sunnudagur, janúar 18, 2004

Bjór, hamborgari, bjór, skíði, fusion...


Já, ofangreind fyrirsögn lýsir helginni í stuttu máli. Endaði niðri í kjallara eftir ágætis dagsverk á föstudaginn. Fékk mér einn írskan og endaði svo með þremur samstarfsmönnum í hamborgara á Kringlukránni um hálf-tíu. Stefnan hafði reyndar verið tekin á Hard Rock, en þar var vonlaust að fá borð vegna þess að þeir voru með stórt tjald og sýndu Idol í beinni. Ég missti því af úrslitunum. Ók svo heim í blindbyl og sá ekki bofs á köflum. Spennandi, samt. Nú, nú, laugardagurinn? Út að moka frá bílnum. Þvo þvott og annað jafn skemmtilegt. Þar til ég fór á hátíðarfund MOBS í Skólabæ. Fundurinn var rólegur. Ég fór heim fyrir miðnætti og beint í rúmið, enda ætlaði ég mér á skíði í dag. Í Bláfjöllum var lokað. Endaði því í skógarskíðagöngu í Heiðmörk. Þar var frekar margt um manninn. Eldaði svo "fusion"-mat þegar ég kom heim. Saknaði mömmu litlu. Ég ein heima með fullt af mat. Hún sennilega ein líka úti í Kantaraborg, kannski líka með fullt af mat. Óskaði þess að ég væri "norn" (þið vitið, eins og í sögunum um Harry Potter) og gæti bara birst si svona inni í stofu hjá mutti með kjúklinginn og kúskúsið og spínatið og hitt. Já, það væri nú sniðugt...

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Stress, stress og meira stress


Ohhhh, ég er orðin frekar stressuð. Þarf að kynna niðurstöður/stöðu verkefnisins á fundi í lok mánaðarins, tala á ensku yfir vísindamönnum héðan og þaðan. Tvær ráðstefnur í apríl og kannski út í haust líka. Og á að vera búin með mest alla vinnuna og skila af mér niðurstöðum í sumar. Og þarf aldeilis að fara að herða róðurinn. Sj...!!! Af hverju í ósköpunum valdi ég mér starf þar sem ég þarf sífellt að vera að koma mér á framfæri og ota mér áfram? Ég er heimsins versti fyrirlesari og verð bara gríðarlega stressuð ef ég þarf að segja tíst fyrir framan hóp manns og ég veit ekki hvað. Lélegur nemandi og vísindamaður og langar bara að pakka saman núna og hætta við allt saman áður en ég geri mig að algeru fífli :-(

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Ný íþrótt


Vindurinn gnauðaði við gluggann. Vaknaði í nótt og varð að loka til að fá svefnfrið. Klukkan hringdi allt of snemma. Mig langaði ekki á fætur. Kúrði aðeins lengur. Þegar mér tókst loksins að druslast á lappir drollaði ég og drollaði því mig langaði ekkert út í kuldann og í vinnuna. Allt eitthvað svo erfitt og óyfirstíganlegt. En... ég ætla nú að hressa mig við í dag og gera nokkuð sem ég hefi ætlað mér í mörg ár: að prófa skylmingar. Sé svo til hvort ég taki þetta fram yfir dansinn (ég tími nú varla að sleppa honum, þrátt fyrir misglæsileg tilþrif).

mánudagur, janúar 12, 2004

Skíðahelgi


Hó, hó. Smá tíst eftir langt hlé.
Annan í nýári skrifaði ég langa færslu um flutinga og áramótagleði en tókst klaufalega að tapa henni. Líklega var ég utan við mig sökum þreytu og svefnleysis. Já, ég fékk sum sé jólakvefpestina á annan í jólum, mætti í vinnuna um jólin og helgina á eftir, flutti út úr íbúðinni og þreif á gamlársdag og dansaði með Gerðu Björk og vinkonu hennar í Iðnó til sex á nýársnótt. Nei, í minni fjölskyldu láta menn ekki stíflað nef og smá slappleika hafa af sér svona skemmtun. Það var stórgaman, hitti líka hina og þessa sem ég hef ekki séð lengi, m.a. hana Rósu, bekkjarsystur mína úr MR, nokkta bekkjarbræður og núverandi og fyrrverandi vinnufélaga.
3. janúar hittist saumaklúbburinn svo hjá Arnþrúði í Hafnarfirðinum og raðaði í sig sex rétta máltíð með erfiðismunum.






Síðan voru skemmtistaðirnir í Rvk kannaðir. Enduðum á Sólon. Ég gafst upp rúmlega fjögur og ók heim. Held það sé bara ágætt að ég fari svona sjaldan á næturrölt. Tvær ferðir fram á morgun með þriggja daga millibili voru eiginlega of mikið. Ég á nefnilga ægilega erfitt með að sofa lengi út og finnst synd að missa af bjartasta tíma dagsins. Þarf því svolítið lengri tíma á milli til að ná úr mér þreytunni.


Um helgina dreif ég mig á skíði. Á laugardag bauð ég pabba með mér upp í Bljáfjöll. Pabbi hefur ekki stigið á skíðin sín í, ja, 12-13 ár. Ég stakk hann af uppi á Heiðinni háu. Sagðist ætla smá útúrdúr. Þegar Þangað var komið sá ég að lengri brautin lá þar upp að svo ég ákvað að fylgja bara henni, ætlaði svo að ná pabba þar sem brautirnar liggja aftur saman. Kom að bílnum og beið líklega í klukkutíma. Var orðin ansi hrædd, enda komið él, og var viss um að hann væri að leita að týndri dóttur uppi á heiðinni. Var búin að spyrja hina og þessa hvort þeir hefðu séð pa. Spennti loks aftur á mig skíðin og lagði af stað í björgunarleiðangur. Ég var ekki komin langt frá bílnum þegar pabbi birtist. Hann hafði þá líklega valið stærri hringinn og var örmagna, hafði ekki einu sinni rænu á að skipta um skó, ganga frá skíðunum eða vera reiður. Og ég lofaði að passa betur upp á hann næst!!!


Í gær ákvað ég svo að fara með Ferðafélaginu, í von um að komast e-ð lengra. En menn töldu ólíklegt að nægur snjór væri uppi á Hellisheiði eða í Henglinum svo ákveðið var að fara upp í Bláfjöll. Við tókum þar e-a útúrdúra svo þetta varð bara ágætisferð. Er svolítið lúin og löt í dag, með smá harðsperrur í rassinum, enda langt síðan ég steig á skíðin síðast. Stefni á að koma mér í fínt skíðaform svo ég geti farið í almennilega páskafer í ár. Er strax farin að hlakka til!!!