mánudagur, apríl 14, 2003

Túristadagar


Á meðan Karl var hér í heimsókn reyndum við að skoða okkur aðeins um hér. En því miður of lítið, þar sem veðrið var hryssingslegt og ekki viðraði vel til ferðalaga.

Á þriðjudaginn, fyrir viku, tókum við lestina til Stokkhólms. Við röltum um og kíktum inn á tvö söfn. Eða reyndar bara eitt almennilega. Fyrra safnið var National Museet. Við héldum að það væri þjóðminjasafn Svía. Við byrjuðum á að fá okkur fisk á veitingastaðnum í miðju húsinu. Kíktum svo á safnbúðina og komumst að því að þetta væri þeirra listasafn. Við vorum ekki alveg í stuði til að fara að skoða málverk svo við fórum aftur út í kuldann. Héldum áfram í átt að Vasasafninu, sem er úti á einni eynni. Þar er að finna hið stórmerkilega Vasa-skið sem sökk árið 1628 í jómfrúarferð sinni á leið út frá Stokkhólmi. Síðar gleymdu menn hvar það hafði sokkið en fyrir rúmri hálfri öld síðan tókst skipa-fornleifafræðingnum Anders Franzén að finna það og var það dregið upp, 333 árum eftir að það sökk. Skipið hafði grafist í þétta leðju og auk þess er vatnið þarna alls ekki jafn salt og sjór er annars staðar. Skipið var því óhult gegn orminum sem leikur við annars illa í sjó (sbr. holóttan rekavið) því hann þrífst ekki á þessum slóðum. Mönnum tókst því að ná skipinu upp úr ótrúlega heillegu og er nú búið að smíða sér safnhús utan um það við sjóinn. Ég mæli eindregið með þessu safni, ef þið eruð á ferð á þessum slóðum. Skipið er ótrúlega fallegt og svo hefur þeim tekist að setja upp skemmtilega sýningu í kringum það með vel gerðum líkönum og skemmilegum fróðleik. Þegar farið er inn í safnið (og út aftur) er gengið í gegnum fernar dyr. Inni er dimmt og rakt til að halda kjörskilyrðum fyrir skipið. Þetta var eins og að stíga inn í e-t ævintýri, mér datt strax í hug Svartskeggur sjóræningi, sem ég las oft þegar ég var yngri.

Eftir safnheimsóknina gengum við um Gamla Stan, eða gömlu borgina. Þetta er elsti hluti bæjarins og var helsti byggðarkjarninn á miðöldum. Stokkhólmur byggðist upp á þeim þröskuldi sem varð til á miðöldum milli Eystrasalts og Mälaren við landlyftinguna. Staðurinn varð hernaðarlega mikilvægur, þar var hægt að loka/stjórna skipaferðum inn í landið, inn á Mälaren. Birgir jarl lét reisa tvo virkisturna, annan við Norðurstraum, hinn við Suðurstraum. Á milli turnanna tveggja voru reistir tveir múrar/veggir, og á milli þeirra lá borgin. Húsin í Gamla Stan eru flest frá uppgangstímunum 1600-1700, þegar Svíþjóð var að verða stórveldi.

Engin ummæli: