föstudagur, júlí 18, 2003

Það er nú meiri blíðan


Oooooo það er alltof gott veður til að vera inni. Mér finnst það ætti að banna fólki að vinna inni í svona góðu veðri. Sérstaklega fólki á Veðurstofunni.
Af hverju á ég ekki inni þúsund frídaga?

Ég læt mig dreyma um ...að svamla úti í sjó í Nauthólsvíkinni, flatmaga í sólinni og sandinum ...ganga á Heklu, ábyggilega frábært útsýni þar í dag
... og fleira og fleira

Nú hefi ég loksins komið því í verk að setja inn myndir úr miðsumarferðinni. Ég fór með Jóhíris, Cedric, Daníel hollenska og öðrum Hollendingi, Bart, sem er vinur Jóhírisar. Bart kom til Svíþjóðar helgina áður til að taka þátt í maraþoni í Stokkhólmi. Hann var skiptinemi í Uppsölum fyrir nokkrum árum og er núna að skrifa mastersverkefi í sögu um sænsk dagblöð u.þ.b. síðustu fimmtíu árin.

Þegar þau komu að sækja mig var mér tilkynnt að búið væri að panta gistingu inni með morgunverði. Það var eins gott, því það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Ekið var til Leksand og gist þar á heimili utan við bæinn. Daginn eftir voru tínd blóm úti í skógi í miðsumarkransinn sem var svo borinn á miðsumarhátíðinni. Þ.e. þegar blómastöngin var reist og svo dansað í kringum hana (í rigningunni). Um kvöldið buðu hjónin, sem við gistum hjá, okkur að borða með sér og vinafólki þeirra. Ég smakkaði heimsins besta síldarsalat og sitthvað fleira góðgæti. Um miðnætti var svo farið út í göngutúr og allir tíndu sjö tegundir af blómum til að sofa með undir koddanum. Sögur segja að menn eigi þá að dreyma verðandi maka sinn. Tveir vina minna vöknuðu þokkalega sáttir. Hinir sögðust hafa tækifæri næsta sumar.

Loksins stytti upp daginn eftir. Þá ókum við til Rättvíkur, fórum á bak á gráum Dala-hesti, gengum út á bryggju sem liggur langt út á Siljan-vatnið, kíktum í handverksbúð og ókum loks heim gegnum Falun. Svo var ákveðið að halda áfram. Grill og partý. Fámennt en góðmennt. Það var dansað fram á nótt. Alveg þangað til Cedric var alveg að sofna (aðeins of mikill bjór). Ég fylgdi honum heim og tók svo til við að þrífa. Fór sum sé aldrei að sofa þá nóttina. Jóhíris, Cedric og Bart fylgdu mér að lokum út á flugvöll. Ég fékk versta sætið í vélinni. Alveg aftast við ganginn. Eftir matinn var stöðug biðröð á klósettið, fólk var alltaf að rekast utan í mig og ýta á sætið mitt, sem ég var að reyna að halla aftur. Mér kom varla dúr á auga. Já. Var bara frekar úrill þann daginn.

Og þar með lýkur þeirri sögu...

Engin ummæli: