mánudagur, maí 17, 2004

Músagangur


Afmælisbarn dagsins er Pálmi hennar Stínu. Til hamingju með daginn, Pálmi!

Fyrirlesturinn á föstudaginn gekk bara framar vonum. Annars var ég búin að vera svo rosalega stressuð. Gat varla borðað morgunmat, kexkakan sem ég át stóð hálfpartinní hálsinum á mér og ég var með stöðugan hnút í maganum. Svo var bara eins og kvíðinn rynni af um leið og ég stóð upp og allt fór eins vel og það gat farið. Held ég.
Á Laugardagsmorgni tók ég til, þurrkaði af, ryksugaði, þvoði þvott, ja, gerði bara ýmislegt sem setið hafði á hakanum um tíma. Hmmmm, nema að þrífa bílinn. Aumingja Mói, orðin svo hræðilega skítugur. Tek hann í gegn næsta sólskinsdag!

Var boðið í Júróvísjón-partý með vinnufélaga og vinum hennar. Mjög hress hópur. Fjörugar umræður þegar líða tók á kvöldið, m.a. um hösl í gufunni í Vesturbæjarlauginni og punglýtaaðgerðir!!!
Sunnudagurinn fór í að drasla aftur út heima. Stofan gerð að saumastofu og í þetta skiptið saumaði ég topp úr rauðu velúri úr sniði sem ég keypti fyrir ári í Uppsölum. Toppurinn varð auðvitað of víður, þarf að rekja upp og þrengja aðeins, svo hann verði nú jafn sexý og hann átti að verða...

Ég fór líka og sló garðinn hjá ömmu, lenti þar í hellidembu. Amma hafði fengið gesti sem hún var ekki par ánægð með: Tvær hagamýs. Bökkum með klístri var komið fyrir hér og þar og önnur veiddist við ísskápinn. Æ, hún var pínulítil. Ég vildi sleppa henni, amma á öðru máli, vorkenndi greyinu ekkert og vildi bara láta hana deyja drottni sínum. Það er sosum skiljanlegt. Það er ekki gaman að hafa músagang í eldhúsinu!

Lokapunktur helgarinnar var lóner-bíóferð á Kill Bill 2. Myndin góð og þrátt fyrir allt ógeðið svaf ég eins og steinn til sex í morgun og dreymdi engan viðbjóð.

Engin ummæli: