þriðjudagur, júní 28, 2005

Mér var boðið í partý á laugardagskvöld til Mörtu. Hún flutti inn í nýja íbúð í vor og ég hef lengi verið á leiðinni í heimsókn. Kíkti því aðeins inn með B og dreif hann svo niður í bæ að dansa, því mér finnst svo óskaplega langt síðan síðast... Eftir að hafa farið á nokkra misjafna staði (og hálf-dansdauða) enduðum við á 22. Auðvitað. Fyndið hvað við vorum feimin fyrst við að dansa og sleppa fram af okkur beislinu. Og þá aðallega út af hvort öðru. En eftir mikið ,,headbang og slam'' var ég með vöðvabólgu dauðans í herðum og hálsi í gær. Lítið eitt skárri í dag. Þetta tekur á:-o

Sat og reiknaði og reiknaði í gær. Upprifjun á hornafræði fyrir forrit svo ég geti farið að koma draslinu frá mér (skriðvektorar lagðir saman, finna ofanvarp meðalvigurs á bestu sléttu í gegnum skjálftadreif og horn milli vigra o.s.frv.). Reiknaði (með smá hléi þó) til tíu og rölti svo með B eftir Ægissíðunni í kvöldgjólunni og léttum úða. Wunderbar...

Í hita leiksins (=dansins) á laugardag gengur upp að mér ungur maður (sem ég þekki ekki neitt) og segir við mig: Fyrirgefðu, en ég varð að koma og segja þér það, mér finnst þú alveg ofboðslega falleg! -og gekk svo í burtu. Ég varð hlessa, lendi ekki alveg í þessu á hverjum degi, stundi upp: Takk. Gott að fá smá búst fyrir egóið. Mér veitir ekki af. Í búðinni áðan ætlaði ég að næla mér í sætabrauð en gömul kona hafði lagt körfunni sinni fyrir framan og var lengi að næla sér í það sem hún ætlaði að fá. Ég náði mér í poka, var alveg að verða pirruð en ákvað að vera smá þolinmóð og bíða bara. Sú gamla tók sér pistasíuvínabrauð og fór svo að tala um að hún hefði heyrt af þessum brauðum og smakkað, og þau hefðu nú aldeilis verið góð en hún hefði bara alls ekki munað hvað þau hétu, bara e-ð sem byrjaði á Péi og svo frv. Ég bara jánkaði og brosti. Svo hafði hún á orði að það væri nú aldeilis ekki á hverjum degi sem hún fengi svona fallegt bros við svona blaðri, og fannst það nú aldeilis gaman og mér hlýnaði um hjarta og brosti enn breiðar. Hmmmm. Það borgar sig nú aldeilis að vera viðmótsþýð:-)

En einna vænst þótti mér þó að heyra ungan mann segja: ,,Þú ert svo yndisleg...'' Sumir dagar eru bara hreint ekki svo slæmir!

fimmtudagur, júní 23, 2005

Veðrið er svona lala en ég hjólaði með bros á vör í vinnuna áðan:-)

Hitti stelpurnar á Vegamótum í gærkvöld. Rölti mér svo heim og tók til við að losa stífluna í baðvaskinum. Eftir árángurslítið pot vopnuð gúmmíhönskum fann ég forláta flöskubuska og ýtti honum í gegn upp rörið. Upp frussaðist meiri drulla (út um allan vask) og hárvöndull, hálf-grænn og slímugur. Ooojjjjj. Skrúfaði frá krananum til að hreinsa rörið betur en steingleymdi því að allt var opið í gegn svo nú frussaðist bæði vatn og drulla niðrá gólf! Sumir eru utan við sig. En stíflan er farin lönd og leið.

Í kvöld verður fiskur. Skötuselur og steinbítur í vínberjasósu. Ætla að reyna að heilla ungan mann með jarðaberjunum með kókosflögunum. Ætli það takist? Kannski óþarfi að vera að reyna; held mér hafi þegar tekist það! Held það barasta...

miðvikudagur, júní 15, 2005

Skötuselurinn varð að lúðu ("Já, það er af því að þú ert svo femínísk, sagði gestur"!!!) og forrétturinn að engu en maturinn heppnaðist vel; súkkulaðikakan varð himneskt, eins og hún átti að vera, og við stóðum öll á blístri. Pjúff. Óhætt að segja að þetta kvöld mun teljast með betri mánudagskvöldum. Ég tók smá kökubita og jarðarber með í göngu í gærkvöld. Eftir óvenjulegan vinnudag úti á Reykjanesi (Jobbi bauð mér með að sækja þrjá mæla á nýja prufustaði og tölvu og græjur upp á Þorbjarnarfell) hjólaði ég heim í einum grænum og stökk svo af stað í gönguferð. Gangað hófst uppi á Hellisheiði og gengið var niður í Reykjadal og áfram niður í Hveragerði. Kvöldsólin braust fram úr skýjunum og geislarinir köstuðu leyndardómsfullri birtu á ummyndað og litríkt bergið. Rómantískt!

mánudagur, júní 13, 2005

Aaaa, ég er að fríka út hérna við tölvuna. Mig langar til að kasta af mér skónum, hlaupa út í gras eða taka sundsprett í sjónum! Fór í göngu með broþar í gær. Við tókum þriggja og hálfs tíma göngu á Geitafell. Fór svo og fékk rosalega góðan mat á Austurlandahraðlestinni með "soldið" sætum vini. Ekki amalegt;-) Það verður meira inverskt í kvöld því ég ætla að bjóða nýgiftum vinum mínum í mat í kvöld. Ég á hvítvínsflösku í skápnum, skötuselurinn klikkar aldrei og svo var búið að panta himneska súkkulaðiköku í eftirrétt. Basillikan i eldhúsglugganum er orðin svo hávaxin að hún fer að falla um sjálfa sig. Keypti því tómata og mozarella til að hafa með í forrétt. Ætli fólkið hafi nokkuð lyst á svo miklum mat í þessum hita?

fimmtudagur, júní 02, 2005

Tólf stiga hiti úti og stígandi?
Allt of gott veður til að sitja inni. Hjólaði á stuttermabol í vinnuna í morgun. Fór í notalegan labbitúr í fjörunni úti á Nesi í gærkvöld. Sólin var að setjast og það var eins og bál væri bak Gróttu. Öldugjálfur og vorangan. Ummm.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Speki ýmisleg



Óskaplega er hún orðin þunn, þessi síða. Er ekki mál að bæta úr því?

Ösp - Óvissa
04.02-08.02 & 01.05-14.05 & 05.08-13.08

Manneskjan hefur ekki mikla trú á sjálfri sér en er kjarkmikil þegar á reynir. Hún þrífst best í þægilegu umhverfi og þarfnast velvilja frá vinum sínum sérstaklega.

Manneskjan er oft einmana, enda vandfýsin með afbrigðum og býr oft yfir mikilli og djúpstæðri reiði. Hún hefur listræna hæfileika og er góður skipuleggjandi, aðhyllist sérstaka lífsspeki og er mjög traust í hvaða aðstæðum sem er. Manneskjan flanar ekki að neinu þegar náin kynni eru annarsvegar.

Sp: Er þetta ég? Hmmmm. Ekki laust við að ég trúi því.

Áfram hélt ég...

Naut
Ef þú ert ekki ástfangin(n) er vissulega erfitt fyrir þig að stunda gott kynlíf því þú ert oftar en ekki bundin(n) eigin tilfinningum. Þegar öll skynfæri þín eru örvuð í einu ert þú ánægð(ur) og þegar þú æsist væntir þú fullnægingar.

Aha...

Hætti svo að finna sniðugar persónulýsingar og stjörnuspár og snéri mér aftur að Scholz og brittle-plastic transition...

Frábært annars að eiga góða að í vinnunni. Listinn var laus á bílnum. Ég bað um ráð og áður en ég fékk þau var búið að redda málinu. JGE er gull að manni!!!

Um helgina fór ég á Iron Maiden-tribute tónleika á Grand Rokki. Hmmm. Aðeins svona meira dauðarokk en metall. En áhugavert engu að síður. Daginn eptir gekk ég við annan mann á Trölladyngju. Það var brakandi blíða er við lögðum af stað og skálmunum var fljótt rennt af buxunum. Eftir að toppnum var náð var haldið niður hinum megin, niður í lágina milli Trd. og Grænudyngju á afram út á hálsinn. Settumst þar niður í sólinni og nörtuðum í smákökur. Heyrðum allt í einu drunur miklar, og síðan kom hver þruman á fætur annarri. Úfff, það setti að okkur óhug. Höfðum séð svört ský í austri yfir Bláfjöllum en fannst ólíklegt að þau rækju til okkar. Lánið var þó eigi meira en svo að þegar við vórum komin upp á Oddafell kom þetta líka svakalega haglél sem dundi á okkur með þessum líka látum að þegar við loksins komum í bílinn var allt rennandi, og pollur í bakpokanum. Gránað hafði í fjöll. Þvílíkar öfgar! Með líflausa fingur og hroll í kroppnum brunaði ég í bæinn, sótti sundfötin og náði loks í mig almennilegum hita i laugunum. Varð því ekki meint af, ferðin verður bara eftirminnilegri fyrir vikið;-)