mánudagur, september 15, 2003

Sauðárkrókur


Eftir vinnu á föstudag sótti mamma mig og við brunuðum norður á Sauðárkrók. Það var mikið fjör í bílnum og við sungum og dönsuðum (ja svona eins mikið og hægt er sitjandi í bíl og við stýrið) með Fat Boy Slim, Depeche Mode, Coldplay og Ham alla leiðina. Já, það er sko munur að eiga svona hressa mömmu sem fílar þetta allt! Á laugardeginum fékk ég (eftir svolítið japl og jamm) mömmu og Þorstein með mér upp á Tindastól. Fjallið er eiginlega Esja þeirra Sauðkrækinga, 995m hátt og yfir 20 km á lengdina. Við fórum bara upp á fyrstu bunguna, ferðin tók okkur 5 tíma (rólega farið) og við hefðum líklega þurft 2-3 í viðbót til að komast upp á efsta tind, inni á ca. miðju fjallinu. Þegar við komum niður og heim fengum við gómsætt lambalæri sem Sara hafði eldað. Í gær var komið hálf-hryssingslegt veður og við fórum í bíltúr að Hólum í Hjaltadal og út á Hofsós. Þar kíktum við á gömlu húsin niðri við höfnina og Vesturfarasafnið. Skoðunarferðinni lauk svo í bakaríinu á Króknum þar sem við settumst niður með kaffi og dúndurkökusneiðar.

Seinni partinn var lagt af stað heim aftur. Og áfram var spilað og sungið á leiðinni: "Ég bý í sveit, á sauðfé á beit og sællegar kýr út'á túni..." Ég hlakka bara til að fara aftur norður í heimsókn í vetur með skíðin...



Fyrir þá sem e-n áhuga höfðu á að kíkja á veggspjaldið og geta ekki lesið PostScript skjal, þá er hér, loksins pdf-skjal.

Engin ummæli: