fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Vansvefta


Ég fékk fyrsta skrautritunarverkefnið mitt í gegnum símaskrána í gær. Ég ákvað að klára verkið í gærkvöld og vakti allt of lengi. Ég er því hálfvansvefta í dag (sem oftar). Læt mig nú dreyma um heit kindabjúgu og uppstúf.... Ummmm.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Fýla


Ég tók 2-3 tíma í þrif og þvott heima í gær. Ég er að reyna að stræka á að þvo sameignina þegar öðrum bera að vinna verkið. Ég gafst þó upp í gær og skúraði niður stigann eftir að hafa gert hreint inni hjá mér; en þó ekki jafnvel og venjulega. Og sem verra var, reykingarfnykurinn náði alveg að kæfa skítafýluna á ganginum. Og er ég var komin niður bættist við spíralykt. Þannig að rétt eftir hádegi á sólríkum sunnudegi lyktaði stigagangurinn heima eins og knæpa klukkan þrjú að nóttu til. Þetta er alveg hreint dásamlegt!

Mér tókst að klára að prjóna lopapeysuna á laugardag, ég þvoði hana svo í gær. Ég er harla ánægð, held ég bara. Rennilásinn keypti ég í dag og kannski nenni ég að sauma hann í í kvöld, þegar ég fæ Siggu Sif í heimsókn í prjón og spjall.

Hvað á maður annars að gera við svona lata og óþekka nágranna?

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Sneypuför að Langasjó

Á föstudag héldum við Böðvar og Björn austur á bóginn. Förinni var heitið inn í Hólaskjól, þar sem við ætluðum að hitta aðra göngufélaga um kvöldið. Ég vildi nota daginn í skoðunarferð svo við stoppuðum hér og þar, skoðuðum Seljalandsfoss, Gljúfrabúa, Skógarfoss (Björn er sérlega hrifinn af fossum). Kíktum líka í sund í Vík og strákarnir fengu sér þar ,,djúsí'' hamborgara. Hmmm, og ég kannski líka.

Það var súldardrulla allan daginn, og þar eð við höfðum fengið þau skilaboð frá ferðafélögum okkar að þau ætluðu að gista í Landmannalaugum, sáum við þann kost vænstan gista í gamla húsinu á Norðurhjáleigu, í stað þess að keyra í myrkrinu inn í Hólaskjól og tjalda þar í vætunni.

Enn rigndi daginn eftir. Hópurinn lagði af stað hálf-eitt frá suðurenda Langasjávar, norður eftir vatninu. Svo var gengið með stoppum til sex, þegar við tjölduðum þar sem við höfðum gengið h.u.b. 2/3 inn vatninu, eða rúmlega til móts við Fagrafjörð. Og enn rigndi. Skyggni var lítið og Fagrafjörð sáum við aldrei. Menn fóru snemma inn í tjöld sín, og allflestir voru sofnaðir um níu-leytið! Ég sat þó inni í tjaldi og saumaði út til ríflega hálf-tíu. Þá var mér farin að leiðast einveran (Böðvar var búin að ,,durra'' síðan um átta-leytið) og ég kom mér í háttinn. Enn herti rigninguna um nóttina, og heldur hvessti líka. Ég vaknaði öðru hverju við veðrið en svaf að öðru leyti vel á nýrri dýnu og í hlýjum og þurrum pokanum. Morguninn eftir kom þó í ljós að það voru ekki allir jafn þurrir og greyið hann Björn hafði hríðskolfið mest alla nóttina. Enn aðrir voru með raka poka, og enn rigndi svo það var afráðið að snúa við, enda skyggni afar lítið.

Í Hólaskjóli beið okkar skáli og heit sturta, gnægð matar og drykkja og í stuttu máli sagt var etið, drukkið og sungið til hálf-fjögur þá nótt. Menn vöknuðu svo í brakandi blíðu næsta morgun. Enginn minntist þó á að snúa aftur og ganga á Sveinstind!

Björn fékk því aðra og betri útsýnisferð á heimleiðinni, og var bara harla sáttur.

En ég hef aldrei nokkurn tíma þurft að snúa við áður. Einu sinni er allt fyrst, býst ég við. Réttast er að láta skynsemina ráða. Eða eru þetta e-r ellimörk???

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Slurp...
Er á öðrum frostpinnanum í dag. Síðan á hádegi. Varð að athuga hvort að sykurlaus ananas hlunkur bragðaðist jafnvel og venjulegur ananas hlunkur.
Svo reyndist vera:-)
Rúmar 14 gráður á Celsíus úti.
Þessi sumarhiti, fer alveg með mann!

Á í dag von á gesti alla leið frá Uppsölum.
Björn Bergman ætlar að gleðja okkur með nærveru sinni og ég dreg hann með í Eyvindargöngu í kringum Langasjó næstu helgi. Vonandi fær hann skaplegt veður, strákurinn.