mánudagur, maí 26, 2003

Þrumuveður


Í gær var þetta líka frábæra veður. Ég undi mér alls ekki inni við lærdóminn og endaði á því að taka saman dótið mitt og hjóla heim. Þar náði ég mér í teppi og kom mér fyrir úti á grasi og lærði þar. Það gekk líka miklu betur, enda komst ekkert annað að í huganum en góða veðrið úti meðan ég sat inni. Og munur að eiga tölvu sem ég get tekið með mér út.

Á föstudagskvöld hafði verið ákveðið að borða saman úti á Kung Björns Hög, sem er í námunda við blokkina mína. Auðvitað byrjaði að rigna rétt fyrir sjö svo ekkert varð að því að borða úti. Í staðinn eyddum við kvöldinu hjá Cedric (hinum svissneska, eins og lesendur ættu núa að fara að kannast við...). Þar grilluðu þeir sem vildu en ég var búin að gera þetta líka fína (hehe, að mér fannst) kjúklingasalat og svo komu menn með sitthvað fleira á hlaðborðið. Kvöldið var notalegt, ég fór ekki svo seint heim enda annað partý á laugardagskvöld.

Já. Það var Júróvísjón-partý hjá Stínu og Pálma á laugardagskvöldið. Við Stína reyndum að einbeita okkur að lestrinum hér í skólanum á laugardaginn (enda nóg að gera, tvö verkefni eftir, fyrirlestur og svo próf á næstunni). Við fengum svo far á Altfiol vägen með Pálma um kvöldmatarleytið. Pálmi var sendur eftir tveimur pizzum og á meðan fórum við Stína í fínu fötin. Reyndar áttu allir að koma í búningum, en það tóku því ekki allir jafn-alvarlega. Aðalatriðið að vera svolítið glamúrlegur, enda snýst keppnin nú orðið jafnmikið um glamúr og efnislítinn fatnað og sönginn. Allir viðstaddir völdu sér 3-4 lög og skildi sá sem valið hafði sigurlagið halda partý að ári. Við áttum sko alls ekki von á að Tyrkland og Belgía myndu ná svo langt. Ég fékk að síðust Belgíulagið, og litlu munaði að það ynni! Og aumingja Pálmi hafði valið Tyrkland, svo þau Stína verða aftur að halda partý næsta ár.

Um hálf-þrjú fórum við heim. Birni (hinum sænska) tókst að troða fjórum í aftursætið á bílnum sínum, svo ég þurfti ekki að gista. Ég var hins vegar ekkert til í að fara að sofa þegar ég kom heim og ég dólaði mér til að verða fimm. Þá tókst mér loks að sofna. Ég vaknaði svo við úrhellisrigningu um átta-leytið og svo fylgdi mikið þrumuveður og enn meiri rigning. Þegar ég loks drattaðist á fætur var hins vegar komið þetta fína veður, eins og ég minntist á fyrst í þessari færslu.

Í morgun var hlýtt. En þó svolítið mistur. Rétt fyrir hádegi þykknaði skyndilega upp og aftur rigndi eins og hellt væri úr fötu og með fylgdu þrumur og eldingar. Sumarið er greinilega komið. Þetta fer ekki vel með skjálfastöðvarnar hér. Pálmi, greyið, þarf sífellt að vera að þeytast fram og til baka til að gera við eldingaskemmdir.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Daglegt amstur


Sæl, öll saman. Ég hef ekkert nennt að skrifa síðustu daga þar sem ég hef bara verið á kafi í daglegu amstri og svo sem ekkert merkilegt að segja frá. Áðan dreif ég mig í ræktina og viti menn, mér líður svona líka miklu betur. Ég réri 6km, hljóp í 15mín og reyndi svo að gera einhverjar magaæfingar. Mamma var svo góð (og Páll) að gefa mér fyrir öðru mánaðarkorti hér. Og meðan ég man, mamma á stórafmæli í dag. Til hamingju með daginn!!! Það er leiðinlegt að vera ekki heima, en það verður sko partý þegar ég kem. Er það ekki?

Og pabbi átti afmæli í gær. Nú er ég nokkuð viss um að hann lesi þetta ekki en ég vil nú samt óska honum til hamingju með daginn í gær.

sunnudagur, maí 18, 2003

Sól og sumar í Stokkhólmi


Í gærmorgun drattaðist ég loks á fætur klukkan átta. Ég dreif mig í að setja í tvær vélar og meðan þær þógu settist ég út á svalir með morgunmatinn, enda frábært veður. Um hádegisbil tók ég svo lestina til Stokkhólms og ráfaði um bæinn. Mér tókst (með hjálp elskulegs afgreiðslumanns) að finna mér fínar gallabuxur. Ég var farin að örvænta í búðinni, öll númerin frammi voru á e-r renglur, 24, 26, 28, .... Ég þurfti sérstaklega að biðja um mitt númer, sem ég ætla nú ekkert að vera að gefa upp hér en þær voru geymdar baka til. Almáttugur, eru allar stelpur í Svíþjóð svona mjóar? Eða þarf ég að fara í massífa megrum? Hehe, a.m.k. ekki strax, því nú á ég buxur sem passa.

Um kvöldmatarleytið hitti ég Stínu, Pálma, Jón Loga og Gerði (systur Stínu) og ráfaði áfram um með þeim.Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í að finna ákveðinn tælenskan veitingastað (sem á að vera svo góður) enduðum við inni á marokkóskum veitingastað þar sem við borðuðum síðbúinn kvöldmat, lambakjöt með sveskjum, kanil og sesamfræjum. Svo var neðanjarðarlestin tekin í átt að bílnum, sem þau Stína voru á. Ég kom ekki heim fyrr en um eitt og var ekki lengi að sofna eftir langan dag.

Í dag er ég búin að vera að slæpast í góða veðrinu, fékk mér göngutúr niðrá lestarstöð að sækja hjólið mitt. Trén eru í blóma, gróðurilmur í loftinu, fólk dólar sér í bænum í sumarfötunum sínum. Lífið er bara ekki semt verst!

föstudagur, maí 16, 2003

Þjófar á ferð


Í gærkvöldi ætlaði ég mér að klára fyrsta heimaverkefnið í Inversion-kúrsinum. Svo ætlaði ég að fara heim og elda mér mat því ég var orðin ansi svöng um 6-leytið. Ég komst hins vegar ekki heim fyrr en um miðnætti, þar sem það tók "aðeins" lengri tíma að klára en ég hafði áætlað. Ég var orðin þreytt og enn svangari. Það var fallegt veður og tunglskin. En haldiði ekki að e-nhver helv.... dóni hafi verið búinn að stela ljósinu af hjólinu mínu. Arrrrrrrg, pirrrrrripirrrrr, meira ARRRRRRG. Ég var kannski asni að taka það ekki af, en ég meina, hver nennir því nú í hvert einasta skipti, ha? Ég fór því og keypti mér annað áðan, mun ódýrara og ómerkilegra því ég ætla ekki að láta taka mig ljóslausa (þeir sekta hérna).

Annars er planið að fara til Stínu og Pálma í kvöld og drekkja þar sorgum mínum. Litla systir Stínu er í heimsókn og Pálmi á afmæli á morgun, þjóðhátíðardagur Norðmanna líka, svo það er næg ástæða til hátiðarhalda. Þangað til verð ég að vera ROSALEGA dugleg að lesa. Það þarf kraftaverk til að ég nái þessum kúrs. A.m.k. mikla elju og dugnað.

þriðjudagur, maí 13, 2003

Hellihellirigning


Úff, það er hellirigning. Og ég gleymdi nýju regnhlífinni minni heima. Ekki mikið gagn í henni þar! Ég vona að það stytti upp í tæka tíð fyrir The Bachelor. Svo ég komist heim þurr.

mánudagur, maí 12, 2003

Kosningar, ósigur og sumarkoman


Já, á laugardagskvöldið hitti ég Stínu og Pálma, Jón Loga og Óla Rögg. (sem var í heimsókn hjá þeim um helgina) niðrí í bæ og tók strætó með þeim á Väktargötuna í grill- og kosningapartý til Sigrúnar og Snævars sem eru í námi hér. Þar voru líka Arna og Karvel, vinir þeirra. (E-r myndir er að finna hjá Stínu...) Snævar náði sjónvarpsútsendingunni í gegnum ferðatölvuna sína svo við gátum fylgst með. Reyndar fór það nú svo að við Stína sofnuðum báðar í sætum okkar um tólf-leytið (gríðarlega hressar, sko) og við gáfumst upp og fórum heim líklega að verða hálf-tvö. Þá vorum við búin að sjá fyrstu tölur. Ég hjólaði svo neðan úr bæ og ákvað að prófa nýja leið. Hmmm, ekki mjög sniðugt í myrkri, klukkan tvö að næturlagi... Ekki það að það hafi verið e-r hætta á ferðinni, nei, mér tókst bara að villast aðeins en það var svo sem allt í lagi því ég var með hjólakort á mér.

Í gær var hlýrra en á laugardaginn. Ég fór því niðrí skóla og settist út í garð með inversjón-bókina og las í þessu líka fína veðri. Um fjögur var svo tími til að horfa á úrslitaleikinn í íshokkí. Úff, leikurinn var þokkalega spennandi. Ég var orðin alveg handviss að Svíar ætluðu að hafa þetta. Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn, 2-2 og leikurinn því framlengdur. Þá tókst Kanadamönnum að skora sigurmark sitt, en það tók dómarana fimm mínútur að ákveða hvort um mark væri að ræða eður ei, þvi það sást eiginlega alls ekki á myndum hvort pökkurinn hefði komist inn fyrir línuna. Grey markvörðurinn var alveg miður sín og ég held bara hann hafi farið að skæla. Jæja, nóg það...

Laust kennir inversjónina á fljúgandi ferð. Við Stína erum orðnar þokkalega stressaðar. En við tókum skurk núna áðan og byrjuðum á fyrsta verkefninu. Þokkalega verð ég að vera dugleg að lesa næstu vikur. Svo kvartar Laust undan dræmum undirtektum í tímum þegar hann spyr spurninga. Ég held hann sé nú ekkert sérlega ánægður með okkur...

laugardagur, maí 10, 2003

Íshokkí


Í gærkvöldi voru undanúrslit í íshokkí. Svíþjóð tókst nefnilega að vinna Finnland síðasta miðvikudag. Leikurinn í gærkvöldi var ekki verri, Svíar unnu heimsmeistarana, Slóvakíu og spila því í úrslitaleik mót Kanada á morgun. Heja Sverige!!!

Ég uppgötvaði það í gær að í dag eru kosningar. Ohh, ég fór til Stokkhólms fyrir viku en hélt ég hefði nógan tíma. Eru kosningarnar ekki frekar snemma þetta árið? Hélt þær yrðu í kringum 20. En þá er Evróvisión, það er líklega það sem ruglaði mig svona. Jæja, ég er of sein og ekkert við því að gera. En í kvöld er grill-kosningapartý hjá íslensku pari, sem ég hef nú ekki hitt hingað til. En Stínu og Pálma var boðið og þau ætla að tékka á því hvort ég fái ekki að fljóta með.

Sólin skín og ég þarf að taka skurk í lestri og gera heimaverkefni. Ætti ég ekki bara að hætta þessu blaðri, setja upp sólgleraugun og setjast út?

fimmtudagur, maí 08, 2003

Tónlist


Í dag gerði ég mér ferð niðrí bæ til að kaupa afmælisgjöf og te. Ég freistaðist til að kaupa mér einn disk í leiðinni, Massive Attack-Mezzanine. Síðustu helgi keypti ég mér líka nýjan disk, Dep.Mode-Exciter, sem ég hef haft nánast "non-stop" í spilaranum síðan. Svo bað ég Mattías, tónlistarfélaga minn hér á ganginum, um að sýna mér hvernig hann hleður niður tónlist hér. Við settum upp tvö forrit svo nú get ég byrjað að safna og safna. Ókeypis. Þvílíkt fjör. Ef ég vakna jafn snemma og síðustu tvo morgna (nætur, kl.6 og fjögur í morgun), þá veit ég hvað ég get dundað mér við þangað til ég fer í skólann!!!

sunnudagur, maí 04, 2003

Afmælis-klemmudagurinn og gærdagurinn


Já, klemmudagurinn var minn! Ég átti hinn skemmtilegasta afmælisdag á föstudaginn. Ég fór með ostaköku í skólann og bauð skólafélögum sem mættir voru til vinnu þennan frídag (klemmudag) auk osta, kex og vínberja. Nágrannar mínir hér á ganginum fengu hina kökuna þegar ég kom heim, og afganginn af ostunum og vínberjunum. Ég held þau hafi verið þokkalega sátt við það. Svo komu Stína, Pálmi og Logi, Cedric hinn (Sviss), Björn (Svíi) og Lijam (Eritrea) um kvöldið að horfa á íshokkíleikinn (Svíþjóð-Rússland). Við pöntuðum flatbökur og spjölluðum fram eftir kvöldi.

Ég fór svo með Kristínu, Pálma Jóni Loga og Cedric til Stokkhólms í gær. Ég byrjaði á því að missa af lestinni, hafði e-ð misreiknað mig, hjólaði á miljón niðrí bæ og var svo heppin að ná í lest sem fór korteri seinna. Við röltum um bæinn og urðum að lokum rennandi blaut. Stína og Pálmi sýndu okkur inni-matvörumarkað með miklu úrvali, t.d. sá ég lambavambir (pressaðar saman), hálsvöðva, ótrúlega margar tegundir af kryddpyslum (spægipylsu) alls konar ólífur, osta, vín o.s.frv. Ég keypti mer annað stykki af Svörtu Söru (osti) og svart spagettí. Kristín sá um prakkarastrik dagsins og lét setja lokk í nefið. Við kíktum á arkitektúrsafn í Skeppsholmskyrkan en gáfumst svo upp enda orðin hundblaut og ákváðum að drífa okkur í lestina. Þegar við komum til Uppsala fórum við á góðan veitingastað, Amazing Thai, og kýldum vömbina.

Í dag er enn skítakuldi. Nú mætti alveg fara að hlýna...

fimmtudagur, maí 01, 2003

Valborgarmessa-vorkoman


Þá er vorið komið til Svíþjóðar. Í gær var Valborgarmessan og mikið húllumhæ. Í byrjaði morguninn snemma og hitti Mattías og Cedric kl. hálfníu. (Mattías Lindmann er frá N-Svíþjóð og talar íslensku, hann var skiptinemi heima, oftar en einu sinni... Cedric Schmelzbach er frá Sviss og tiltölulega nýkominn hingað í doktorsnám.) Við hjóluðum saman niðrí bæ til að fá gott sæti við árbakkann, við Fyrisåen. Svo var beðið til tíu en þá byrjaði "kappsiglingin". Kappsigling er nú kannski ekki besta orðið, stúdentar sem taka þátt gera sína eigin báta, furðubáta, fara í viðeigandi búninga, láta eins og fífl og reyna að komast klakklaust niður ána, en þó aðallega niður flúðir (sem eru í raun manngerður hallandi flötur). Og allir hafa gaman af. Síðan hittum við fleiri skólafélaga í bótaníska garðinum í hádeginu. Venjan er nefnilega að borða úti síld og snafs. Allir lögðu í púkkið og ég smakkaði ljómandi gott síldarsalat! Og sinnepssíld. (Ég borða venjulega ekki síld). Svo var vel við hæfi að smakka hákarlinn sem Pálmi og Kristín komu með og íslenskt brennivín. Við sátum þarna til að verða tvö. Þá tvístraðist hópurinn. Ég þóttist ætla í skólann og vinna (gerði auðvitað ekki neitt af viti) og missti þar með að rektorsræðunni og húfuveifingunni. Já, allir (stúdentarnir) safnast nefnilega saman fyrir framan Carolina Rediviva (aðalbókasafnið), hlusta á rektor flytja stutta ræðu. Svo veifa allir hvítu stúdentahúfunum sínum (sem við Íslendingar setjum upp við stúdentspróf og notum aldrei meir), setja þær upp og svo er "hlaupið" niður brekkuna og inn á nasjónirnar og skálað í kampavíni. Menn verða fljótt ofurölvi enda er byrjað snemma, kampavín og jarðaber í morgunmat meðan setið er við ána. Nasjónirnar eru annars átthagatengd stúdentafélög. Þannig var það a.m.k. í gamla daga en nú geta menn valið sér nasjón. Hér er sum sé ekkert félað stærð-og eðlisfræðinema.

Um kvöldið hjólaði ég út í Gottsunda í grillpartý til Kristínar og Pálma. Það er langt síðan ég hef skemmt mér svona vel. Og ég held að hinir hafi ekki haft minna gaman af. Mikið af góðum mat, mjaðmahnikkir og marenge-dans undir stjórn Davíðs frá Gvatemala, söngur, meiri dans, höfðu-herðar-hné-og-tær...

Ég vaknaði snemma í morgun. Rigningin úti var svo mikil og hávær að ég náði ekki að sofna. A.m.k. gafst ég upp eftir klukkutíma og ákvað að drífa mig í að þvo þvott. Í lyftunni var þvílíkur djammþefur og skítur. Öjjjjk og drasl og meiri djammlykt á göngunum. Drasl úti. Það hefur mikið gengið á í nótt. Samt voru nokkrir árrisulir stúdentar mættir að þvo, eins og ég. Ehhh, ég hélt ég yrði sú eina árrisula. Eftir allt þvottastússið dreif ég mig í regngallan og í skólann að vinna, þótt það sé 1.maí. Vinna vinna. En nú drífi ég mig heim og enda ætla ég að gera ostakökur fyrir morgundaginn. Namminamm. Vill einhver koma í kaffi?