mánudagur, júní 09, 2003

Léttir, skemmtan og meiri skemmtan



Netið hefur legið niðri í herberginu mínu á stúdentagörðunum, svo ég hef ekki komist á blogger til að skrifa. Ég er líka búin að taka mér gott frí frá skrifstofunni þessa helgi.
Munnlega prófið var á föstudaginn. Það var ekkert svo slæmt, ég held mér hafi bara gengið ágætlega. Við Stína, og Pálmi, settumst svo á teppi úti í trégarðinum og borðuðum hádegismatinn okkar. Við vorum ekkert í stuði til að fara að vinna svo við röltum niður í bæ. Stína vildi finna snið að topp, sem hún ætlar að sauma sér, og ég var með til ráðgjafar (hmmm). Svo komum við í skóbúð og ég kom út með BLEIKA skó. Já, ég hef alltaf keypt mér svarta spariskó. Því ekki að breyta til?

Ég fór svo snemma heim til að undirbúa kvöldmat. Ég hafði boðið Stínu og Pálma, Mattíasi og Birni í mat. Á boðstólnum var kjúklingabaunarétttur ásamt meðlæti, Stína og Pálmi komu með kampavín og matinn borðuðum við uppi á þaki með þetta líka fína útsýni af 8.hæð. Þetta var skemmtilegasta kvöld.

Daginn eftir dreif ég mig loksins í því að þvo þvott sem safnast hefur upp síðustu daga. Mattías hringdi svo rétt yfir hálf-ellefu og sagði mér að báturinn út í Skokloster færi eftir 40-50 mín. Ég hnringdi í snatri í Gottsundaliðið og Cedric. Öll náðum við í tæka tíð í bátinn. Siglingin út í Skokloster tók tæpa tvo tíma. Þetta er nes úti í vatninu Mälaren og þar stendur höll sem við skoðuðum. Áður en báturinn fór til baka settumst við í grasið og borðuðum af nestinu okkar. Leiðin sem við sigldum er falleg. Siglt er niður Fyrisån ,sem rennur gegnum Uppsali, og áfram út á Mälaren. Á veturna er efnt til skautahlaups milli Uppsala og Stokkhólms á langskautum. Ég held að það sé um 80 km leið, en það er samfellt vatnasvæði héðan og til Stokkhólms. Það er líka hægt að sigla héðan alla leið til Gautaborgar. Langskautana náði ég aldrei að prófa áður en ísinn fór að bráðna. En ég fæ kannski tækifæri seinna :)

Í gærmorgun fórum við svo sex saman í golf. Já, það er í fyrsta skipti sem ég prófa þá íþrótt. Björn var svo almennilegur að fara með okkur á golfvöllinn sinn (eða öllu heldur þar sem hann er félagi) og leifa okkur að prófa. Við byrjuðum á því að æfa höggin, lengri högg og svo upp úr sandgryfju og pútt. Ég verð að viðurkenna að þetta er miklu erfiðara en það sýnist. Ég náði aldrei tökum á lengri höggunum. Var nú eiginlega alveg glötuð. Svo fórum við á minni, níu holu völl til að spila. Á aðalvellinum máttum við auðvitað ekki leika þar sem við erum ekki félagar og höfum ekki tekið próf sem þarf á hann. Sá litli var nú svo sem alveg nógu stór. Við skemmtum okkur konunglega, og ég náði mér aðeins á strik, náði meira að segja að fara eina holu á pari, jessss, hvað það var góð tilfinning. Daginn enduðum við svo á að fara á pizzu-stað hér í bænum, enda voru allir orðnir vel svangir eftir daginn.

Nú fer ég heim á morgun. Ég kláraði að pakka í morgun og er því bara næstum því klár. Það var svo mikil rigning í morgun að ég hafði ekkert annað að gera. Það er langt síðan ég hef verið svona snemma í því að pakka. Venjulega enda ég á því að vaka til 3 aðfararnótt ferðadags. Þið á Íslandi, sjáumst bráðum!

Engin ummæli: