mánudagur, mars 15, 2004

Fyrstu vordagar



Eftir gífurlega leiðinlegt og langvarandi drulluveður er sólin farin að skína á ný og Kári vonandi farinn í langt frí suður í lönd! Í gær var rjómablíða. Ég hafði hugsað mér að drífa skattaskýrsluna af en ákvað að drífa mig fyrst út í góða veðrið, af ótta við að það entist ekki lengi. Fór í langa fjöruferð. Gekk með Ægissíðunni og út fyrir Suðurnes og Seltjarnarnes. Ég skrapp líka út í Gróttu þar sem svo heppilega vildi til að það var að fjara út. Veðrið gat ekki verið betra, allt svo fallegt, flugurnar lifnaðar við í þaranum í fjörunni, tjaldar og lóuþrælar og sendlingar á vappi í fjöruborðinu, fullkomið.

Á laugardag, svo við tökum þetta afturábak, var einsetukonan búin að fá meira en nóg af sjálfri sér. Áttaði sig reyndar ekki alveg á því fyrst. Skildi ekkert í því að hún nennti ekki einu sinni að sauma sér til skemmtunar. Já, það er víst nauðsynlegt að fara öðru hverju út á meðal fólks (ekki bara í vinnunna). En einmitt þegar ég þurfti á e-m að halda var bara engin vinkvenna minna heima. Skrapp þá bara í bæinn. Kom svo við hjá vinkonu að kíkja á mánaðargamla dóttur og færa henni gjöf. Sú litla er alveg ógurlega mikil rúsína. Ég meina, ég er nú alls engin barnagæla en gæti alveg hugsað mér að eiga þessa litlu, eða svona næstum því. Hmm, ætli aldurinn sé farinn að segja til sín? Dreif mig svo aftur inn í Rvk í heimsókn til Berglindar og Evva, þar sem við borðuðum EldsmiðjuPizzu með bestu lyst og horfðum á 28 days later og Monster's Ball. Sú seinni var alveg ægilega hæg miðað við þá fyrri (en góð samt). Maginn var kominn í einn rembingsspennuhnút eftir þá fyrri, en ég mæli með henni. Við horfðum á einn Friends þátt á milli til að trappa okkur niður.

Það er ekki mikið útlit fyrir skíðasnjó um páskana. Fékkk þó aðra hugmynd í gær. Það væri líklega vel hægt að fara á Hvannadalshnjúk eða upp á Fimmvörðuháls og áfram á Eyjafjallajökul. Jafnvel að renna sér e-ð á skíðum þar. Eða að ganga Reykjaveginn einu sinni enn. Eitt er víst. Ég ætla ekki að sitja ein heima á rassinum alla páskana (eins og í fyrra úti yfir skólabókunum). Nó sörí.

Engin ummæli: