sunnudagur, apríl 27, 2003

Drulluveður


Já, í dag er drulluveður. Það er drullukalt og slyddudrulla. Ojjjj. Og ekki mikið meira um það að segja!

Í gærmorgun leigðu Kristín og Pálmi bíl og buðu mér með til Gävle. Niklas, skrifstofufélagi minn er einmitt frá þeim bæ. Aðalmarkmiðið var að skoða járnbrautarsafn Svíþjóðar, Jón Logi hefur nefnilega svo gaman af lestum (og Pálmi líka). Safnið var áhugavert, sérstaklega fyrir Íslending sem sjaldan sér lestir. Svo ókum við niður í miðbæ til að kíkja aðeins á staðinn og fá okkur í gogginn. Á heimleiðinni var farinn smá útsýnisrúntur. Kíktum á sænska baðströnd og risavaxna furu. Það er nefnilega fullt af furu í Svíþjóð, en allar eru þær óttalega mjóslegnar og langar. Þessi var hins vegar gild og fallega vaxinn. Öldungurinn í skóginum.

Í dag er ég að reyna að vinna svolítið. Ætli ég reyni ekki að hanga hér aðeins lengur, enda ekki neitt sérstakt að gera heima í þessu veðri, því ég lauk helgarþrifunum í morgun.

fimmtudagur, apríl 24, 2003

Gleðilegt sumar


Jæja, þá er sumarið komið heima á Íslandi. En ekki hér. Fyrsti dagur vors er hins vega á Valborgarmessu, 30.apríl. Þá verður mikið húllumhæ.

Prófið ógurlega var á þriðjudaginn var. Ég ætlaði sko að taka þetta með trompi, en það fór nú svolítið öðruvísi. Ég er þó alveg "seif".
Nú er bara rúmur mánuður í næsta próf, sem verður munnlegt. Það er gott. Þá hef ég eitthvað til að hlakka til. Eða þannig!!!

sunnudagur, apríl 20, 2003

Gleðilega páska


Ég vaknaði snemma í morgun við dynk. Eftir smá stund áttaði ég mig á því að lampinn hafði dottið á skrifborðið. Ég ákvað að drífa mig á fætur. Í stað þess að fara í morgunmessu, eins og venjan er á páskadagsmorgni, átti ég andaktuga stund með Nick Cave (No more shall we part) og elastískum bylgjujöfnum. Ég átti heldur ekkert páskaegg. Kalla hugkvæmdist ekki að færa mér eitt slíkt þegar hann kom í heimsókn um daginn. Ekkert súkkulaði og enginn málsháttur. En ég get svo sem getið mér til um hvaða málshátt ég hefði fengið:


Margur verður af lestri leiður

eða


Margur verður af lestri lærður.

eða eitthvað í þá áttina. Í kvöld fer ég svo í mat til Kristínar og Pálma. Annars er ansi tómlegt hér á ganginum núna. Allir Svíarnir heima í foreldrahúsum um páskana, og bara við skiptinemarnir eftir.

laugardagur, apríl 19, 2003

Sól úti, próflestur inni. Ég hef nú átt skemmtilegra páskafrí!!!

Helst vildi ég vera í góða veðrinu heima uppi á fjöllum á gönguskíðum eða í heimsókn í Ulvik, Helsinki/Turku eða Árósum (er svo heppin að eiga vini á öllum þessum stöðum). En ferðalög og skemmtan verða að bíða betri tíma.

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Hjól


Í dag var þetta fína veður. Fínasta veður. Hlýtt og gott. Svo gott að mér var vel hlýtt þótt ég gengi/hjólaði um á ermalausum bol. Svíarnir, hins vegar voru enn í úlpum og með húfu/vettlinga. A.m.k. sumir þeirra. Uhh, er ekki allt í lagi með þá?

Ég fór í dag að kíkja á hjól sem ég hafði séð í fyrradag. Og endaði með því að kaupa það. Það er frekar nýlegt, en ekki með neinum gírum. En það er svo sem allt í lagi þessa tvo mánuði sem ég verð hér í viðbót. Það er allt önnur hjólamenningin hérna en heima. Heima léti varla nokkur maður sjá sig á gömlu görmunum sem mikill meirihluti fólks hérna er á. Ég get svarið það, sum þeirra líta út fyrir að vera hálfrar aldar gömul, algerir forngripir, en í ágætisstandi. Og þá auðvitað í góðu lagi að nota þau. Allir heima (langflestir) eiga fjallahjól (enda fæst varla annað nú orðið). Jafnvel þótt menn noti þau ekki nema endrum og sinnum að sumarlagi. Það léti varla nokkur maður sjá sig á gamalli, skröltandi druslu. Andrúmsloftið er afslappaðra hér.

Svipaða sögu hef ég að segja af því þegar ég fór í matvörubúðina einn laugardaginn úti í Gottsunda. Þetta var svona stór bónusbúð. Nema hvað það voru engar kerrur við búðina. Ég held þær hafi verið úti (samt er búðin inni í verslunarmiðstöð) og þar að auki læstar saman. Jæja, hvað með það. Ég tók bara tvær handkörfur og rogaðist um með þær. Þá tók ég eftir því að sumir voru mættir með gamla barnavagna eða kerrur og keyrðu körfunum um í þeim (og líklega matnum alla leið heim). Þetta fannst mér fyndið, en samt nokkuð sniðugt. Ég meina, af hverju að vera að rogast með poka ef til er auðveldari leið. En almáttugur, ekki myndi nokkur maður láta sjá sig með svona í Bónus heima, hvað þá Hagkaupum eða annars staðar. Uhh, alla vega ekki ég! -Og helst ekki á mikið skröltandi hjóli heldur. Mjög pínlegt.

Íslenskt neyslusamfélag er líka orðið meira "ameríkaniserað" heldur en hér. Hér eru stóru gosdrykkjaflöskurnar ekki 2l heldur 1,5l, eins og þær voru heima fyrir möööörgum árum. Auk þess er miklu meira um gömlu glerflöskurnar heldur en 1/2 lítra plastflöskur. Og ég held ég hafi bara ekki séð gosdrykk í 1/2 lítra dós. (Bara áfengu "gos-drykkina".) Það er langt síðan ég hef notað upptakara heima, enda drekk ég ekki bjór.

þriðjudagur, apríl 15, 2003

Reikningar


Í morgun tók ég strætó niður í bæ því ég þurfti að borga húsaleiguna fyrir aprílmánuð. Ég fór inn í næsta hús sem ég sá og á stóð bank. En þar var ekki hægt að borga reikninga, ég held það hafi ekki einu sinni verið banki. Þá fór ég í næsta banka sem ég mundi eftir að hafa séð. Það var dágóð bið en ég tók mér númer. Meðan ég beið sá ég að ég þyrfti að borga 50 kr fyrir að borga gíróseðilinn. Uhh, ég hélt nú ekki að ég færi að borga 500kall fyrir að fá að borga meira. Ég vatt mér því út og ákvað að að reyna að finna "ódýrari stað" til að borga reikninginn á. En fyrst keypti ég afmælisgjöf til að senda heim (allt of seint reyndar) og umslag og kort, arkaði ég enn af stað. Sniðugast væri að senda pakkann og borga gíróinn á sama stað, ekki satt? Á pósthúsinu. Það er hægt heima. En eftir að hafa spurst fyrir komst ég að því að þetta var ekki hægt. Það er nefnilega búið að leggja niður pósthúsin hérna og póstþjónustan er hér og þar í matvörubúðum og sjoppum. Pakkinn komst því sína leið í póstkassa við sjoppu og reikningurinn var borgaður rétt hjá, fyrir 35 kr. Þar með spöruðust 15 kr sem ég eyddi í gos og kanelbulle þegar ég kom, loksins, sársvöng í skólann.

mánudagur, apríl 14, 2003

Túristadagar


Á meðan Karl var hér í heimsókn reyndum við að skoða okkur aðeins um hér. En því miður of lítið, þar sem veðrið var hryssingslegt og ekki viðraði vel til ferðalaga.

Á þriðjudaginn, fyrir viku, tókum við lestina til Stokkhólms. Við röltum um og kíktum inn á tvö söfn. Eða reyndar bara eitt almennilega. Fyrra safnið var National Museet. Við héldum að það væri þjóðminjasafn Svía. Við byrjuðum á að fá okkur fisk á veitingastaðnum í miðju húsinu. Kíktum svo á safnbúðina og komumst að því að þetta væri þeirra listasafn. Við vorum ekki alveg í stuði til að fara að skoða málverk svo við fórum aftur út í kuldann. Héldum áfram í átt að Vasasafninu, sem er úti á einni eynni. Þar er að finna hið stórmerkilega Vasa-skið sem sökk árið 1628 í jómfrúarferð sinni á leið út frá Stokkhólmi. Síðar gleymdu menn hvar það hafði sokkið en fyrir rúmri hálfri öld síðan tókst skipa-fornleifafræðingnum Anders Franzén að finna það og var það dregið upp, 333 árum eftir að það sökk. Skipið hafði grafist í þétta leðju og auk þess er vatnið þarna alls ekki jafn salt og sjór er annars staðar. Skipið var því óhult gegn orminum sem leikur við annars illa í sjó (sbr. holóttan rekavið) því hann þrífst ekki á þessum slóðum. Mönnum tókst því að ná skipinu upp úr ótrúlega heillegu og er nú búið að smíða sér safnhús utan um það við sjóinn. Ég mæli eindregið með þessu safni, ef þið eruð á ferð á þessum slóðum. Skipið er ótrúlega fallegt og svo hefur þeim tekist að setja upp skemmtilega sýningu í kringum það með vel gerðum líkönum og skemmilegum fróðleik. Þegar farið er inn í safnið (og út aftur) er gengið í gegnum fernar dyr. Inni er dimmt og rakt til að halda kjörskilyrðum fyrir skipið. Þetta var eins og að stíga inn í e-t ævintýri, mér datt strax í hug Svartskeggur sjóræningi, sem ég las oft þegar ég var yngri.

Eftir safnheimsóknina gengum við um Gamla Stan, eða gömlu borgina. Þetta er elsti hluti bæjarins og var helsti byggðarkjarninn á miðöldum. Stokkhólmur byggðist upp á þeim þröskuldi sem varð til á miðöldum milli Eystrasalts og Mälaren við landlyftinguna. Staðurinn varð hernaðarlega mikilvægur, þar var hægt að loka/stjórna skipaferðum inn í landið, inn á Mälaren. Birgir jarl lét reisa tvo virkisturna, annan við Norðurstraum, hinn við Suðurstraum. Á milli turnanna tveggja voru reistir tveir múrar/veggir, og á milli þeirra lá borgin. Húsin í Gamla Stan eru flest frá uppgangstímunum 1600-1700, þegar Svíþjóð var að verða stórveldi.

sunnudagur, apríl 13, 2003

Langt er síðan síðast


Jæja, þá er ég ein aftur. Kalli kominn og farinn aftur. Ég fór út á brautarstöð með honum í morgun. Þegar lestin var farin heltist einmanakenndin yfir mig. Veðrið var nokkuð gott svo ég ákvað að dóla mér aðeins um í bænum, enda stutt í að búðirnar opnuðu (kl.12). Ég keypti mér sænska túristabók á niðursettu verði og sænska tónlist í plötubúðinni við hliðina á á aðeins 99-kall. Fyrir valinu varð The Hives, Your New Favourite Band. Þegar ég kom heim aftur var diskurinn settur í og svo var dansað og sópað og þurrkað af af miklum krafti, enda tónlistinn fjörug. Þar næst ákvað ég að reyna að koma á tengingunni hér heima, það er nefnilega breiðband hér í hverju herbergi. Það tókst eftir dágóðan tíma. Þetta er lúksus, nú get ég verið duglegri að skrifa...


Ég flutti hingað á stúdentagarðana á fimmtudaginn fyrir rúmri viku síðan. Herbergið er ágætt, með stóru og góðu skrifborði og breiðbandi. Fyrst er gengið inn í pínkuponsu forstofu, þar er snagi fyrir yfirhafnir og hattahilla og fataskápur. Þaðan er svo gengið bæði inn í herbergið, og lítið baðherbergi. Glugginn hjá mér veit í vestur, svo sólin er hjá mér seinnipartinn. Ég er búin að fá minn skáp í eldhúsinu, hillu í ískápnum og frystiskápnum. Hins vegar hafði sú, sem var hér á undan mér, rokið burt í flýti, að því er virðist. A.m.k. þurfti ég að byrja á því að þrífa herbergið og skúra, hún hafði heldur ekki hreinsað út úr skápunum sínum í eldhúsinu. Seinna fékk ég svo að vita að hún hefði orðið fyrir bíl á hjólinu sínu og þurft að eyða nokkrum vikum á sjúkrahúsi. Það er kannski þess vegna sem hún fékk svona mikla heimþrá... Ég er búin að kynnast nokkrum hérna á ganginum, af þeim 11 sem eru hér fyrir utan mig. Hér er sjónvarp, með nokkrum aukastöðvum, sem allir leigja saman og borga áskrift af. Eldhúsið er svona svona, soldið skítugt gólfið og mikið ryk hér og þar fyrir minn smekk, en kannski bara eðlilegt þegar 12 manns ganga þar um. Ég ætla að laumast til að þurrka af borðljósinu næst þega enginn sér til, þótt mín umsjónarvika sé ekki fyrr en eftir 5 vikur. Ekki gaman að rykið stráist yfir matinn þegar gluggin er opnaður...

Framhald síðar...

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Klaufi, klaufi, klaufi


Vvííííí. Nú er ég ofsakát. Ástæðan? Jú, eftir að hafa setið og setið og setið yfir helv.... forritinu og starað og starað og starað sá ég loksins hvað var að. Ein pínulítil innsláttarvilla, cos(theta)=r/z í stað z/r eins og það átti að vera, augljóslega (r langhliðin). Mér datt auðvitað aldrei að kíkja á það sem var einfalt og augljóst (fyrr en núna rétt áðan). Núna get ég því farið að skila síðasta verkefninu og farið að hafa áhyggjur af prófinu. Gaman gaman!!!

1.apríl var í gær. Ég vil því nota tækifærið og óska frænku minni, Önnu Betu, til hamingju með afmælið í gær. Ég efast þó um að hún lesi þetta, en aldrei að vita.

Í gær fór ég og kíkti á herbergið, sem ég ætla að flytja í á næstunni. Það eru 12 manns á ganginum, en ekki sex eins og ég hélt, sem deila eldhúsinu og pínulitlu setustofunni á ganginum. Þar er sjónvarp, ég vona að ég geti talið fólk á að horfa á réttar stöðvar á mánudags og þriðjudagskvöldum! Annars er herbergið á 6.hæð, en það er auðvitað lyfta. Ég varð svolítið skelkuð þegar ég opnaði gluggann og kíkti niður, það var ansi langt niður, eins gott að vera ekkert að teygja sig of langt út um gluggann...