miðvikudagur, apríl 28, 2004

Ekkert plat


Ég er bara farin að halda að þetta sé ekkert plat. Sumarið er komið fyrir alvöru. Það er svo fallegt veður að ég gat ekki hugsað mér að fara í leikfimina áðan er fór þess í stað á línuskauta. Var svolítið með skjálfandi fætur fyrst en batnaði eftir því sem leið á. Það er kominn alvöru-sumarfiðringur í mig. Langar bara til að vera úti, fara í sund, hlaupa upp á fjöll, hvað sem er. Sit og læt mig dreyma...

mánudagur, apríl 26, 2004

Erfið sundferð


Já, það er fátt jafn aumingjlegt og að endurtaka oftar er einu sinni Magnetic Moment í stað Seismic Moment. Fékk að heyra það eftirá. Uss. Ég gat nú ekki annað en brosað að þessu og prísaði mig sæla yfir því að svo fáir mættu. Þegar ég kom heim ákvað ég að taka mynd á leigunni. Ég valdi The Core því, merkilegt nokk, hafði ég aldrei séð hana og svo fannst mér ekki veita af því að læra hvernig virkilega svalir jarðeðlisfræðingar eru. Ég var nú ekki hrifnari en svo að ég sofnaði eiginlega yfir myndinni og varð að horfa á hana morguninn eftir. Þvílíkt bull maður. Og að handritshöfundar geti ekki einu sinni haft einfaldar staðreyndir á hreinu, eins og hvar plötuskil eru. Uss bara. Og aðalhetjan var aðeins of svöl til að ég geti nokkurn tíma leikið allt eftir.
Annars fór helgin í að sinna hlutum sem lengi hafa setið á hakanum: Bera á gönguskóna og bursta götuskó, þvo þvott, þurrka af ryksuga, uppvask, þrengja buxur. Og svo brá ég mér í sund. Held bara, svei mér þá, að það sé rúmt hálft ár síðan ég fór síðast (á Geysis hótelinu). Ég ætlaði varla að þora að fara. Og eftir að hafa synt minn kílómetra og buslað um í lauginni var mér farið að verða ansi kalt og langaði að setjast í pottinn. Ég var líklega korter-hálftíma að telja í mig kjark til að fara upp úr lauginni. Og þegar ég var svo búin að vera í pottinum góða stund og mér löngu orðið allt of heitt, taldi ég í mig kjark til að standa enn einu sinni upp og strunsa inn í sturtur.
Af hverju allt þetta hik? Jú, hugsunin um allt of feitan rass, sverar lappir og skvapkennt mitti!!! Það er greinilega ekki alveg í lagi með suma. :-)

föstudagur, apríl 23, 2004

Pínan yfirstaðin. Það veitir mér alltaf svolítið góða tilfinningu að geta strikað yfir á verkefnalistanum. Fyrirlesturinn vestur í Öskju búinn. Bögglaði þessu einhvern veginn útúr afar þurrum munninum og með stresshnút í maganum. Og það mættu bara sárafáir. Meira að segja færri en vanalega. Og ég sem hélt að fundirnir færu að verða fjölmennari eftir flutningana þegar jarvísindaliðið úr Háskólanum væri líka á staðnum. Kannski fólk hafi bara ekki haft áhuga. Hmm. Og innst inni varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum. Búin að hamast við að gera þetta vel og svo mætir bara varla hræða!
Jæja, ég er svona að henda reiður á hugsunum mínum og hlutum. Er búin að taka svona líka ágætlega til á skrifborðinu, spila Fraz Ferdinand og er að hugsa um að slá öllu bara upp í kæruleysi í dag.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Gleðilegt sumar


Já, gleðilegt sumar! Hér er þetta líka frábæra sumarveður, brakandi blíða sól og hiti (9,8°C)! Ég sit í vinnunni svolítið rám með ógeðslega reykjarlykt í hárinu eftir að hafa dansað villtan sumardans í nótt á skemmtistað einum í bænum. Það var farið að birta í lofti þegar ég kom heim en samt glaðvaknaði ég klukkan átta! Á eftir að gera heilan helling fyrir morgundaginn en vonast samt til að komast i sund í dag til að bæta í freknusafnið og losna við vetrarslenið. Eða kannski ég fari bara út á sjó í staðinn? Hver veit...

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Hvað er þetta eiginlega með konur og skó?


Ohhh, ég er sko kolfallin fyrir alveg dásamlega rauðum skóm!!!
Ætli þeir verði mínir?

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Streitudraumar


Ojjj, pína framundan á föstudaginn. Er byrjuð að finna fyrir smá stressi í maganum og vaknaði upp í morgun af draumi um brotfleti og jarðskjálfta. Ég er búin að vera óþekk og skrópa í dans síðan í síðustu viku. Þori ekki að tala við stelpurnar af hræðslu við að þær fari að skamma mig. Hmmm. Sumir eru bara ægilega litlir í sér og meika ekki að dansa uppi á stóru sviði fyrir fjölda manns. Ég klúðra líka öllu þegar ég er stressuð. Gangi ykkur bara vel á morgun, stelpur!

mánudagur, apríl 19, 2004

...Sól í sinni...


Já, svo sannarlega. Ég veit fátt betra snemma á morgnana en að vakna við glampandi sólskin, þótt klukkan sé ekki nema sex hálf sjö. Og þegar ég drattast loks fram úr eftir klukkutíma aukadúr, gerið ég það með stóru brosi á vör. Ö, er ég of væmin núna? Get bara ekkert að því gert, það verður bara allt svo miklu fallegra og betra þegar sólin glennir sig svona, jafnvel þótt það sé ekki nema fimm stiga hiti hérna úti í mælireit.
Ég var í letiksti í gær. væflaðist um heima og las blöðin fyrir hádegi. Eldaði mér svo eggjaköku og borðaði hana i sólinni úti á svölum. Dreif mig svo út í sólina. Náði í hjólið mitt og hjólaði um Fossvogsdalinn og vestur í bæ í rokinu. Á leiðinni upp á Veðurstofu stoppaði ég uppi á holtinu, lagði hjólinu og lagðist niður undir steini og lét sólina baka mig í nokkrar mínútur og hummaði. Ímyndaði mér að ég væri e-s staðar úti í móa milli þúfna og útilokaði algerlega umferðarniðinn í kringum mig. Endaði svo kvöldið með Jazzi og sóló djæf-sveiflu í stofunni. Haha.
Fimm-listi dagsins er með ljúfum vortónum frá Air:
1. Sexy boy (Moon Safari)
2. You make it easy (Moon Safari)
3. People in the city (10.000 Hz Legend)
4. Don't be light (10.000 Hz Legend)
5. Cherry blossom girl (Talkie Walkie)

Ég er svona enn að meðtaka nýjasta diskinn. Hann sígur inn smám saman. Hann er annars mjög rólegur, ólíkur tíu þúsund herzunum, sem er enn í miklu uppáhaldi hjá mér.

Annars datt ég aldeilis í lukkupottin á laugardaginn. Ég var rétt komin heim þegar Berglind hringdi og bauð mér með fjölskyldunni í mat og leikhús og þar með var kvöldinu bjargað :-) .

föstudagur, apríl 16, 2004

Prent-martröðin


Alltaf sömu vandræðin að koma draslinu út á prentara. Er búin að hlaupa fram og til baka í morgun til að reyna að redda hlutunum. Vona að þetta gangi. Annars var ég nú bara kærulaus í gærkvöldi, fór heim til að horfa á Beðmál í borginni og nennti svo ekki aftur í vinnuna. Vaknaði bara snemma í staðinn og var komin í vinnuna klukkan sjö til að klára þetta litla sem eftir var. Nú er bara að bíða og sjá hvort mér takist að fá veggspjaldið á pappír fyrir hádegi.
Nei, því miður er ég ekki á leið til Nice. Fer ekki lengra en í Vatnsmýrina. Þar verður haldið Raunvísindaþing í dag og á morgun í tilefni formlegrar opnunar nýja hússins, Öskju, í gær.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Flýt sofandi að feigðarósi


Hvernig er þetta eiginlega hægt? Ég er með bókstaflega allt niðrum mig (umm, í óeiginlegri merkingu, auðvitað), kæruleysið er að fara alveg með mig og ég held það þurfi að gerast kraftaverk ef ég á að vera tilbúin með veggspjald fyrir föstudaginn. Ég er sumsé ekki byrjuð enn! Er enn að lesa greinar til að geta skrifað e-ð nógu gáfulegt. Langar mest til að stinga af, melda mig veika...
Vá og ég sem hélt hérna fyrir nokkrum árum að ég yrði eilífðarkúristi. Ólíklegustu hlutir geta nú breyst, segi ég nú bara. Því miður. Ég er líklega komin á gelgjuskeið hið síðara!!! Vona bara að það gangi fljótt yfir.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Hamfarir?


Úúú, allt að verða vitlaust úti fyrir Reykjanesi. Kíkið á þetta!

mánudagur, apríl 12, 2004

Gönguferð, kjetát, djamm og dans, og meira kjetát...


Þetta páskafrí er alltof fljótt að líða, væri til í að fá svona viku í viðbót!
Á föstudaginn langa dreif ég Berglindi með mér í fjallgöngu, enda var veðrið með eindemum gott. Ókum í Dyradal í Henglinum og gengum upp á Vörðu-Skeggja. Fengum frábært útsýni og renndum okkur niður nokkrar snarbrattar fannir á leiðinni niður. Góða veðrið entist reyndar ekki út allann túrinn því á niðurleið var komin hálfgerð slydda. Nú, Gerða Björk bauð mér svo í kvöldmat. Ég fékk danska osta í forrétt og svo nautasteik með rjómasveppasósu, ofnbakaðar kartöflur og meira að segja smá rauðvínslögg (mér fer fram...). Héldum svo af stað úr Breiðholtinu á miðnætti í partý hjá Óla Rögg. Þar var allt á fremur rólegu nótunum. Ákváðum svo að kíkja aðeins á dansgólfin í bænum, enda frábært að fara út að dansa með Gerðu. Þræddum nokkra staði, fyrst á 11, alltof löng röð á Sirkus, enduðum því í eftirminnilegu hipp hoppi á Vegamótum. Hittum þar líka fyrir einn úr partýinu hjá Óla. Þegar ég var búin að fá mig fullsadda af afar einhæfðri tónlistinni drifum við okkur á Sólon og dönsuðum þar nokkra stund. Ég skutlaði svo Gerðu heim í Breiðholtið og sat svo sjálf hálfsofandi yfir tölvunni hér heima í röskan hálftíma áður en ég drattaðist í rúmið að verða sex.
Við tók laugardagur með hangikjeti hjá ömmu í hádeginu og svo páskadagur með lestri og kvöldmat hjá fyrrverandi mágkonu. Fékk þar æðislegan mat að vanda, svakalegan gúmmulaði eftirrétt, Gammel dansk og smakkaði á þremur líkjörum. Úff. Búin að taka því rólega í dag. Bakaði (líklega misheppnaða) eplaostaköku fyrir kvöldið, við frænkurnar ætlum að hittast í mat í kvöld. Bror og Sara koma lika frá Englandi á eftir, jiiii hvað ég hlakka til að fá nýju diskana mína!

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Tvífarar? Oder was?

Og það er borað í hausinn áá méééér...


Þreytandi til lengdar þetta tölvusuð. Fjórar tölvur hér inni sem mala og mala í sífellu. Held að nú eigi e-ð að fara að gera í málunum.

Heilinn er eins og gatasigti. Ég man ekki neitt. Sat róleg af mér vaktfund áðan hér niðri og kveikti ekki á perunni fyrr en ég sá alla koma niður. Þarf að skrifa allt á gula miða og lima á nefið á mér...

Bílflautan virkar ekki. Ég var að spá í hvort ég ætti ekki að láta líta á málið en ákvað svo að reyna a.m.k. svolítið sjálf áður en ég hleyp eftir hjálp. Smá fikt getur varla skaðað. Ég tók því bílahandbókina með mér upp í gærkvöldi og fann út hvar helstu öryggin liggja. Reyndi í morgun að opna öryggisboxið undir húddinu en það gekk e-ð brösulega. Ætla að verða mér úti um e-ð heppilegt tól og reyna aftur síðar í dag. Menn verða nú að geta bjargað sér sjálfir með einföldustu hluti, ekki satt?

Íbúðarkaup? Jú, fátt annað komst að í huga mér í byrjun vikunnar. Útvegaði mér eyðublöð og pappíra hér og þar. Vildi helst drífa í þessu strax! Verð stundum alveg óskaplega óþolinmóð ef ég fæ e-a hugdettu. Verð að framkvæma strax, þoli ekkert hangs, enda er hik oft sama og tap. Nema hvað. Átti spjall við pabba um þessa hluti og hann kom mér aðeins niður á jörðina. Sem betur fer, segi ég nú bara. Ætla nú að bíða róleg fram á sumar og íhuga málið þá. Það er mun skynsamlegra. Ég lifi það nú alveg af. Og það hljóta að bjóðast jafnboðlegar íbúðir þá líka. Auðvitað.

Skringslið kemur í dag heim í páskaheimsókn. Jibbíííí!

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Hár, meira hár, minna hár, eða bara öðruvísi hár


Ég fór í langþráða klippingu í morgun. Og ég verð nú bara að segja það að mér finnst ég samt hálf-lummó. Líklega krullurnar. Það er bara lummó að vera með krullur. Ég fór líka út allt öðru vísi en ég hafði hugsað mér. Ég ætti kannski að fara aftur og láta laga? Kannski bara láta snoða mig! Þá væri ég laus við þennan vandræðalubba sem ég þarf að druslast með.

Ég fór líka í mitt fyrsta starfsmannaviðtal áðan. Var bara mjög jákvæð á allt saman og kvartaði lítið, enda geri ég ekki mikið af því venjulega að láta í mér heyra ef ég er óánægð, nema kannski hér. Og það er auðvitað vita gagnslaust. Nei, en mér líður í alvöru bara vel hér á Veðurstofunni og er sátt við flest. Væri samt enn sáttari ef ég byggi hér nálægt. Og svekkelsi gærdagsins var einmitt að finna í fasteignaauglýsingunum tvær fínar og ekkert of dýrar íbúðir á frábærum stað og eiga ekki enn fyrir útborgur. Aaarrrghhh. Getur e-r lánað mér hálfa milljón! U, já ég væri líka alveg til í að vinna milljón!

Ég spila nú lon og don Air-10.000 Hz Legend. Frábær diskur. Og ég skil eiginlega ekkert hvað ég var að pæla þegar ég gafst upp á honum eftir eina eða tvær spilanir þegar ég fékk hann fyrir löngu síðan. Ætli það séu tvö ár? Man það ekki. Ég er a.m.k. fyllilega sátt við þessa tónlist og hef virkilega farið á mis við mikið allan þennan tíma! Það sem olli þó vonbrigðum mínum til að byrja með var að ég saknaði raddar Beth Hirsch. Hún söng einmitt tvö af þremur uppáhaldslögum mínum á Moon Safari. Nú bíð ég bara spennt eftir að heyra Walkie Talkie, ég læt broþar kaupa hann fyrir mig í Fríhöfninni, til að spara, auðvitað! :-)