þriðjudagur, desember 23, 2003

Nú er úti veður vont, verður allt að drullu - allt á fullu!


Hæ, hó.
Svartasta skammdegið. Rigning og rok. Mín beið hrina að vinna úr (Reykjaneshrygg) þegar ég kom í vinnuna í gærmorgun. Víííí. Búið að vera rólegt á vaktinni hingað til.


Er nú búin að skila af mér öllum jólabögglum sem ég kom með frá Uppsölum. Er annars sjálf á síðust stundu með allt. Ekki búin að skrifa á eitt einasta jólakort, á eftir að redda einni og hálftri jólagjöf og taka til og pakka og ég veit ekki hvað. Vildi að ég hefði meiri tíma. Í bjartsýniskasti í gærkvöldi ákvað ég að fara að föndra jólakort. Veit svo sem ekki hvenær ég ætlaði mér að ljúka við þau, í nótt kannski? Áttaði mig og keypti tvo pakka af miklu flottari kortum.


Hmm. Gleymdi að segja ykkur frá skemmtilegri bíóferð í Uppsölum. Ég fékk Jóhírisi með mér á Love Actually. Við vorum báðar ansi svangar og ákváðum að fara á McDonalds hinum megin götunnar, eftir að hafa keypt bíómiðann. Þar var löng röð, og við sáum ekki fram á að geta troðið í okkur kjúklingaborgurunum á nógu skömmum tíma þannig að við pökkuðum öllu niður í bakpokann minn og laumuðumst með matinn inn í bíóið. Þeir ætluðu aldrei að slökkva ljósin, og loksins þegar það var gert og ég fór að laumast í pokan angaði allt af matarlykt, lúffurnar mínar lika. Held að sessunautur Jóhírisar hafi verið hálf-hissa á þessu uppátæki (Sviar geta verið svo "ferkantaðir" og leiðinlegir), líklegra þó að hann hafi öfundað okkur af matnum. En myndin var fín og við komum með bros út að eyrum. Ég á eftir að horfa oftar á þessa mynd.


Mér finnst á lyktinni á ganginum að það verði skata í hádeginu. Ætli ég geti fengið saltfisk eða nætursaltað í staðinn?


Og að síðustu: Gleðileg jól!

Engin ummæli: