föstudagur, mars 28, 2003

Frk viðutan


Það er smá spölur frá strætóstoppistöðinni hingað að skólanum. Ég hef oft gengið í myrkri héðan frá skólanum ef ég hef verið e-ð frameftir að lesa. Ég fer þá út bakdyramegin enda styttra þaðan. Og svo geng ég í kantinum á veginum (hægra megin) sem liggur frá skólanum út á götu, þótt það sé engin umferð, en góð regla samt. En næstum því í hvert einasta skipti hef ég gengið á e-ð sem slútir þarna yfir veginn og alltaf dauðbregður mér. Svo tek ég eftir því að þetta eru bara greinar á birkitré sem stendur við veginn. Mér finnst bara frekar fyndið að ég skuli ganga á þær aftur og aftur.... Ég get verið alveg svakalega utan við mig...

Á mánudaginn fór ég niður á alþjóðaskrifstofuna og spurðist þar fyrir um húsnæði. Ég var nefnilega búin að skrifa þeim oft áður en ég kom og átti að vera komin á biðlista. Það var svo haft samband við mig daginn eftir og það losnar herbergi á gangi (sameiginleg eldunaraðstaða) 1.apríl. Þetta er í stúdentablokkarhverfi úti í Flogsta sem er hérna vestur af skólanum. Það er kannski hálftímagangur þangað, eða minna. Best er þó að hafa hjól því strætó sem fer þaðan stoppar ekkert í nánd við skólann (þ.e. Geocentrum) heldur fer niður í bæ og svo verður maður að taka annan vagn. Ég fékk mér gönguferð þarna út eftir í vikunni og ætlaði að kíkja á herbergið. Það reyndist ekki vera hægt því það býr e-r þar enn...

Það er mjög notalegt að vera hjá Stínu og Pálma en ég get ekki níðst á gestrisni þeirra endalaust. Ég kvíði svolítið fyrir að flytja en þetta á ábyggilega eftir að venjast... Ég hef samt miklar áhyggjur af því að ég geti ekki horft þarna á Sex and the city sem er á mánudagskvöldum og The Bachelor sem er á þriðjudagskvöldum. Ætli það sé sjónvarp þarna?

Engin ummæli: