þriðjudagur, mars 09, 2004

Tuð um veðrið


Ég er löngu búin að fá mig fullsadda á þessu veðri. Það jákvæða við það er reyndar að það er tilvalið að sitja inni og vinna/læra. Alltaf gott að sjá ljósu punktana í tilverunni. Það er reyndar heilmikil fegurð í veðrinu. Ég fylgist reglulega með veðurtölunum úr mælireitnum fyrir utan, þar sem ég er svo heppin að hafa skjáinn við skrifstofudyrnar. Þrýstingsferillinn var ótrúlega flottur í gær (og reyndar líka um daginn). Hann hafði nær fullkomna lögun ferils sem mætti kannski lýsa með y=(1+x*x)íveldinu-m (m=1,2,3 hér um bil). Úrkomuferillinn í gær og í dag er svo tröppufall með tröppu á miðnætti. Ferillinn byrjar svo að rísa upp úr þrjú í nótt, okkur á SV-horninu til mikillar ánægju. Ég held þetta hafi litið nær eins út í gær. Það merkilega við þetta allt saman er að loftþrýstingurinn fer varla niður fyrir 1006HaPa þessa dagana. Við erum sum sé alls ekkert í djúpri lægð, eins og halda mætti af veðrinu. Ég ræddi þetta við veðurfræðingana í gær. Við erum hins vegar á milli tveggja lægða, yfir okkur liggur hæðarhryggur með þessum gífurlega vindstreng. Eða eins og e-r hér kallaði það: náttúruleg vindgöng.

Engin ummæli: