þriðjudagur, október 07, 2003

Í strætó


Í morgun tók ég strætó. Ég þurfti nefnilega að fara með Móa litla (bílinn) á verkstæði. Það er búið að vera e-ð tikk tikk auka-ganghljóð undanfarið og svo kom ég aftur að bílnum rafmagnslausum hér við Veðurstofuna á sunnudaginn, þegar við komum heim úr helgarferðinni. Ég er reyndar farin að halda að bíllinn kunni ekki við að láta skilja sig eftir annars staðar en heima því ég kom líka að honum rafmagnslausum hjá farfuglaheimilinu þegar ég kom að austan (úr sumarskólanum) fyrir mánuði. Þetta hefur hins vegar aldrei gerst þegar hann stendur úti í Furugrundinni.

Jæja, ég tók sum sé strætó úr Hafnarfirðinum í vinnunna. Á biðstöðinni hitti ég gamla skólasystur úr Öldutúni svo ferðin varð miklu skemmtilegri fyrir vikið. Við höfðum báðar verið að ræða það við vinkonur okkar, að tími væri komin á "reunion" og ætlum að reyna að gera e-ð í því bráðlega. Hún fékk netfangið mitt. Vona bara að e-ð verði úr þessu...

Þórsmerkurferðin var stórskemmtileg. Við komum inn í Goðaland um hálf-ellefu. Þá var komið frost og orðið heldur kalt, en samt lygnt. Ég ákvað því að tjalda, eins og þrír aðrir. Svaf í úlpunni minni en vaknaði samt öðru hverju út af kulda. Ég er nokkuð víst um að dýnan mín sé aðal-sökudólgurinn. Hún er alltof þunn og varla fyrir meira en sumarferðir. Snemma morguns vaknaði ég við dynki. Það var eins og einhver væri að hamast í stögunum á tjaldinu mínu eða e-ð að detta á það. Ég sofnaði þó aftur, enda dimmt. Seinna, um hálf-átta, vaknaði ég aftur við dynkina. Í þetta skiptið var orðið bjart og ég sá því hvað olli. Þetta voru laufblöð úr birkitrénu fyrir ofan mig. Hmmm. Ansi eru þau þung, hugsaði ég. Ákvað að kíkja út. Og viti menn. Alhvítt. Það hafði snjóað um nóttina. Og farið niður í -6 gráður þegar kaldast var. Laufið féll niður af greinunum á tjaldið með snjó. En dagurinn var fallegur og við fórum í göngu inn á Morinsheiði. Um kvöldið var grill, varðeldur, glens og gaman. Og það byrjaði að rigna, ansi mikið , svo ég nennti ekki með svefnpokann minn út í tjald og svaf inni þá nótt. Morguninn eftir fór hluti hópsins upp á Réttarfell og niður glæfralegt einstigi að Álfakirkju. Ég mæli með þessum hring. Útsýnið er stórkostlegt og stígurinn ævintýralegur, þó ekki fyrir mjög lofthrædda! Auðvitað var svo stoppað í Stakkholtsgjá.

Ég tók nokkrar myndir í ferðinni en hef auðvitað ekki enn drifið þær inn. Er hins vegar búin að gera myndirnar úr gönguferðinni vestur á Fjörðum aðgengilegar, ef e-r skyldi hafa áhuga að kíkja.

Engin ummæli: