þriðjudagur, apríl 17, 2007

5 cm stærri


Og enn flýgur tíminn áfram. Litli minn dafnar vel. Við mættum í 6 vikna skoðun í síðustu viku og var hann þá orðinn rétt tæpum 5 cm stærri en þegar hann fæddist, eða tæpir 57 cm. Mér finnst hann hafa rifnað út. Hann kann lík að brosa núna og þykir ógurlega gaman að láta tala við sig og brosa til sín. Þá sýnir hann sínar bestu hliðar. Tvö ný hljóð bættust líka við í vikunni: upphrópun á innsoginu og ghaaa. Honum finnst líka nauðsynlegt að fá að skoða heiminn uppréttur öðru hverju og æfa að halda haus. Þessi haus er bara svo þungur fyrir lítinn háls! Og hann stækkar stöðugt!

Stóllinn er líka ágætur:


Mamman þurfti að bregða sér frá niður í þvottahús um helgina. Unginn var vakandi og því bara tekinn með niður í stólnum. Það getur bara verið svo ansi kalt þarna niðri að mömmunni fannst vissara að dubba drenginn upp í ullarpeysu og sokka, enn svolítið stóra:


Núnú. Sveinninn ungi hefur nú loks verið skírður. Og gengur nú undir nafninu Hjalti Böðvarsson. Ég hafði samband við prest til að skíra snáðann í Hafnarfjarðarkirkju á laugardaginn var. Fengum svo tölvupóst frá honum snemma á föstudagsmorgni um að hann forfallaðist og hvort ekki væri í lagi að prestar úr Grafarvogskirkju tækju verkið að sér. Nema hvað ég las öngvan póst þann daginn. Það var ekki fyrr en um nóttina að Böðvar sá skeytið og svaraði. Við vorum mætt tímanlega daginn eftir. Og komum að öllum dyrum læstum. Einu dyrnar sem hægt var að opna voru að sorpgeymslu Guðshússins. Svo við biðum. Þar kom að að sóknarpresturinn, sem var við vinnu þennan dag sá okkur og lauk upp fyrir okkur. Svo fór gestina að drífa að. en prestur sem átti að skíra lét ekki sjá sig. Sóknarpresturinn bauðst þá til að taka að sér að skíra svo allt fór þetta vel að lokum. Með smá seinkun þó. Hjalta litla létt sér fátt um finnast. Hann svaf þetta allt af sér. Meira að segja þegar vatninu var ausið...