mánudagur, október 30, 2006

Samviskubit


JGE spurði mig í hádeginu hvernig gengi með listana sem eftir á að setja á eftir parketlögnina. Ég er náttúrulega ekki búin að gera neitt í þeim málum. Og fékk ógurlegt samviskubit er ég var spurð. Dæmalaus leti er þetta!
Mér er ekki við bjargandi...

Prófið um daginn gekk annars vel. Mér gengur hins vegar ekki jafn vel að koma mér í skrifham. Ohh, vildi að þetta væri jafn auðvelt og í vi: i í ritham, Esc úr ritham...

Asskoti getur brjóssviði annars verið hvimleiður kvilli! Sér í lagi þegar hann plagar daglega...

Laumufarþeginn virðist stækka. Og æfir samviskusamlega sprikl og kollhnísa. Kviðurinn gengur stundum í bylgjum. Og mér finnst ég vera að springa!

miðvikudagur, október 18, 2006

Próflestur, eina ferðina enn


Sit við, alltof sein að vanda. Fyrirlesturinn fyrir morgundaginn er þó langt kominn.
Ótrúlegt hvað ég er orðin kærulaus varðandi allan undirbúning. Ég gerði ekki rassgat síðustu helgi; samt er ég að fara í síðasta prófið mitt að sinni. Á sama tíma á morgun verð ég búin. Og get kannski haldið haus. Og kannski ekki. Verð ábyggilega líka búin að eignast meira garn. Svona til að halda upp á. Hvers vegna ekki? Sumir nota hvert tækifæri...

föstudagur, október 13, 2006

Sagan er ekki öll


Sagan af Kaupmannahöfn er ekki alveg öll. Hverfum aftur á flugvöllinn...

Upphaflega ætluðum við fimm saman í ferðina. En sökum anna í vinnu höfðu tvær frestað brottför. Kata ætlaði með eftirmiðdagsfluginu, þennan sama dag. Það stefndi því allt í það að hún færi í loftið á svipuðum tíma og við. En fluginu hennar var líka seinkað, um 1-1 og hálfan tíma. Þá var farið í það að reyna að koma henni í flugið okkar, svo við gætum allar orðið samferða. Það er nú eiginlega skemmtilegra. Svona í hópferð. En allt kom fyrir ekki og starfsmenn flugvallarins sögðu aðra farþega sem áttu pantað tengiflug hafa forgang. Við bitum í það súra epli að skilja við Kötu við útganginn í vélina. Fengum okkur sæti. Og biðum svo. Í dágóðan tíma í þvílíkri mollu inni í vélinni. Hver birtist svo allt í einu á gangi vélarinnar? Kata. Hún hafði talað sig inn í vélina, enda voru enn fjögur sæti laus. Farangurinn hennar var hins veger ekki með, kom með næstu vél. Og hún átti að fá hann daginn eftir. Svo varð hins vegar ekki. Hann kom ekki í hús fyrr en með Berglindi á hádegi á laugardag. Svo allt fór þetta vel að lokum;-)

Ég eyddi sunnudeginum ein á menningarlegum nótum: Fékk mér tesopa og alveg óskaplega góða efteraarskage í elsta konditori í Kaupmannahöfn, La Glace í Skoubostræde 3 (sem Árdís hafði einmitt mælt með; kærar þakkir, Árdís). Svo skundaði ég til baka á Thorvaldsenssafnið, að þessu sinni markvert til að skoða húsakynni safnsins og þá einkum gólfmynstrin. Ég þurfti á smá hressingu að halda eftir safnið, settist inn á kaffihús með appelsínusafa og alveg óskaplega óspennandi ,,brownie''. Skundaði svo aftur niður í bæ og eyddi þeim tíma sem ég átti eftir á erótíska safninu í Köbmagergade. Athyglisvert, en ég verð þó að segja að ég hafði meira gaman af fyrri hluta safnsins.

Við komumst svo áfalla- og tafarlaust alla leið heim til Íslands, allar fimm í sömu vél. Synd að ég skyldi ekki eiga hópmynd til að setja hér inn... Ég fékk annars þær sorgarfréttir í gær að stafræna Sony-myndavélin mín er ónýt. Hún var dæmd úr leik med-det-samme á rafeindaverkstæðinu. Myndflagan ónýt; hún er frekar flókin rafeindatæknilega séð og það tekur því víst ekki að skipta um. Assssskotans. Þriggja ára ending er fremur lélegt, verð ég nú að segja. Litla greyið dettur í fyrra horf af og til, en mjög óvænt og æ sjaldnar. Meðfylgjandi er svo ein artífartí mynd sem átti að verða voða flott:

Hva, sjáiði ekki hver þetta er? Ég, kanallinn og Thorvaldsenssafnið í baksýn. Þessi er hins vegar nokkurn veginn í fókus:

Lítið kríli sem sneri sér lengi vel undan á miðvikudaginn var og vildi lítt sýna sínar betri hliðar. Eftir pot ljósmóðurinnar ákvað það þó að líta aðeins við, til að fá svo e-n svefnfrið. Allt virtist annars vera í stakasta lagi:-) og ég sveif um á dúnmjúku, bleiku skýi það sem eftir lifði dags...

miðvikudagur, október 11, 2006

Biðin langa


Ég lá í greinalestri fram á miðvikudag í síðustu viku, og náði að klára síðasta greinaskammtinn áður en ég hélt í vinkvennaferð SNEMMA á fimmtudagsmorgni. Saumaklúbburinn hafði sum sé skipulagt þrítugsafmælisferð til Köben síðastliðið vor og nú var loksins komið að því. Við höfðum verið svo heppnar að fá leigða íbúð í einni af elstu götum bæjarins til þriggja nátta, í Magstræde. Magstræde liggur rétt við einn kanalinn, einmitt þann sem Thorvaldsenssafnið stendur við. Ég var harla kát er ég uppgötvaði það. Þar að auki uppgötvaði ég líka að í tveggja mínutna göngufæri var garnverslun, Sommerfuglen, sem ég eyddi dágóðum tíma í. Ferðalagið varð þó öðruvísi en vonast var til...

Ég vaknaði rétt upp úr fjögur aðfararnótt fimmtudags. Ég hafði vakað yfir lestri fram á nótt í vikunni og var því ekkert voðalega vel upplögð, en átti þó ekki í miklum vandræðum með að drösla mér fram úr. Ég ætlaði nefnilega ekki að missa af rútunni, þeirri fyrstu sem fór þá nóttina, því ég var búin að mæla mér mót við tvær vinkvenna minna í henni. Ég kom í tæka tíð og sat ein, prjónandi í myrkrinu þar til við komum í Hafnarfjörð þar sem Arnþrúður og Ella biðu. Eins og vera ber kíktum við í Fríhöfnina og skoðuðum okkur um í öðrum búðum. Ég hélt hins vegar að mér höndum, ætlaði nefnilega að vera ógurlega sparsöm í þessari ferð. Ég endaði því með að kaupa e-ð smotterí handa Böðvari og útskriftargjöf handa vinkonu; ekkert handa sjálfri mér. Eftir að hafa náð mér í skyr og banana, bland i poka og setið og prjónað var tími til kominn til að fara út í vél. Landgangur nr. 2. Engin röð. Enginn starfsmaður við hliðir. Ellu minnti ekki betur en að vélin hafi verið ,,on time'' þegar við skráðum okkur inn niðri. Furðulegt. Okkur varð litið á skjáinn: Delayed. Ohh, gaman. Við settumst niður, ég fór aftur að prjóna. Eftir smá stund gall við rödd í hátalarakerfinu: ,,Okkur þykir leitt að tilkynna seinkun á flugi...'' Næstu upplýsingar klukkan tíu. Ég tek það fram að upphaflega átti að fljúga kl 07:15. En það er skemmst frá því að segja að við stöllurnar þrjár eyddum öllum deginum á flugvellinum. Allt þar til við stigum út í vél um 15:30. Til þess eins að bíðan nærri klukkustund í viku þar úti. Níu tíma seinkun og heill dagur af fjögurra daga ferðalagi farinn til einskis. Bömmer. Þeir sem mig þekkja vita þó að ég hef ekki getað setið iðjulaus allan þennan tíma. Sem betur fer hafði ég vaðið fyrir neðan mig og var með hin ýmsu handavinnuverkefni til reiðu. Ég náði að klára smekk sem ég var byrjuð á, tók þar næst til við þvottastykki, sem ég náði að ljúka við líka. Þar næst notaði ég afganginn af garninu til að byrja á öðru með nýju mynstri sem mig langaði til að prófa. Í vélinni byrjaði ég svo á handstúkum með perlum. Ég get því ekki neitað því að dagurinn hafi verið ,,pródúktífur''...

Annars er ég voða spennt núna. Á pantað í sónarskoðun upp úr hádegi. Ætli ég fái að sjá hvors kyns laumufarþeginn er? Annars er voða mikið líf og fjör oft niðri í koti hans, mikil spörk og læti, sér í lagi þegar ég leggst út af á kvöldin. Ég get legið stundum saman og fylgst með poti hér og þar á mallanum. Alveg einstaklega furðuleg upplifun. Engu öðru líkt...