föstudagur, janúar 02, 2015

Síðbúin jóla- og nýárskveðja

Kæru vinir, ættingjar.

Í ár útbjó húsmóðirin á Akurgerði 60 jólakortin, að henni fannst, tímanlega á rafrænt form. Svo tók við mikið stress fyrir ráðstefnuferð, ferðin sjálf, og svo eftirköstin, jólin og allt sem þeim fylgir. Húsbóndinn er ekkert sérlegur áhugamaður um jólakort og jólakortagerð svo ekki gerðist mikið í þeim málum á meðan húsfreyjan dvaldi í Californíu. Svo, aldrei voru kortin prentuð. Húsfreyjan strögglar enn við að aðlagast GMT og setti met í að sofa frameftir þennan nýliðinn mánuðinn. Aldrei áður hefur hún vaknað bara rétt fyrir hádegi á aðfangadag og þykir það nokkuð fréttnæmt.
En, við, hjónin í Akurgerði 60 óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum góðar samverustundir á líðandi ári. Kortið fær að fljóta hér með, svo og mynd sem vinkona okkar Gyða, tók af okkur í lok gönguferðar Vesturdalur-Ásbyrgi í júlí síðasta sumar og hefði mátt enda á jólkortinu. Frábær ferð, í frábærum félagsskap og strákarnir voru svo duglegir að ganga. En unglingarnir voru fjarri góðu gamni.

Og svo ein frá fermingu Ylfu Rósar í maí


Bestu kveðjur,
Sigurlaug og Böðvar.

föstudagur, febrúar 03, 2012

Galdurinn við greinarskrif...


...er að setja tappa í eyrun. Nei, ég meina það, þetta er ekkert grín. Það virkar smá, að minnsta kosti. Árangurinn verður ögn meiri. Samt ekki nægur.

Galdurinn er líka að úða í sig sykri, nammi, eða e-u slíku. Eða svo hélt ég. Eða held öllu heldur. Örsjaldan virkar það, og því held ég alltaf áfram að reyna;-)

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Hjalti í morgun: ,,Mamma, mig langar ekki að fara í leikskólann. Ég vil vera lengur heima í fríi. Ég vil vera lengur í jólafríi, áramótafríi, sumarfríi...''

Greyið, litli karlinn minn. Þegar þetta gekk ekki var enn reynt: ,,Það er búið að banna mér að koma aftur í leikskólann'' Nú? ,,Já, ég var svo óþægur í gær og ég meiddi marga krakka, ég má ekki koma þangað aftur!''
Mamman trúði þessu tæpast. Það er allt reynt. Greinilega erfitt að byrja eftir fríið aftur og mega ekki dandalast á náttfötunum langt fram eftir morgni.

föstudagur, nóvember 18, 2011

Video killed the radio star...


Og svo kom fésbókin og drap bloggið. Eða því sem næst.
Eftir að hafa rennt yfir dagbókarglefsur nokkurra ára sakna ég bloggsins.
Ég geri nú tilraun til að byrja á ný að skrifa misgáfulegar glefsur úr daglegu lífi,
aðallega mér til skemmtunar.

Ég sat við fornleifauppgröft í dag. Verkskráningar sem setið hafa á hakanum.
Eftir því sem aldurinn færist yfir gengur mér verr og verr að halda skrifborðinu hreinu, snyrtilegu heima, gera í dag það sem gera átti í dag og óreiðan virðist vera farin að ná yfirhendinni.
Á öllum sviðum.
Það er óheyrilega niðurdrepandi.

föstudagur, febrúar 19, 2010

Afrek síðustu vikna:
Fjallgöngur: 31. janúar '10: Esjan
7. febrúar: Móskarðshnúkar
18. febrúar: Esja

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Fjallganga.
Við Sigga Sif Tókum góðan 3,5 klst hring í Esjunni í gær. Fórum ásamt tveim öðrum sem voru tímabundin og snéru við í miðjum hlíðum. Hvað ætli bærist í kollinum á fólki sem þrammar upp í mót yfir hjarnbreiðu efst í Gunnlaugsskarði? Ég komst í trans og ákvað að setja saman þulu:

Ég gekk upp á stein
og hitti þar fyrir svein.
Sveinninn rak mér koss
tókust ástir með oss.
Hentumst út í mó,
köstuðum af okkur skó.
Um haustið varð eg þyngri,
ég er nú ekkert að verða yngri!
Sveinn lét ekki sjá sig
er ég varð mikil um mig.
Ég ól svo litla stúlku
og gekk með hana á púlku,
yfir fannir breiðar,
út um holt og heiðar.
Hún varð seinna stór
og söng í stórum kór.
Fór svo út í heim,
og hitt þar sinn svein.
Sá var betri en minn,
og elskaði svannann sinn.
Nei, ég varð aldrei frú
og svona fór sagan sú.

Þetta myndi nú seint teljast til tímamótakveðskapar, en ég gleymdi mér a.m.k. um stund.
Er upp komum við úr skarðinu hálf-hlupum við yfir hjarnbreiðuna, sem hafði þiðnað ögn í sólskinunu fyrr um daginn. Fórum svo niður af Þverfellshorni og komum rúmlega tíu í bílinn. Enn var þá fólk á leið upp á fjallið.