mánudagur, janúar 22, 2007

Stórflutningarnir miklu eða Stóra flutningsmáliðÞegar kona hefir hlotið áminningu fyrir bloggleti síðastliðinn mánuð er ekki seinna vænna en að taka við sér skrifa nokkrar línur.

Fyrst smotterí um fröken Viðutan:
Fröken Viðutan gleymdi víst að skrifa inn í e-r jólakortanna. Hún skrifaði víst myndatextann fyrir eina vinkonu sína en hvorki nafn né jólakveðju með. Usssumsuss. Henni til afsökunar var hún víst að fram yfir miðnætti við þessi jólakortaskrif, rétt fyrir jól. Þið ykkar sem fenguð jólakveðju í kortið ykkar getið verið upp með ykkur og ánægð.

Fröken Viðutan er alltaf að ,,týna'' nýju leðurhönskunum sínum. Þeir hafa þó blessunarlega alltaf e-n veginn komið í leitirnar aftur. En mikil angist grípur frökenina æði oft er hún áttar sig á því úti í bíl að þeir eru bara ekki á höndunum á henni. Þeir finnast oft í úlpuhettunni, eftir mikið stress.

Fröken Viðutan er oft ansi þreytt og syfjuð þessa dagana. Í síðustu viku fór hún í svörtum kjól í vinnuna. Á hádegi sá hún, sér til mikilllar hrellingar, að hún hafði víst aldrei rennt lásnum upp þann morguninn. Og við blasti skærBLEIKUR brjóstahaldari. Til allrar blessunar er rennilásinn í hliðinni, svo kannski tók enginn eftir þessu hvort eð er!

Fröken viðutan á það til að gleyma því að fá sér að borða í miklu annríki um helgar. Sefur illa þar að auki. Þetta fer jafnan illa saman og úr verður skapvonska og viðkvæmni sem aldrei fyrr.

Og af hverju er svona mikið annríki um helgar? Við komum þá að Stóra flutningsmálinu...

Það hefur staðið til að flytja síðan e-n tíma í haust. Þegar það var útséð með "fyrir jól" var tekið frí milli jóla og nýárs. Þá daga var svo eftir allt ekkert flutt. Hins vegar var unnið að því fram á kvöld að mála, parketleggja/leggja lista inni í kjallaraherbergi í Meðalholti, þar sem geyma á frk. Viðutan þegar hún er sérlega skapstirð. Neeeeeeiiii...

Herbergið verður notað sem vinnustofa fyrir stúdenta og handvinnukonu og er orðið ansi hreint fínt. Við fórum líka í IKEA í þarsíðustu helgi og fjárfestum í tveimur fataskápum, gardínustöngum og efni. Það er búið að umraða í svefnherbergi, henda út gömlum fataskápum og sófa og bora upp hillur. Staðan í Stóra flutningsmálinu er því sú að nú á að flytja búslóð frk. Viðutan næsta laugardag því væntanlegur leigjandi vill komast þar inn um næstu mánaðarmót.

Frk. Viðutan ætlar nú að leggja sæti undir rass og sjá hvort hún geti ekki fundið lausn á Litla sturtuhengjamálinu. Hvert á að fara? Í Egg. Er ekki útsala ennþá þar?

En hvað varð svo um frk. Myndó? Hrökk hún upp af í desember þegar hún sá fram á að ljúka ekki við smákökusort númer þrjú?

Síðast fréttist af henni á Sauðárkróki í afslöppun. Hún tók þó við sér í vikunni sem leið og prjónaði bóndadagsgjöf handa spúsa sínum. Og lauk við aðra flík handa sínum innra manni í gærkvöld. Hún er því ekki alveg dauð.