Langt er síðan síðast
Jæja, þá er ég ein aftur. Kalli kominn og farinn aftur. Ég fór út á brautarstöð með honum í morgun. Þegar lestin var farin heltist einmanakenndin yfir mig. Veðrið var nokkuð gott svo ég ákvað að dóla mér aðeins um í bænum, enda stutt í að búðirnar opnuðu (kl.12). Ég keypti mér sænska túristabók á niðursettu verði og sænska tónlist í plötubúðinni við hliðina á á aðeins 99-kall. Fyrir valinu varð The Hives, Your New Favourite Band. Þegar ég kom heim aftur var diskurinn settur í og svo var dansað og sópað og þurrkað af af miklum krafti, enda tónlistinn fjörug. Þar næst ákvað ég að reyna að koma á tengingunni hér heima, það er nefnilega breiðband hér í hverju herbergi. Það tókst eftir dágóðan tíma. Þetta er lúksus, nú get ég verið duglegri að skrifa...
Ég flutti hingað á stúdentagarðana á fimmtudaginn fyrir rúmri viku síðan. Herbergið er ágætt, með stóru og góðu skrifborði og breiðbandi. Fyrst er gengið inn í pínkuponsu forstofu, þar er snagi fyrir yfirhafnir og hattahilla og fataskápur. Þaðan er svo gengið bæði inn í herbergið, og lítið baðherbergi. Glugginn hjá mér veit í vestur, svo sólin er hjá mér seinnipartinn. Ég er búin að fá minn skáp í eldhúsinu, hillu í ískápnum og frystiskápnum. Hins vegar hafði sú, sem var hér á undan mér, rokið burt í flýti, að því er virðist. A.m.k. þurfti ég að byrja á því að þrífa herbergið og skúra, hún hafði heldur ekki hreinsað út úr skápunum sínum í eldhúsinu. Seinna fékk ég svo að vita að hún hefði orðið fyrir bíl á hjólinu sínu og þurft að eyða nokkrum vikum á sjúkrahúsi. Það er kannski þess vegna sem hún fékk svona mikla heimþrá... Ég er búin að kynnast nokkrum hérna á ganginum, af þeim 11 sem eru hér fyrir utan mig. Hér er sjónvarp, með nokkrum aukastöðvum, sem allir leigja saman og borga áskrift af. Eldhúsið er svona svona, soldið skítugt gólfið og mikið ryk hér og þar fyrir minn smekk, en kannski bara eðlilegt þegar 12 manns ganga þar um. Ég ætla að laumast til að þurrka af borðljósinu næst þega enginn sér til, þótt mín umsjónarvika sé ekki fyrr en eftir 5 vikur. Ekki gaman að rykið stráist yfir matinn þegar gluggin er opnaður...
Framhald síðar...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli