sunnudagur, maí 18, 2003

Sól og sumar í Stokkhólmi


Í gærmorgun drattaðist ég loks á fætur klukkan átta. Ég dreif mig í að setja í tvær vélar og meðan þær þógu settist ég út á svalir með morgunmatinn, enda frábært veður. Um hádegisbil tók ég svo lestina til Stokkhólms og ráfaði um bæinn. Mér tókst (með hjálp elskulegs afgreiðslumanns) að finna mér fínar gallabuxur. Ég var farin að örvænta í búðinni, öll númerin frammi voru á e-r renglur, 24, 26, 28, .... Ég þurfti sérstaklega að biðja um mitt númer, sem ég ætla nú ekkert að vera að gefa upp hér en þær voru geymdar baka til. Almáttugur, eru allar stelpur í Svíþjóð svona mjóar? Eða þarf ég að fara í massífa megrum? Hehe, a.m.k. ekki strax, því nú á ég buxur sem passa.

Um kvöldmatarleytið hitti ég Stínu, Pálma, Jón Loga og Gerði (systur Stínu) og ráfaði áfram um með þeim.Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í að finna ákveðinn tælenskan veitingastað (sem á að vera svo góður) enduðum við inni á marokkóskum veitingastað þar sem við borðuðum síðbúinn kvöldmat, lambakjöt með sveskjum, kanil og sesamfræjum. Svo var neðanjarðarlestin tekin í átt að bílnum, sem þau Stína voru á. Ég kom ekki heim fyrr en um eitt og var ekki lengi að sofna eftir langan dag.

Í dag er ég búin að vera að slæpast í góða veðrinu, fékk mér göngutúr niðrá lestarstöð að sækja hjólið mitt. Trén eru í blóma, gróðurilmur í loftinu, fólk dólar sér í bænum í sumarfötunum sínum. Lífið er bara ekki semt verst!

Engin ummæli: