föstudagur, febrúar 16, 2007

Vika til stefnu? Við mættum samt í dans í gærkvöld. Ég er farin að fá bjúg á ökklana. Og mér finnst það sérlega lítt sexí:-( Eftirmiðdagsdúr gerir gæfumuninn og ég sé fram á að ná að klára litríka teppið. En sængurverin?
Ósaumuð
Hneyksli.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Enn í Kassaborg


Þetta er ótrúlegt. Mér finnst ég alltaf vera að en samt eru enn kassastaflar úti um allt. Vandamálið er plássleysi. Ég væri löngu búin að koma öllu fyrir ef ég hefði flutt inn í tóma íbúð.

Við tókum ákvörðum um hvers konar skápa átti að kaupa á ganginn um helgina. Svo hægt væri að ganga frá hlutunum á sinn stað. En auðvitað voru skáparnir sjálfir búnir í IKEA. Hvænær ætli þeir komi? Þangað til sitjum við uppi með skápahurðir og framlengingar og þar með enn fleiri kassa en áður.

Og hvenær ætli vírskúffurnar komi í fataskápinn? "Þær eru búnar að vera leeengi í pöntun" svarar afgreiðslufólkið þegar ég spyr í þriðja sinn. Allt tekur víst sinn tíma. En ég er óþolinmóð. Þoli ekki alla þessa óreiðu.

Og sængurverin fyrir blessaðan ungann? Enn ósaumuð. En á dagskrá í kvöld. Eins og mörg önnur kvöld. Er bara með allt of margt á prjónunum.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Umsátursástand


Enn ríkir umsátursástand í Meðalholti. Við erum umsetin af pappakössum. Fullum og tómum. Og húsgögnum sem ekki er hægt að koma smekklega fyrir með góðu móti. Allt er á eftir áætlun því húsbóndi heimilisins á afmæli í dag og að sjálfsögðu átti allt að vera orðið fínt og snyrtilegt fyrir þann tíma. Svo er þó ekki.

Eitthvað er þó á áætlun (og það er ekki meistararitgerðin!) hjá frk. Myndó. Henni tókst að ljúka peysunni dýru sem keypt var í fyrir nú nákvæmlega ári síðan í Storkinum. Rennilásinn var festur í á þriðjudagskvöld yfir Veróníku Mars og áframhaldandi sjónvarpsdagsrá á RÚV það kvöldið. Afmælisbarn dagsins (fyrrnefndur húsbóndi í Meðalholti) fékk því pakkann sinn í morgun. Og ég held að greyið hafi ekki annað þorað en að fara í peysunni í skólann líka, til að móðga nú ekki ólétta konuna, sem hann er nýbúin að flytja inn til sín.

Án alls grins: Ég held að peysan sé bara ágæt, en svo er spurning hvort Böðvar fíli hana. Kemur í ljós.

Rétt rúmar tvær vikur eftir. Og litli unginn situr nú á haus í kviðnum. Það var staðfest í sónarskoðuð á föstudaginn var. "Þetta er mikið meðalbarn" sagði ljósmóðirin og allt virtist líta vel út. Gengum því róleg út með mynd í hendinni sem sýnir lítið kúlulaga nef og stút á vörum. Ég held því kokhraust fram að nefið sé mitt!