þriðjudagur, desember 23, 2003

Nú er úti veður vont, verður allt að drullu - allt á fullu!


Hæ, hó.
Svartasta skammdegið. Rigning og rok. Mín beið hrina að vinna úr (Reykjaneshrygg) þegar ég kom í vinnuna í gærmorgun. Víííí. Búið að vera rólegt á vaktinni hingað til.


Er nú búin að skila af mér öllum jólabögglum sem ég kom með frá Uppsölum. Er annars sjálf á síðust stundu með allt. Ekki búin að skrifa á eitt einasta jólakort, á eftir að redda einni og hálftri jólagjöf og taka til og pakka og ég veit ekki hvað. Vildi að ég hefði meiri tíma. Í bjartsýniskasti í gærkvöldi ákvað ég að fara að föndra jólakort. Veit svo sem ekki hvenær ég ætlaði mér að ljúka við þau, í nótt kannski? Áttaði mig og keypti tvo pakka af miklu flottari kortum.


Hmm. Gleymdi að segja ykkur frá skemmtilegri bíóferð í Uppsölum. Ég fékk Jóhírisi með mér á Love Actually. Við vorum báðar ansi svangar og ákváðum að fara á McDonalds hinum megin götunnar, eftir að hafa keypt bíómiðann. Þar var löng röð, og við sáum ekki fram á að geta troðið í okkur kjúklingaborgurunum á nógu skömmum tíma þannig að við pökkuðum öllu niður í bakpokann minn og laumuðumst með matinn inn í bíóið. Þeir ætluðu aldrei að slökkva ljósin, og loksins þegar það var gert og ég fór að laumast í pokan angaði allt af matarlykt, lúffurnar mínar lika. Held að sessunautur Jóhírisar hafi verið hálf-hissa á þessu uppátæki (Sviar geta verið svo "ferkantaðir" og leiðinlegir), líklegra þó að hann hafi öfundað okkur af matnum. En myndin var fín og við komum með bros út að eyrum. Ég á eftir að horfa oftar á þessa mynd.


Mér finnst á lyktinni á ganginum að það verði skata í hádeginu. Ætli ég geti fengið saltfisk eða nætursaltað í staðinn?


Og að síðustu: Gleðileg jól!

föstudagur, desember 19, 2003

Jólahlaðborð, jólagjafir, jóla- jóla...


Ég held bara að jólahlaðborðið hafi tekist með miklum ágætum. A.m.k. var ekki annað að heyra á fólki. Við Stína og Mattías fórum í fyrradag í innkaupaferð, keyptum fullt af búsi og gosi og e-ð skraut líka. Það var nóg af öllu, mat og drykk, ég held menn hafi haldið veislu í dag líka, a.m.k. vorum við búin að fylla ísskápinn af afgöngum þegar við fórum í gærkvöldi. Enduðum sex saman á bar niðri í bæ. Prófuðum kokteilinn "Rauðu mylluna", og "snjóbolta" og komumst lika að því að fræga jafnan sem Einstein setti fram á sínum tíma er í raun uppskrift að drykk (já!), E=mc-í-öðru, og urðum auðvitað að prófa hann líka. Var ekki vitund eftir mig í dag og arkaði upp og niður Drottningargötuna í Stokkhólmi í leit að jólagjöfum. Varð e-ð ágengt. Alls ekki búin þó, held samt að allt pláss í ferðatöskunni sé löngu upp urið, svo ég klára þetta bara heima. Einn dagur eftir í afslöppun og svo er friðurinn úti.


Bis dann, boys!

mánudagur, desember 15, 2003

Uppsalir


Kæru lesendur!

Þá er ég komin aftur til Uppsala. Eftir langa og ferð (hleðslutöf, ísingartöf, Óslóarstopp) lenti ég loksins á Arlanda flugvelli um rúmum klukkutíma á eftir áætlun. Tók lestina til Stokkhólms og hitti þar Stínu, Pálma, Jón Loga og Álfrúnu, og Helga, sem býr í Stokkhólmi. Ég læsti töskurnar inni í skáp og við röltum um borgina fram á kvöld.

Í gær var Stína búin að skipuleggja piparkökubakstur. Gömlu skólafélagar mínir, Jóhíris, Björn og Cedric komu í baksturinn. E-r stakk upp á að gera hús og það varð úr. Mjög skrautlegt lítið hús með jólatrám, jólaketti, hundi englum og meira að segja brunni fyrir framan húsið. Um kvöldið fór ég svo með fjölskyldunni á Lúsíutónleika í dómkirkjunni, Álfrún söng með einum kórnum þar. Kirkjan var troðfull og við sátum til hliðar við kórinn og sáum því varla neitt. En söngurinn var fallegur.

Er nú í heimsókn í Geocentrum. Cedric er búinn að bjóða mér að koma á fyrirlestur sem hann ætlar að halda á fimmtudaginn og seinna um daginn er jólahlaðborð, sem Stína á að sjá um, og ég mun verða sérlegur aðstoðarmaður hennar.

Bis dann.

mánudagur, desember 08, 2003

Lifði af


Ég lifði fyrirlesturinn af. Enda var ekki fjölmennt, ekki einu sinni öll deildin. En hvað með það, hef nú oft verið stressaðri í meira að segja minni hóp. Var að klára að undirbúa mig fram á síðustu stundu en stressið hvarf á annarrri glæru. Var líka að vinna hér til að verða hálf-fimm í nótt. Tæknin var e-ð að stríða mér. Gat hvorki notað glærugerðarforritið á minni persólulegu tölvu (Power Point krassaði í hvert skipti sem ég opnaði skjal og ætlaði að eiga við það; Open Office á Linux fór í óskaplegan hægagang þegar ég bætti inn mynd nr.2) svo ég endaði inni á næstu skrifstofu í gærkvöld. Held reyndar að mér hafi næstum tekist að svæfa e-a en það skiptir nú minna máli. Er nú í svo góðu skapi að ég er að hugsa um að fara að panta mér tíma í klippingu. Hvernig væri það?
Held meira að segja að ég sé alveg til í að fara að skreyta fyrir jólin núna. Og baka smákökur. Ummm. Og pakka niður í tösku. Fer út eftir aðeins fjóran og hálfan sólarhring. Já, já, nóg að gera.


Á föstudagskvöld komst ég ekki lengra úr vinnunni en niður í kjallara. Þar hékk ég þar til ég var orðin banhungruð og ákvað að fara heim. Hópurinn leysitist upp og við hungruðustu enduðum hálf-tólf í hamborgaraveislu á Vitabarnum. Ég er nú ekki mikið fyrir borgara, finnst helst varið í þá þegar ég er mjög svöng. Samt endaði ég aftur í hamborgara á HardRock í gærkvöldi með tveimur samstarfskonum sem voru líka að þvælast hér í vinnunni á sunnudagskvöldi. Held ég sé þar með búin með hamborgarakvótann fyrir árið sem er að líða.

föstudagur, desember 05, 2003

Hallarbylting


Hér er í gangi hallarbylting. Verið að stokka upp allt skipulag. Áður en ég hætti á Orkustofnun var stokkað upp þar líka. Ég virðist elta uppi skipulagsbreitingar. En ég er ánægð á meðan ég fæ að vinna mína vinnu (á launum) áfram með mínu stórskemmtilega samstarfsfólki. Og laumast niðrí kjallara fimm á föstudögum til að heyra helstu slúðursögurnar sem eru í gangi.

Skammdegið er ansi svart núna í rigningunni. Ég er farin að hlakka til að fara til Uppsala í snjóinn og kuldann, a.m.k. til að hitta stuðfjölskyldu Stínu og Pálma og alla hina skólafélagana. Annars er ég ekkert farin að huga að jólaundirbúningi. Allt slíkt er nú eiginlega bannað þar til ég er búin að undirbúa fyrirlesturinn sem ég á að vera með á mánudag. Ég er kolómögulegur fyrirlesari (eins og Stína og Cedric ættu að vita eftir síðasta fyrirlestur í vor, þegar ég gat ekki staðið upp fyrir stressi og mundi ekki orð). Vona að sem fæstir mæti og að ég eigi ekki eftir að gera mig að algjöru fífli.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Íbúð til leigu


Ég auglýsi hér íbúð til leigu á fínasta stað á höfuðborgarsvæðinu. Þ.e. íbúðina sem ég er í nú. Íbúðin er Kópavogsmegin í Fossvogsdalnum, rétt við skógræktina. Örstutt á alla hjólastíga ;-). Ef þið fréttið af e-m sem er að leita, endilega látið hann/hana/þau hafa samband við mig (sigurlaugh@hotmail.com).

mánudagur, desember 01, 2003

Myndir


Slembibullbræður fundu myndir á netinu hér.




Af splatter í eldhúsinu, rokki og netprófi


Framhald af baunabuffsögu síðustu viku (spennandi spennandi!!!): þegar gestirnir komu í mat, Berglind og Evvi, var enn allt á fullu í eldhúsinu. Átti m.a. eftir að þykkja sósuna. Þar sem engin undanrenna var til í ísskápnum, og mér datt ekki hug að nota bara vatn, ákvað ég að taka smá lögg af óþynntri sósunni í hristiglasið með hveitinu. Hún var heit. Ég var ekki varla búin að taka eina sveiflu þegar mjög óvænt heyrðist PLÚFFFFF og það varð þvílík sprenging með tilheyrandi slettugangi yfir allt og alveg fram í stofu. Þetta atriði stóðst fyllilega samanburðinn við svæsnustu splattersenurnar í Kill-Bill, sem ég sá í síðasta mánuði, nema hér slettist karrígul kókossósa. (Aldrei hefði ég getað ímyndað mér að gufuþrýstingurinn yrði svona mikill svona fljótt. )


Á föstudag var ég tekin inn í MOBS (Bjórvinafélag Veðurstofunnar). Ég hlaut þann heiður að vera fimmtugasti félaginn með tilheyrandi glaðningi. Síðan fékk ég að vera samferða Hjörleifi og tveimur vinum hans (allt Hafnfirðingar, nema hvað) á tónleikana, enda hafði ég gert árangurslausar tilraunir til að fá vinkonur mínar með mér. Mér fannst nú Brain Police skemmtilegri en Sub Dub M. og hefði keypt hjá þeim áritaðan disk, hefði ég átt e-n aur. Ég var meira að segja svo sparsöm að ég ákvað að ganga heim enda var veðrið fallegt og stjörnubjart.


Nú er enn einu sinni kominn mánudagur. Rakst á þetta netpróf hjá Siggu Sif. (Heyriði, eruð þið ekki til í að láta þetta berast til réttra aðila?)


You're Perfect ^^
-Perfect- You're the perfect girlfriend. Which
means you're rare or that you cheated :P You're
the kind of chick that can hang out with your
boyfriend's friends and be silly. You don't
care about presents or about going to fancy
placed. Hell, just hang out. You're just happy
being around your boyfriend.


What Kind of Girlfriend Are You?
brought to you by Quizilla