fimmtudagur, október 09, 2003

Lítil frænka


Í gærkvöldi fór ég á stórskemmtilega danssýningu í Borgarleikhúsinu. Íslenski dansflokkurinn var með lokaæfingu og fengu tveir fulltrúar frá hinum ýmsu fyrirtækjum að fara. Ég var sú eina sem gaf sig fram hér á Ví svo ég fékk báða. Sýndir voru þrír dansar:

1) Symbiosis- "Fáránleiki hversdagslegra ástarsambanda"
2) Party
3) Match
Dansarnir voru fjörugir og skemmtilegir. Inn í Party var blandað smá leik og Match var fullur af húmor. Í raun var hann skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Þar er líka gert létt grín að kunnuglegum hreifingum og töktum sem sjást í fótboltaleikjum. Við hlógum öll mikið. Ef e-r ykkar hefur minnsta áhuga á dansi, mæli ég eindregið með þessari sýningu. Og ég ætla mér að fara oftar á sýningar flokksins.


Eftir sýninguna þreif ég saumavélina út í bíl heima og brunaði í saumaklúbb í Hafnarfjörðinn. Þar náði ég að strauja slatta af bútum sem saumaðir voru saman þegar við hittumst síðast, frænkurnar. Anna Beta var orðin kasólétt og gengin viku fram yfir. Hrefna Sif var að sauma eldhúsgardínur og Harpa að sauma út. Við fórum ekki heim fyrr en rúmlega hálf-tólf.
Rétt áðan hringdi Harpa í mig og sagði mér að Anna Beta hefði ekki fengið svefnfrið nema til fjögur í nótt, þá fór allt af stað. Hún var komin inn á fæðingadeild hálftíma síðar og allt yfirstaðið sjö í morgun. Ég er búin að eignast nýja, litla frænku, stóra og pattaralega. Ég óska Önnu Betu og Gunnari innilega til hamingju! :-)

Engin ummæli: