miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Inn í vog


Og enn af sundi. Ég dreif mig á þriðju æfingu í gær (ég hugsaði með mér, ahhh, ef ég nenni ekki mikið oftar í haust, þá er allt þegar þrennt er). Að þessu sinni var synt inn voginn. Fórum þrjú alla leið inn í botn og til baka. Vorum held ég um 70 mínútur í sjónum og ég held að þetta séu um 2,5 km fram og til baka. Þar með er ég búin að slá persónulegt met! Vei vei, og held ég nenni ekkert að vera að toppa það á þessu ári. Ég var farin að finna vel fyrir kuldanum í lokin. Eftir svona 40 mínútur fann ég að mér var aðeins farið að kólna á tánum. Svo færðist doðinn í yljarnar. Að lokum voru fingurnir orðnir svolítið stirðir og fæturnir hvítir. Skelltum okkur aðeins í pottinn í fjörunni í Nauthólsvíkinni og svo inn í sturtu þar sem ég byrjaði loks að skjálfa og skjálfa, en líf tók að færast í alla skanka. Kom við í vinnunni og hellti í mig kakóbolla áður en ég fór heim, og hætti að skjálfa. Er bara hin hressasta í dag, vona ég hafi ekki náð í kvef af öllu volkinu.
Það var annars feykigaman að fylgjast með stangarstökkinu í gærkvöldi. Þórey stóð sig vel, en það var líka gaman að sjá ólympíumeistarann svífa yfir í síðasta stökkinu. Þvílíkir tilburðir!

mánudagur, ágúst 23, 2004

Of mikið hvítvín?


Grillaða keilan bragðaðist stórvel á föstudaginn var. Ekki var verra að eiga gott hvítvín með. Hálfflaska dugði til að gera mig vel hífaða, enda var ég vel þyrst og svöng eptir sundæfinguna. Í þetta skiptið tók ég engin andköf þegar ég fór út í og gat líka bleytt hausinn (dulítið átak) og synti aðeins skriðsund. En aptur að garðfundinum. Var búin að kaupa snúsnú-band á kostakjörum og nokkrir nenntu að hoppa með mér. Muniði eptir ,,einn upp í tíu og tíu nið'rí einn, öfugt niður''? Tókst þetta þrátt fyrir hvítvínið. Áfram var haldið í heimahús þar sem rabbað var fram til þrjú. Gestgjafar voru ekki sparir á veitingar, smakkaði tvenns konar líkjör og fékk svo nattemat. Komst heim að lokum. En mói var skilinn eptir. Ég þurfti því að rúlla á hjólinu inn í Reykjavík á laugardag. Ég rétt kíkti á menninguna með Kötu og Berglindi, kom svo við úti í Háskóla og horfði á tilraunir eðlisfræðinema til að koma loptbelg á lopt, að sjálfsögðu. Nú, e-ð gekk þetta brösuglega, því ekki vildi belgur litli upp, heldur skreið hann hraðbyri lárétt í átt að einbeittum Tai Chi iðkendum. Strákarnir töguðu þó í snúrurnar í tæka tíð svo enginn valt um koll. Þetta var samt svolítið skondið.
Kata hélt kveðupartý um kvöldið. Þar var mikið fjör og dansað út í eitt. Eftir smá kvartanir nágranna var haldið um þrjú-leytið niður í bæ. E-ð var ég búin að torga of miklu hvítvíni, því í þetta skiptið var heil flaska tekin með, og mér leið ekkert alltof vel í stöppunni og reykmettuðu loftinu á Ölstofunni. Fór því fljótlega út og fékk far heim. Ég hef nú vaknað hressari klukkan níu á sunnudagsmorgni. Hmmm, þó öngvir timburmenn. Ég afrekaði því lítið í gær, annað en að skoða íbúð og tína rifs-og sólber til sultugerðar. Sofnaði að lokum værum svefni yfir fimleikunum í gærkvöldi. Jamm, og þetta var helgin í hnotskurn.

föstudagur, ágúst 20, 2004

meiri sjó, meiri sjó, meiri sjó...


Júbbs, senn líður að næstu sundæfingu, duddurruddudu, 20 mínútur.
Úfff, svei mér þá, er komin með hnút í magann.
Grillveisla í vinnunni á eftir. Mín bíður marineruð keila á grillið og hálf hvítvínsflaska. Ummmm. Og svo Murphy's og snú snú fram á kveld...

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Sjósundfélagið bíður ykkar með opnum örmum



Ohhh, en huggulegt að fá skeyti með svona fyrirsögn. Hmmm...

Langt er síðan síðast! Æ, þetta sumar fór fyrir ekki neitt og eiginlega bara í e-a vitleysu, afrekaði þó að fara í skemmtilega göngu yfir Verslunarmannahelgina með útilegufélaginu Eyvindi. Gengum með tjöld frá Ásbyrgi að Reynihlíð við Mývatn á fjórum dögum. Hressandi ferð í skemmtilegum félagsskap, og kærkomin hvíld frá langsetum við tölvuna.

Annað afrek: Dreif mig loks í sjóinn i gær með Sjósundfélagi Íslands. Aaa, bara smá kalt fyrst, tók nokkur andköf, en synti kokhraust eftir það, langaði ekkert upp úr í lokin. Sjórinn hér í Fossvoginum var miklu hlýrri en forðum daga í Aðalvíkinni þegar ég synti út í bátabaujuna. Í þeirri sundferð beit kuldinn mig stöðugt í tærnar og ég var ekki almennilega farin að ná andanum fyrr en á bakaleiðinni. Úfff. Sumir voru hraustir einu sinni... (=montmontmont).