mánudagur, desember 30, 2002

Baunir og blómkál


Í gær var þetta fína veður, annan daginn í röð. Þetta urðum við að sjálfsögðu að nýta okkur þar sem ekki hefur viðrað vel til göngutúra lengi. Við nenntum ekki aftur upp á Esju en fórum í staðinn í létta láglendisgöngu. Við ókum út á Seltjarnarnes og lögðum bílnum nálægt gamla læknabústaðnum. Síðan stikuðum við ýmist í fjörunni eða uppi á göngustígnum meðfram sjónum. Ég kíkti á "aðstöðuna" sem búið er að koma upp fyrir hrausta sjósundskappa. Ég sá nefnilega viðtal við þá í sjónvarpinu um daginn þar sem þeir tóku sér sundsprett. Ég hugsaði strax með mér að í þennan félagsskap yrði ég að koma mér. Það vantar nefnilega fulltrúa kvenþjóðarinnar í þetta sport og ég hef þegar reynt svolítið fyrir mér í Aðalvíkinni.
En það var svolítið napurt í gær og mér leist ekkert á að fara að rífa mig úr spjörunum og henda mér út í íííííssskaldan sjóinn. Í staðinn dró ég húfuna betur yfir eyrun, reimaði að mér héttuna og arkaði áfram, hugsaði með mér: Kannski þegar fer að hlýna svolítið! Við ljóskastaraskýlið drógum við upp sjónauka og skoðuðum fjallahringinn, alveg frá Snæfellsnesjökli að Esju. Það var nefnilega prýðisgott útsýni.


Þegar heim var komið bakaði Kalli pönnukökur fyrir mig og ég grúfði mig yfir matreiðslubækur. Ég var orðin vel svöng af útiverunni og ákvað að elda eitthvað hollt og gott í kvöldmat. Fyrir valinu varð baunaréttur úr "Af bestu lyst II". Í hann fór rifnar gulrætur og kartöflur, brún grjón, puy-linsur, laukur og hvítlaukur, blómkál, salt, pipar, karrí og cumin. Ég bætti líka við smá garam-masala til að auka bragðið. Með var salat og brauð og á eftir heimagerður jógúrtís með kirsuberjasósu. Ég bauð Söndru Sif í matinn, hún býr úti í Árósum, þar sem hún er í læknanámi svo við sjáumst sjaldan, í mesta lagi á hálfs-árs fresti.


Nú er minn síðasti dagur hér á OS (í bili). Snökt. Ég var farin að kunna svo vel mið mig hérna. Ég á alveg hræðilega erfitt með að breyta til, hvað þá að kynnast nýjum hóp að fólki. Svona er ég nú félagslega bæld.

Engin ummæli: