miðvikudagur, desember 01, 2004

Viðburðarík helgi


Síðasta helgi var gríðarlega pródúktíf. Gerði sitt lítið af hvoru, að skemmta mér og vera myndarleg heima fyrir.
Á föstudagskvöldið síðastliðið fóru nokkrir af bjórfundi út að borða. Hmmm, nokkrir er kannski of djúpt í árina tekið, vórum aðeins fjögur, ég sumsé og þrír karlmenn (vúhúúú). Fórum á Indókína á Laugavegi. Sá fyrsti heltist úr lestinni þar eptir matinn. Ég og drengirnir skunduðum síðan á Grand Rokk og ég fékk þar einn kvartlítra af Stout-Murphy's. Gafst upp klukkan tólf og skundaði heim. Mér varð ekki svefnsamt fyrir háls-kitli (e-r kvefdrulla niðrí berkju) og reyndi að fá mér þrjá tebolla til að minnka pirringinn. Það sló ekki nógu vel á hostann og ég þurfti jafnframt að fara trekk í trekk á klóið til að skila af mér öllu vatninu! Reyndi þá púrtvín. Tvö lítil staup. Varla nógu sterkt. Ég held ég hafi rétt blundað milli sex og sjö frammi í stofu. Tók þá til við að þvo á mér hárið, þrífa klósettið, fékk mér loks teskeið af tabaskó sósu og skreiddist inn í rúm um átta-leytið. Gríðarlega skemmtileg nótt!!!

Á laugardagskvöld var mér boðið í mat. Skemmtilegt fólk og ég komst að því að annar gestgjafanna er svona hálf-partinn stjúpbróðir vinar bróður míns. Maður þessi hefur studerað japönsku, og varð eiginlega óbeint valdur að því að ég er nu með japanskt tattú á framhandlegg (japönsku áhugann fékk Þorsteinn bróðir að ég held hjá honum, stakk svo síðar upp á tattúveringunni...). Hlustuðum á Cave og drukkum rauðvín/koníak/viskí...

Ég var samt það brött á sunnudag að ég fór í leiðangur með mater og fann bæði flísar og parket sem mig langar í í Byko, keypti ruslagrind í eldhúsið og mottu í svefnherbergið. Við mater boruðum síðan fyrir ruslakörfunni og mynd inni í svefnherbergi, sem ég hefi dregið að setja upp í heila tvo mánuði.

Gerði smá tilraun í eldhúsinu í gærkvöld. Bauð gesti í mat og eldaði skötusel í vínberja-kókossósu. Ohhh. namminamm. Skildi helminginn af fiskinum eftir en held ég drífi mig í að elda úr afganginum fyrir mig á eftir.

Hmmm. Það eru ekki nema tuttugu dagar í að daginn fari að lengja aptur. Furðulegt. Ég hefi ekki fundið svo fyrir skammdeginu síðan í október, fyrr en í dag. Veit ekki af hverju. Og þó. En það er stutt eftir. Tíminn fram að jólum á eftir að fljúga áfram. Er farin að hlakka mikið til að hitta vini sem koma heim að utan um jólin...

Engin ummæli: