mánudagur, maí 26, 2003

Þrumuveður


Í gær var þetta líka frábæra veður. Ég undi mér alls ekki inni við lærdóminn og endaði á því að taka saman dótið mitt og hjóla heim. Þar náði ég mér í teppi og kom mér fyrir úti á grasi og lærði þar. Það gekk líka miklu betur, enda komst ekkert annað að í huganum en góða veðrið úti meðan ég sat inni. Og munur að eiga tölvu sem ég get tekið með mér út.

Á föstudagskvöld hafði verið ákveðið að borða saman úti á Kung Björns Hög, sem er í námunda við blokkina mína. Auðvitað byrjaði að rigna rétt fyrir sjö svo ekkert varð að því að borða úti. Í staðinn eyddum við kvöldinu hjá Cedric (hinum svissneska, eins og lesendur ættu núa að fara að kannast við...). Þar grilluðu þeir sem vildu en ég var búin að gera þetta líka fína (hehe, að mér fannst) kjúklingasalat og svo komu menn með sitthvað fleira á hlaðborðið. Kvöldið var notalegt, ég fór ekki svo seint heim enda annað partý á laugardagskvöld.

Já. Það var Júróvísjón-partý hjá Stínu og Pálma á laugardagskvöldið. Við Stína reyndum að einbeita okkur að lestrinum hér í skólanum á laugardaginn (enda nóg að gera, tvö verkefni eftir, fyrirlestur og svo próf á næstunni). Við fengum svo far á Altfiol vägen með Pálma um kvöldmatarleytið. Pálmi var sendur eftir tveimur pizzum og á meðan fórum við Stína í fínu fötin. Reyndar áttu allir að koma í búningum, en það tóku því ekki allir jafn-alvarlega. Aðalatriðið að vera svolítið glamúrlegur, enda snýst keppnin nú orðið jafnmikið um glamúr og efnislítinn fatnað og sönginn. Allir viðstaddir völdu sér 3-4 lög og skildi sá sem valið hafði sigurlagið halda partý að ári. Við áttum sko alls ekki von á að Tyrkland og Belgía myndu ná svo langt. Ég fékk að síðust Belgíulagið, og litlu munaði að það ynni! Og aumingja Pálmi hafði valið Tyrkland, svo þau Stína verða aftur að halda partý næsta ár.

Um hálf-þrjú fórum við heim. Birni (hinum sænska) tókst að troða fjórum í aftursætið á bílnum sínum, svo ég þurfti ekki að gista. Ég var hins vegar ekkert til í að fara að sofa þegar ég kom heim og ég dólaði mér til að verða fimm. Þá tókst mér loks að sofna. Ég vaknaði svo við úrhellisrigningu um átta-leytið og svo fylgdi mikið þrumuveður og enn meiri rigning. Þegar ég loks drattaðist á fætur var hins vegar komið þetta fína veður, eins og ég minntist á fyrst í þessari færslu.

Í morgun var hlýtt. En þó svolítið mistur. Rétt fyrir hádegi þykknaði skyndilega upp og aftur rigndi eins og hellt væri úr fötu og með fylgdu þrumur og eldingar. Sumarið er greinilega komið. Þetta fer ekki vel með skjálfastöðvarnar hér. Pálmi, greyið, þarf sífellt að vera að þeytast fram og til baka til að gera við eldingaskemmdir.

Engin ummæli: