það tók dágóðan tíma að draga gömlu vírana úr, þeir voru nánast grónir við leiðslurnar. Strákgreyið var að til hálf-tólf. Ég bauð honum upp á e-a hressingu og hljóp að síðustu niður með glasið með appelsínusafanum því hann gaf sér ekki tíma til að klára. Hann sagðist að sig langraði varla heim, það væri dekrað svo við hann;-) Mér finnst nú lágmark að menn næri sig e-ð...

Ég hélt áfram að stússast í innréttingunni í gær. JGE, sem er nú sem áður hin besta hjálparhella og haukur í horni, kom og náði stálkantinum framan af eldhúsbekknum og gaf mér góð ráð við lýsingu, sem er þar engin. Mamma kom líka og hjálpaði til við að grunna skápahurðir, á meðan ég renndi yfir með lakki á skúffur og vaskskáp. Þetta mjatlast.

Ég gerði svolítið af mér í gær:-} Keypti nokkrar dokkur af léttlopa í peysu. Ég ætla að breyta litunum og er að hugsa að nota tóna í stað eins lits í mynstrið. Hmmmm, skiljiði hvað ég á við? Dökkblágrænan neðst, svo ljósblágrænan og efst ljósgráan. Grunnliturinn er hærusvartur. Æ, veit ekki hvort þetta virkar ætla að gera prufu fyrst. Er annars með varaplan.

Í kvöld fer ég með Dóru vinkonu að kíkja eina á eina nýfædda og færa henni sams konar sokka og dóttir mágkonu minnar fékk (er sum sé búin að gera tvö slík pör). Ég er byrjuð á hjálmhúfu í stíl:mánudagur, janúar 30, 2006

Hamast og ryk í öllum vitum


Og enn pússaði ég og pússaði um helgina. Ég er nú langt komin með vaskborðið og skúffurnar tólf; klára líklega í kvöld. Mamma kom og hjálpaði mér í gær að grunna skápagrindina. Ég byrjaði líka á að grunna skápahurðirnar tíu. Mikið verk eftir.

Ég lauk líka við húfuna gulu handa júníbarninu. Er byrjuð á annari eins í stíl við hosurnar yrjóttu og ætla að gefa barninu hennar mágkonu minnar, í viðbót við hosurnar sem ég afhenti á föstudaginn var. Iða nú í skinninu eftir að komast í að velja lopa í peysu handa Bö. Er með hugmynd í kollinum og þyrfti að bera saman liti. Ég þyrfti að komast upp í Ístex og verða mér úti um litaspjöld...

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Unaðsstundir í eldhúsinu?


Nei, ekki alveg. Þótt ég dvelji þar löngum þessa dagana. Ég tók mig nefnilega til síðustu helgi og málaði loks eldhúsið hvítt. Eftir þrjár umferðir á loft og veggi var ég komin í framkvæmda gír og ákvað að pússa aðeins yfir gluggann og lakka. Og taka innréttinguna í gegn líka. Ég tók mér frí frá vinnu í gær og sat við að pússa skúffurnar og grunna. Ég er líka byrjuð á að pússa upp skápahurðirnar. Þetta er ansi mikil vinna og nokkuð ljóst hvað helgin mun fara í;-) Ég keypti flísar fyrir ári síðan (já!!!) og fæ pabba til að hjálpa mér að flísaleggja þegar innréttingin verður orðin klár. Mig dreymir líka um að flísaleggja gólfið hið fyrsta, þar sem línoleum dúkurinn á eldhúsinu er svo skelfilega slitin að hann virðist alltaf vera skítugur. Ég er líka búin að sletta vel af málningu og lakki á hann. Er spennt að klára því á meðan framkvæmdunum stendur er allt í drasli inni í stofu. Ég þoli ekki óreiðu. Ordnung, Danke schön.

Fréttir af hannyrðum. Er nú búin að prjóna tvenna sokka fyrir stúlkurnar tvær sem fæddust í janúar. Í gærkvöld byrjaði ég svo á gulri húfu fyrir júníbarnið. Sum sé, allt á fullu.

föstudagur, janúar 20, 2006

Fæðingar á fullu tungli


Matseldin fyrir hátíðarfund í síðustu viku tókst líka bara svona rosalega vel að allir voru hæstánægðir, að ég held. Böðvar hjálpaði mér að skera niður lærin sex í gúllas, kvöldið áður; eða öllu heldur nóttina áður því við vorum að til þrjú! (Byrjuðum reyndar seint). Vorum svo aftur að til þrjú, en að þessu sinni við bjórdrykkju og hangs á Celtic Cross.

Ég var því frekar þreytt morguninn eftir þegar ég var vaknaði við Sms-píp klukkan átta. Druslaðist þó fram úr til að kíkja. Þarna fékk ég gleðifréttir því í skilaboðin voru þau að æskuvinkona mín hafði eignast sitt fyrsta barn fyrr um morguninn, stúlku. Ég skreið svo aftur upp í rúm. Um 10-leytið var ég aftur vakin og í þetta skiptið hringdi sími Böðvars. Hann nennti þó ekki að ansa og snéri sér á hina hliðina. Í hádeginu kom þó í ljós að mamma hans hefði verið að hringja með þær fréttir að systir hans væri loks búin að eiga; stúlku. Þess má geta að á laugardaginn var fullt tungl.

Um kvöldið fór ég í afmæli vinkonu. Fannst ein úr saumaklúbbnum vera orðin svolítið gild. Og hvað haldiði? Ólétt, á að eiga um páskana. Nú, vinkonum mínum færði ég svo þau gleðitíðindi að önnur úr saumó væri líka ólétt, á að eiga í byrjun júní. Ég sit því við á kvöldin og prjóna barnasokka. Eins gott að ég fari að gefa svolítið í, ekki veitir af. Þvílíkt og annað eins.

Hvenær ætli komi að mér?

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Prjónamanía


Halló, halló. Still alive and kicking!
Gleðilegt nýtt ár, kæru vinir/lesendur. Ég hef það bara ágætt, mig hrjáir helst óskapleg rit-leti, hef ekki nennt að skrifa hér staf (né í "ritgerð" minni) í mánuð. Skammdegið hefur farið soldið illa í mig þetta árið. Ferðin til San Fran var fín fyrir lundina, en ég hefði helst þurft að halda áfram suður á bógin og vera e-s staðar í sólinni fram yfir áramót. Það er komin svolítil snjóföl hérna núna, svo það hefur birt dulítið til.

Í vinnunni er ég að reyna að kreista út úr mér skýrslu um efni sem ég hef verið að vinna að í desember. Er líka að skipuleggja stórmáltíð fyrir hátíðarfund Bjórvinafélagsins á föstudag. Fer í Fjarðarkaup á morgun og kaupi sex læri sem ég pantaði í dag! Hvað ætli þurfi marga bolla af hrísgrjónum fyrir 30 manns:-?

Er líka haldin prjónamaníu um þessar mundir. Er með hitt og þetta í gangi, var að byrja á peysu fyrir mater, sem mér finnst ekki alltof skemmtilegt að prjóna, keypti því efni í húfu fyrir frænku mína sem ég prjónaði í fyrrakvöld og gærkvöld, en leist ekkert alltof vel á svo ég rakti hana upp. Er hins vegar komin með stórfína hugmynd að jólagjöfum og langar til að hrinda henni strax í framkvæmd. Langar líka að byrja á vesti á sjálfa mig núna strax. Var svo að klára þessa sokka, sem eru á myndinni hér að neðan, og var byrjuð á peysunni við... Sum sé, nóg að gera, en hef lítinn tíma fyrir nokkuð annað en prjónaskap!;-)