mánudagur, apríl 26, 2004

Erfið sundferð


Já, það er fátt jafn aumingjlegt og að endurtaka oftar er einu sinni Magnetic Moment í stað Seismic Moment. Fékk að heyra það eftirá. Uss. Ég gat nú ekki annað en brosað að þessu og prísaði mig sæla yfir því að svo fáir mættu. Þegar ég kom heim ákvað ég að taka mynd á leigunni. Ég valdi The Core því, merkilegt nokk, hafði ég aldrei séð hana og svo fannst mér ekki veita af því að læra hvernig virkilega svalir jarðeðlisfræðingar eru. Ég var nú ekki hrifnari en svo að ég sofnaði eiginlega yfir myndinni og varð að horfa á hana morguninn eftir. Þvílíkt bull maður. Og að handritshöfundar geti ekki einu sinni haft einfaldar staðreyndir á hreinu, eins og hvar plötuskil eru. Uss bara. Og aðalhetjan var aðeins of svöl til að ég geti nokkurn tíma leikið allt eftir.
Annars fór helgin í að sinna hlutum sem lengi hafa setið á hakanum: Bera á gönguskóna og bursta götuskó, þvo þvott, þurrka af ryksuga, uppvask, þrengja buxur. Og svo brá ég mér í sund. Held bara, svei mér þá, að það sé rúmt hálft ár síðan ég fór síðast (á Geysis hótelinu). Ég ætlaði varla að þora að fara. Og eftir að hafa synt minn kílómetra og buslað um í lauginni var mér farið að verða ansi kalt og langaði að setjast í pottinn. Ég var líklega korter-hálftíma að telja í mig kjark til að fara upp úr lauginni. Og þegar ég var svo búin að vera í pottinum góða stund og mér löngu orðið allt of heitt, taldi ég í mig kjark til að standa enn einu sinni upp og strunsa inn í sturtur.
Af hverju allt þetta hik? Jú, hugsunin um allt of feitan rass, sverar lappir og skvapkennt mitti!!! Það er greinilega ekki alveg í lagi með suma. :-)

Engin ummæli: