föstudagur, desember 27, 2002

Seríusögur


Ég segi mínar "seríu"farir ekki sléttar. Í fyrra, fyrir ári síðan keypti ég mér seríu í Habitat. Hún var nú ekkert sérlega ódýr, í dýrara lagi. Setti hana upp fyrir jólin, einu sinni í haust og svo nú aftur í desember. Einhverju sinni er ég ætlaði að taka hana úr sambandi var annar teinninn af spennubreytinum eftir í innstungunni og plastið brotið allt í kringum hann. Þetta fannst mér nú heldur lélegt og fór því í Habitat og kvartaði. Afgreiðsludaman hafði líklega lent í svipuðu tilfelli því hún sagðist eiga nokkra spennubreyta uppi á lager og lét mig fá nýjan möglunarlaust. Í desember rakst ég á nýja seríu sem mig langaði í (ekki í sömu búð). Eftir um tíu daga, á jólanótt, fór pera í nýju seríunni. Þar með var 1/5 hennar ljóslaus og ég frekar svekkt, díóðuperur eiga nú að duga lengur en þetta! Ég fór því aftur af stað í kvörtunarleiðangur og kom heim með nýja seríu án minnsta vesens. Það borgar sig að vera miðmótsþýð.

Annars voru jólin ágæt hjá mér. Á aðfangadag bakaði ég fjórðu sortina, vanilluhringi, og held ég að ekki hafi verið vottur af skötulykt eftir í eldhúsinu eftir það. Ég var hjá mömmu á aðfangadagskvöld svo ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af matarstússi. Ekki heldur í gær, fyrradag og í kvöld. Er núna á leið í risa-jólaboð fjölskyldunnar hennar mömmu og þar verður etið meira kjet. Svo er bara um að gera að massa í ræktinni á morgun til að prótínið lendi allt á réttum stöðum! (Bjartsýni)

Engin ummæli: