mánudagur, desember 30, 2002

Baunir og blómkál


Í gær var þetta fína veður, annan daginn í röð. Þetta urðum við að sjálfsögðu að nýta okkur þar sem ekki hefur viðrað vel til göngutúra lengi. Við nenntum ekki aftur upp á Esju en fórum í staðinn í létta láglendisgöngu. Við ókum út á Seltjarnarnes og lögðum bílnum nálægt gamla læknabústaðnum. Síðan stikuðum við ýmist í fjörunni eða uppi á göngustígnum meðfram sjónum. Ég kíkti á "aðstöðuna" sem búið er að koma upp fyrir hrausta sjósundskappa. Ég sá nefnilega viðtal við þá í sjónvarpinu um daginn þar sem þeir tóku sér sundsprett. Ég hugsaði strax með mér að í þennan félagsskap yrði ég að koma mér. Það vantar nefnilega fulltrúa kvenþjóðarinnar í þetta sport og ég hef þegar reynt svolítið fyrir mér í Aðalvíkinni.
En það var svolítið napurt í gær og mér leist ekkert á að fara að rífa mig úr spjörunum og henda mér út í íííííssskaldan sjóinn. Í staðinn dró ég húfuna betur yfir eyrun, reimaði að mér héttuna og arkaði áfram, hugsaði með mér: Kannski þegar fer að hlýna svolítið! Við ljóskastaraskýlið drógum við upp sjónauka og skoðuðum fjallahringinn, alveg frá Snæfellsnesjökli að Esju. Það var nefnilega prýðisgott útsýni.


Þegar heim var komið bakaði Kalli pönnukökur fyrir mig og ég grúfði mig yfir matreiðslubækur. Ég var orðin vel svöng af útiverunni og ákvað að elda eitthvað hollt og gott í kvöldmat. Fyrir valinu varð baunaréttur úr "Af bestu lyst II". Í hann fór rifnar gulrætur og kartöflur, brún grjón, puy-linsur, laukur og hvítlaukur, blómkál, salt, pipar, karrí og cumin. Ég bætti líka við smá garam-masala til að auka bragðið. Með var salat og brauð og á eftir heimagerður jógúrtís með kirsuberjasósu. Ég bauð Söndru Sif í matinn, hún býr úti í Árósum, þar sem hún er í læknanámi svo við sjáumst sjaldan, í mesta lagi á hálfs-árs fresti.


Nú er minn síðasti dagur hér á OS (í bili). Snökt. Ég var farin að kunna svo vel mið mig hérna. Ég á alveg hræðilega erfitt með að breyta til, hvað þá að kynnast nýjum hóp að fólki. Svona er ég nú félagslega bæld.

laugardagur, desember 28, 2002

Esjudagur


Í dag fór ég með Kalla og Þorsteini í fjallgöngu. Við, systkinin, höfum lengi ætlað að fara saman upp á Esju. Í kjetveislunni í gærkveldi var ákveðið að drífa í því í dag. Við fórum upp venjulegu leiðina, þ.e.a.s. upp á Þverfellshorn. Við útsýnisskífuna var boðið upp á maltöl og jólasmákökur og svo var haldið áfram aðeins lengra upp til að fá betra útsýni til norðurs. Veðrið var prýðilegt og ágætis skyggni. Þegar ég kom heim lagðist ég svo í heitt bað með Lavender-olíu (til að ná aftur í mig hita) og sofnaði næstum því eftir allt "erfiðið". Þetta er því búinn að vera ágætis frídagur og ég get setið fyrir framan sjónvarpið í allt kvöld með góðri samvisku.

föstudagur, desember 27, 2002

Seríusögur


Ég segi mínar "seríu"farir ekki sléttar. Í fyrra, fyrir ári síðan keypti ég mér seríu í Habitat. Hún var nú ekkert sérlega ódýr, í dýrara lagi. Setti hana upp fyrir jólin, einu sinni í haust og svo nú aftur í desember. Einhverju sinni er ég ætlaði að taka hana úr sambandi var annar teinninn af spennubreytinum eftir í innstungunni og plastið brotið allt í kringum hann. Þetta fannst mér nú heldur lélegt og fór því í Habitat og kvartaði. Afgreiðsludaman hafði líklega lent í svipuðu tilfelli því hún sagðist eiga nokkra spennubreyta uppi á lager og lét mig fá nýjan möglunarlaust. Í desember rakst ég á nýja seríu sem mig langaði í (ekki í sömu búð). Eftir um tíu daga, á jólanótt, fór pera í nýju seríunni. Þar með var 1/5 hennar ljóslaus og ég frekar svekkt, díóðuperur eiga nú að duga lengur en þetta! Ég fór því aftur af stað í kvörtunarleiðangur og kom heim með nýja seríu án minnsta vesens. Það borgar sig að vera miðmótsþýð.

Annars voru jólin ágæt hjá mér. Á aðfangadag bakaði ég fjórðu sortina, vanilluhringi, og held ég að ekki hafi verið vottur af skötulykt eftir í eldhúsinu eftir það. Ég var hjá mömmu á aðfangadagskvöld svo ekki þurfti ég að hafa áhyggjur af matarstússi. Ekki heldur í gær, fyrradag og í kvöld. Er núna á leið í risa-jólaboð fjölskyldunnar hennar mömmu og þar verður etið meira kjet. Svo er bara um að gera að massa í ræktinni á morgun til að prótínið lendi allt á réttum stöðum! (Bjartsýni)

mánudagur, desember 23, 2002

Þurrkur og þorsti


Gggghhhh!!! Þótt ég sé búin að drekka tvo lítra af vatni í dag (og byrjuð á þeim þriðja) er ég alveg jafn þyrst. Mig grunar að loftið hérna í vinnunni sé mjööööög þurrt. Getur verið að loft í húsum verði mun þurrara af rafmagnskyndingu en hitaveitukyndingu? Ætli megnið af kyndingu hér komi ekki frá tölvunum.

Ég er ekkert búin að gera af viti í allan dag. Bíð eftir því að geta farið heim. Húsið er hálftómt, flestir í fríi í dag. Á heimleiðinni ætla ég að koma við í fiskbúðinni og kaupa heila ýsu til að sjóða fyrir gikki sem ekki borða skötu. Það verður nefnilega skötuveisla í kvöld hjá okkur. Ég hef því ákveðið að fjórða sortin verði ekki bökuð fyrr en í fyrramálið, til að svæla út skötulyktina. Ætli það dugi? Í neyð er hægt að hlaupa út í Nóatún og kaupa rauðkál til að sjóða niður. Það ku virka vel.


Ég ákvað að nota þennan rólegheitadag í vinnunni og skanna nokkrar gamlar jólamyndir af okkur systkinunum. Ætla að setja þær á kortið til Þorsteins bróður. Hér er ein. Svona vorum við fyrir 26 árum!




föstudagur, desember 20, 2002

Þriðja sortin


Ummm, nýbakaðar smákökur og mjólk! Rétt í þessu var ég að smakka engiferkökrnar sem ég var að baka. Þær tókust bara stórvel, brenndi ekki eina einustu plötu.
Kökurnar gerði ég með forláta kökusprautu sem ég fékk lánaða hjá mömmu. Hún er bandarísk og henni fylgja alls konar myndaplötur sem settar eru fremst í sprautuna. Um daginn notaði ég trjá-mótið og gerði græn jólatré.

Áðan eftir vinnu var jólahlaðborð á OS. Þar var gnægt matar og drykkja og fullt af fólki. Venjan er nefnilega að bjóða gömlum starfsmönnum. Það var því vel troðið og eftir fyrstu ferð nennti ég ekki að troða mér aftur á milli og fór því, hálfsvöng samt. Ég kíkti niður á Laugaveg með Gerðu. Ætlunin var að kíkja á skyrtu- og kápuefni í Seymu.
Ég fann feykilega fínt kápuefni, "dogtooth" mynstur held ég að það sé kallað, klassískt. Málið var nú reyndar að efnið var nú eiginlega allt of dýrt, 5-6000 kr. metrinn og þá eru komnar um 11-12 þúsund kr án fóðurs og hnappa. Þetta mun nú varla borga sig, ha? Hafa lesendur nokkuð rekist á vefnaðarverslun á netinu? Ef svo er, látið mig endilega vita.

Ýmist of eða van


Já, það er ýmist of eða van þessa dagana hjá mér. Í gær var ég svo syfjuð í vinnunni að ég sofnaði milli skipana sem ég sendi á tölvuna. Mér miðaði því nákvæmlega ekkert áfram og endaði með því að gefast upp á öllu saman og flýja í leikfimi. Í dag, hins vegar, er ég svo stressuð að ég kem öngvu í verk. Er enn einu sinni að reyna að redda málunum á elleftu stundu. Meira um það síðar!!!

þriðjudagur, desember 17, 2002

Tízkuþræll!


Í gærkvöldi skrapp ég í enn einn búðaleiðangurinn, í þetta sinn með Berglindi vinkonu og Evva. Við byrjuðum á að rölta einn hring í Ikea, enda var ég búin að sjá þar jólagjöf sem ég átti eftir að kaupa. Síðan fórum við í Smáralindina. Ég fann svolítið flotta skó þar, með langri mjórri tá. Ég vona að e-r vilji gefa mér svona skó í jólagjöf! (Hint, hint.)
Það er ótrúlegt hvað tískan getur spilað með mig. Fyrir um þremur árum síðan (tveimur?), þegar támjóa tískan var farin að ryðja sér til rúms, hét ég því að fá mér ALDREI svona skó. ALDREI. Mér þótti þetta hallærislegt og asnalegt enda fílaði ég vel breiðu skóna með þvertánni sem hafa verið nokkuð lengi, og eru enn. Þeir eru praktískir og hentugri fyrir fæturna, engar kramdar tær. En nú er ég fallin. Skynsemin farin lönd og leið. Og ég slæ botninn í þessa morgunfærslu með orðum Berglindar: "...maður á aldrei að vera praktískur þegar kemur að skóm".

mánudagur, desember 16, 2002

Vá maður, hvað ég get verið vitlaus. Blaðið er spænskt, en ekki ítalskt eins og ég hélt. Málið var að ég var búin að sjá það áður og skoða það. Án þess að skoða málið nánar ákvað ég að það væri ítalskt (tískan, sko; Ítalir eru, eins og Frakkar, svo vel inni í málunum). Svo núna áðan þegar ég keypti þetta margumrædda blað fannst mér ítalskan svolítið skrítin, eiginlega svolíðið spænskuleg. Fyndið.

Hádegislabbið


Í hádeginu í dag langaði mig ekki upp í matsal að borða svo ég ákvað að fá mér göngutúr út í Hagkaup í Skeifunni. Ég keypti mér svolítið í svanginn. Auk þess fann ég fínar jólasokkabuxur og saumablað. Það var rosalega flott kápa í blaðinu, mig langar mikið til að sauma hana, ef það er hægt að fá flott efni á viðráðanlegu verði hér í búðunum. (Það er nefnilega orðið svolítið dýrt að sauma, stundum borgar það sig ekki.) Það er reyndar smá vandamál: blaðið er á ítölsku! Ég kann ekki nema fáein orð í ítölsku. Sjáum hvernig gengur.

Gærdagurinn fór í tiltekt og smákökubakstur. Auk þess dreif ég mig í að taka niður gömlu gardínurnar í stofunni og þvo þær. Svo voru nýjar hengdar upp í staðinn. Nú á ég bara eftir að taka svolítið meira til, kaupa tvær eða þrjár jólagjafir og þá er jólastússið búið. Það er sko notalegt að vera laus við allt prófstress í desember. Mjög ljúft.

föstudagur, desember 13, 2002

Myrkranna á milli...


Já, þessa dagana vinna menn myrkranna á milli. Eiginlega ætti líka að borga næturvinnuálag hálfan daginn þar sem ekki dagar fyrr en um hálf-ellefuleytið og myrkt er orðið um hálffimm. Og þessa dagana kemst varla nokkur dagskíma í gegnum rigningarskýin og varla birtir birtir nokkuð. Af þessum ástæðum ákvað ég fyrr í vikunni að skunda út í Rúmfatalagerinn og kaupa mér litríka ljósaseríu. Hún hangir núna úti í glugga hér í vinnunni og lífgar svolítið upp á annars grátt útsýnið.

Í gær ákvað ég að hjóla við í Kringlunni á leiðinni heim. Ég ætlaði að kaupa ljóst karton til að geta klárað jólakortin. Ég varð fyrir vonbrigðum með úrvalið í Pennanum, þeir áttu ekki það sem mig vantaði. Ég ákvað því að kíkja í Eymundsson. Þar var öngvan pappír að finna. Hins vegar fann ég nokkrar skemmtilegar bækur sem mig langaði í. Ég er mjög veik fyrir bókum, með hálfgerða söfnunaráráttu, einkum hvað varðar alls konar handavinnu og handverksbækur, skrautritun, mynstur og þ.u.l. Þótt ég sé að spara fór ég út með tvær. Ohhh, og ég hef ekki einu sinni pláss fyrir þær sem ég á fyrir!

fimmtudagur, desember 12, 2002

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?


Í morgun kíkti ég aðeins í DV meðan ég borðaði jarðarberjasúrmjólkina mína. Þar rakst ég á skondna frétt. Sagt var frá 7 ára dreng í LA sem á sér þá ósk heitasta að verða öskukarl. Helstu áhugamál hans eru að elta öskubílinn um hverfið sitt og skoða ofan í öskutunnur. Auk þess segist stráksi ætla í háskóla til að læra að aka öskubíl. Og hann er stórhuga: "Ég hef gaman af stórum trukkum. Mér finnst gaman að koma ruslinu þangað sem það á heima og gera heiminn hreinni."
Ætli Michael muni ekki enda í e-u öðru starfi þegar hann eldist? Ætli það séu margir sem á endanum láta æskudraum sinn rætast? Velja sér framtíðarstarf sem þá dreymdi um 5ára? Sjálf er ég langt frá mínu fyrsta "draumastarfi, ég ætlaði að verða hárgreiðsludama.



Vandamálið frá í gær er leyst. Eins og Stella stakk upp á var það líklega BoundingBox vandamál. Ég hafði nefnilega skilgreint kort með lambert-vörpun og við hliðina á kortinu annað svæði í öðru (hliðruðu) hnitakerti með skýringum. Þetta hefur latex bara ekki höndlað. Ég lagaði með því að skilgreina fyrst stóran ramma og setti skýringarnar til hliðar í hann og teiknaði svo kortið inn í sama rammann. Þá féll allt í ljúfa löð.


miðvikudagur, desember 11, 2002

Latex vs. PostScript vesen


Ég er búin að vera í veseni í dag. Er að skrifa smá greinargerð og var búin að koma öllum textanum á Latex-form.
Vandamálið kom svo upp þegar ég ætlaði að fara að setja inn "fínu" kortin mín í skjalið. Kortin voru gerð með GMT í Unix og eru myndir á postscript formi (.ps). Þegar ég skoða svo skjalið mitt í xdvi (eða gv) birtist myndin leiftursnöggt og hverfur svo aftur. Það sama gerist þegar ég færi bendilinn yfir (skoða með stækkunarglerinu). Hún prentast ekki út með skjalinu. Ég prófaði að setja inn aðrar GMT-myndir inn í staðinn, bæði svipuð kort sem aðrir hafa gert og annað sem ég gerði um daginn. Það virkaði vel. Nú spyr ég: Hefur e-r lent í öðru eins? Hvað getur eiginlega verið að myndinni minni?

þriðjudagur, desember 10, 2002

Cave í kvöld


Jæja. Nú er ég búin að sitja límd við tölvuskjáinn í allan dag og varla líta upp. Ég fékk það verkefni í vinnunni að skrifa hluta af vinnslueftirlitsskýrslu fyrir hitaveitu Þorlákshafnar. Bara að mata gögnin gegnum tilbúin skeljaforrit (reyndar eftir mikið cut og paste í Excel), leiðrétta smá handvirkt og gera myndir. Svo er ég búin að reyna að túlka gögn síðasta árs eftir bestu getu. Það er sniðugt að sjá hvað vinnslan í borholunum dettur niður þegar veðrið er einstaklega gott. Ég bar gögnin mín saman við veðurfarsgögn Veðurstofunnar og sá þetta greinilega í júní á þessu ári (þá voru hitamet víða slegin) og í ágúst í fyrra (hér syðra). Ég ætla nú samt að láta lesa þetta yfir áður en ég læt minn part frá mér, það er nú annað að skrifa svona fyrir verkkaupa úti í bæ en að skila svona skýrslu í skólanum, það þýðir ekkert að bulla í eyðurnar!


Nú ætla ég að drífa mig í leikfimi og mæta svo galvösk í röðina við Broadway í tæka tíð. Ég vona að ég fái góð sæti.

mánudagur, desember 09, 2002

Jólasmákökur og jólaljós


Nú er jólaundirbúningurinn kominn á skrið hjá mér. Á föstudaginn var jóla"frúkostur" hér á ROS á OS. Allir (sumir en samt nógu margir) komu með e-ð gott að borða eða drekka á hlaðborðið. Á laugardaginn fór ég svo í smá jólaleiðangur. Ferðinni var heitið í Blómaval, IKEA, litla sérvöruverslun og Habitat. Ég kom heim með tvær jólagjafir og auðvitað líka e-ð handa mér. Í IKEA keypti ég svolítið skraut, kertastjaka, kökubox og svoleiðis. Svo stóðst ég ekki mátið og keypti seríu á jólatréð í Blómavali og aðra til að hafa á speglinum inni í herbergi hjá mér. Ég stóðst allar freistingar í HABITAT (naumlega), enda var ég svolítið dugleg þar í fyrra.

Laugardagskvöldið fór ég í fyrsta skipti á Bond í bíói. Svaka hasar, sé ekki eftir því. Svolítið fyndið samt að sjá stóru Hallormsstaðar-grenitrén við Jökulsárlónið. Morguninn eftir, þ.e. í gærmorgunn, spratt ég svo á fætur og dreif mig í að baka eina smákökuegund, kornflekskökur með kókosmjöli og súkkulaði. Og hana nú.

Óli (forseti) viðraði þá hugmynd (hjá Árdísi) að við gætum hist, skólafélagarnir úr HÍ, í jólaglöggi Stiguls. Hvenær mun það verða? Líst ykkur á þessa hugmynd? (Þ.e.a.s. ef e-r skyldi lesa þetta...)

fimmtudagur, desember 05, 2002

Ofsaveður


Ég held það sé að skella á ofsaveður. Íslandspóstur er hér á neðri hæðinni, í sama húsi og Orkustofnun. Mikið vorkenni ég póstberunum í dag, það er ömurlega leiðinlegt að þurfa að bera út í svona veðri...


Í gær var kaffihúsakvöld. Það er óralangt síðan ég hef farið á kaffihús, það gerist æ sjaldnar. Ég plataði Magga, vin minn og skólafélaga til að hitta mig, með því skilyrði að ég byði honum upp á bjór. Virkar það ekki alltaf á stráka? Það var gaman að hitta Magga, rosalega langt síðan við sáumst síðast. Einhvern veginn vill það nú oft verða svo að maður missir af stráka-vinum sínum, bara af því að þeir eru strákar. Er þetta svona hjá fleirum eða bara mér?

miðvikudagur, desember 04, 2002

Meira stress...


Mikið óskaplega er erfitt að koma sér á fætur þessa dagana! Ég er syfjuð niður í tær.


Umsóknin mín til Uppsala klúðraðist e-ð, þ.e.a.s. hún fór aldrei á réttan stað. Á heimasíðu skólans eru menn hvattir til að leita beint til deildanna ef hugur er á framhaldsnámi þar og ég lét einn kennarann þar fá umsóknina persónulega, þar sem hann var staddur hér á landi. Svo kom í ljós að hana eigi að senda til Studentbyråen, auðvitað. Auk þess vildu þeir fá stimplað stúdentsskírteini og gera þær kröfur að ég hafi a.m.k. 6 í e-m norðurlandamálanna og 9 í íslensku. Það er nu reyndar ekki vandamál en það mætti halda að ég væri að sækja um framhaldsnám í íslensku!
Ég vona að þetta nái út í tæka tíð, eða að ég fai svar fljotlega. Þangað til reyti ég hár mitt!

Ef þetta blessast allt saman mun ég að öllum likindum fara út um miðjan janúar og ekki koma heim fyrr en í júní. Hmmm. Ég get þá kannski farið í heimsókn til Siggu Sifjar sem verður í Helsinki sömu önn.



Af ofangreindum ástæðum atti ég erindi nidur i bæ i MR siðastliðinn föstudag, til að sækja þýtt prófskirteini. I öllu stressinu tókst mér audvitad ad læsa lyklana inni i bilnum og þar sem eg hafdi skilid simann minn eftir a skrifbordinu i vinnunni (var viss um ad eg þyrfti ekkert a honum ad halda) vard eg ad notast vid peningasimann a ganginum nidri i gamla skolanum. Á medan eg beid eftir hjalp hitti eg m.a. Bjarna stærdfrædikennarann minn og Elias pabba Árdisar en hann er einmitt med mer i dansi a þriðjudögum. Og svo tók ég lika sérstaklega eftir þvi hvað nemendur þurftu mikið að tala í símann sinn í friminútunum. Á minum MR-skólaárum var þetta nú öðruvisi- menn töludu ekki i simann nema i brýnni nauðsyn. Gerfiþarfir?