föstudagur, október 13, 2006

Sagan er ekki öll


Sagan af Kaupmannahöfn er ekki alveg öll. Hverfum aftur á flugvöllinn...

Upphaflega ætluðum við fimm saman í ferðina. En sökum anna í vinnu höfðu tvær frestað brottför. Kata ætlaði með eftirmiðdagsfluginu, þennan sama dag. Það stefndi því allt í það að hún færi í loftið á svipuðum tíma og við. En fluginu hennar var líka seinkað, um 1-1 og hálfan tíma. Þá var farið í það að reyna að koma henni í flugið okkar, svo við gætum allar orðið samferða. Það er nú eiginlega skemmtilegra. Svona í hópferð. En allt kom fyrir ekki og starfsmenn flugvallarins sögðu aðra farþega sem áttu pantað tengiflug hafa forgang. Við bitum í það súra epli að skilja við Kötu við útganginn í vélina. Fengum okkur sæti. Og biðum svo. Í dágóðan tíma í þvílíkri mollu inni í vélinni. Hver birtist svo allt í einu á gangi vélarinnar? Kata. Hún hafði talað sig inn í vélina, enda voru enn fjögur sæti laus. Farangurinn hennar var hins veger ekki með, kom með næstu vél. Og hún átti að fá hann daginn eftir. Svo varð hins vegar ekki. Hann kom ekki í hús fyrr en með Berglindi á hádegi á laugardag. Svo allt fór þetta vel að lokum;-)

Ég eyddi sunnudeginum ein á menningarlegum nótum: Fékk mér tesopa og alveg óskaplega góða efteraarskage í elsta konditori í Kaupmannahöfn, La Glace í Skoubostræde 3 (sem Árdís hafði einmitt mælt með; kærar þakkir, Árdís). Svo skundaði ég til baka á Thorvaldsenssafnið, að þessu sinni markvert til að skoða húsakynni safnsins og þá einkum gólfmynstrin. Ég þurfti á smá hressingu að halda eftir safnið, settist inn á kaffihús með appelsínusafa og alveg óskaplega óspennandi ,,brownie''. Skundaði svo aftur niður í bæ og eyddi þeim tíma sem ég átti eftir á erótíska safninu í Köbmagergade. Athyglisvert, en ég verð þó að segja að ég hafði meira gaman af fyrri hluta safnsins.

Við komumst svo áfalla- og tafarlaust alla leið heim til Íslands, allar fimm í sömu vél. Synd að ég skyldi ekki eiga hópmynd til að setja hér inn... Ég fékk annars þær sorgarfréttir í gær að stafræna Sony-myndavélin mín er ónýt. Hún var dæmd úr leik med-det-samme á rafeindaverkstæðinu. Myndflagan ónýt; hún er frekar flókin rafeindatæknilega séð og það tekur því víst ekki að skipta um. Assssskotans. Þriggja ára ending er fremur lélegt, verð ég nú að segja. Litla greyið dettur í fyrra horf af og til, en mjög óvænt og æ sjaldnar. Meðfylgjandi er svo ein artífartí mynd sem átti að verða voða flott:

Hva, sjáiði ekki hver þetta er? Ég, kanallinn og Thorvaldsenssafnið í baksýn. Þessi er hins vegar nokkurn veginn í fókus:

Lítið kríli sem sneri sér lengi vel undan á miðvikudaginn var og vildi lítt sýna sínar betri hliðar. Eftir pot ljósmóðurinnar ákvað það þó að líta aðeins við, til að fá svo e-n svefnfrið. Allt virtist annars vera í stakasta lagi:-) og ég sveif um á dúnmjúku, bleiku skýi það sem eftir lifði dags...

Engin ummæli: