föstudagur, nóvember 19, 2004

Þriðji í tandoori-kartöflum


Á miðvikudag fékk ég matargest. Hafði ákveðið að elda tandoori-kartöflur með cummin-hvítlaukssósu. Mundi það rétt þegar ég sturtaði rúsínunum í pottinn að ég hafði séð viðkomandi pilla það sem hann hélt að væru rúsínur úr sætabrauði deginum áður. Hmmmm. Gaffallinn hans virtist mun gisnari en minn og rúsínurnar sem rötuðu á diskinn e-n veginn runnu bara í gegn. Það voru einmitt rúsínurnar sem settu punktinn yfir i-ið þarna. Ojæja. Vona að hann hafi ekki farið of svangur heim... Eldaði fullan pott svo nú er þriðji í kartöflum hjá mér, og enn nóg eftir. Vííí...



Óskaplegur kuldi er þetta. Og ég sem var farin að hlakka til vetursins snemma í sumar. Lét mig dreyma um logndrífu, nýfallna, dúnmjúka mjöll og stjörnubjartar nætur. Fussa svo núna yfir öllum þessum snjó. Ég var ástfangin þá, týnd í draumórum. Óskaplega getur ástfangið fólk verið vitlaust. Svíf ekki lengur á þessu bleika skýi óraunveruleikans. Veð svona meira í mýkrófísísku regnskýi, með fullt af holum í og er dauðhrædd við að detta niður. Það er vandlifað í þessum heimi!!!


Engin ummæli: