miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Handlagin húsmóðir?


Ég er alveg hætt að prjóna. Ég er a.m.k. ekki tilbúin með neitt til að færa barni vinkonu minnar, sem von er á á föstudag. Hér áður fyrr notaði ég hvert slíkt tilefni til að koma út prjónaflíkum mínum. Ég fór því í Virku í gær og keypti tvenns konar efni til að sauma skokk á barnið (veit það verður stelpa). Það ætti ekki að taka langan tíma. Ég keypti líka garn í peysu. Fékk nefnilega góða hugmynd og langar að útfæra hana. Svo hefur mér fundist ég eyða allt of miklum tíma við sjónvarpið. Ég ætla að hafa það að reglu hér eftir að ég verði helst að gera e-ð í leiðinni. Hér eftir verður það því skylda að prjóna í sjónvarpsletiköstum. Og það er bara hreint ótrúlegt hvað hægt er að afkasta þannig. Og tímanum er ekki kastað á glæ!


Í gær tók ég mig líka til og hengdi upp kertakrónu upp í herbergið mitt. Hingað til hefur hún legið á gólfinu inni í stofu. Ég sótti tröppurnar niður í geymslu og stóð svo með vasaljósið í kjaptinum og reyndi að aftengja rússnesku ljósakrónuna sem hangir þar. Ég þurfti nefnilega að koma vírunum í gegnum dós sem ég skrúfaði í loftið. Það var hægara sagt en gert. Þeir hafa verið með e-t nýtt "system" á víratengingunum í stað gömlu hvítu tengjana (krónutengi?). Það tók mig óratíma að smella þeim í sundur til að geta losað vírana. Sérstaklega þar sem ég var hætt að sjá nokkuð til því vasaljósið lognaðist út af. En þetta hófst allt saman að lokum og ég er reynslunni ríkari.


Ég er svona aðeins farin að huga að snemmsumarleyfi ársins. Ætla að fara í lok maí til Englands og ferðast um með mömmu í svona 10 daga. Það er því borin von að e-ð bætist við á kortið hjá mér. Ég verð nú að segja að það er hálftómt hjá mér, 4% er fremur slök frammistaða. Mig langar mikið til að bæta Grænlandi á listann, og Færeyjum. En ég býst við að ég komist varla lengra en til Vestmannaeyja í ár, fyrir utan England, auðvitað.



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

Engin ummæli: