þriðjudagur, desember 10, 2002

Cave í kvöld


Jæja. Nú er ég búin að sitja límd við tölvuskjáinn í allan dag og varla líta upp. Ég fékk það verkefni í vinnunni að skrifa hluta af vinnslueftirlitsskýrslu fyrir hitaveitu Þorlákshafnar. Bara að mata gögnin gegnum tilbúin skeljaforrit (reyndar eftir mikið cut og paste í Excel), leiðrétta smá handvirkt og gera myndir. Svo er ég búin að reyna að túlka gögn síðasta árs eftir bestu getu. Það er sniðugt að sjá hvað vinnslan í borholunum dettur niður þegar veðrið er einstaklega gott. Ég bar gögnin mín saman við veðurfarsgögn Veðurstofunnar og sá þetta greinilega í júní á þessu ári (þá voru hitamet víða slegin) og í ágúst í fyrra (hér syðra). Ég ætla nú samt að láta lesa þetta yfir áður en ég læt minn part frá mér, það er nú annað að skrifa svona fyrir verkkaupa úti í bæ en að skila svona skýrslu í skólanum, það þýðir ekkert að bulla í eyðurnar!


Nú ætla ég að drífa mig í leikfimi og mæta svo galvösk í röðina við Broadway í tæka tíð. Ég vona að ég fái góð sæti.

Engin ummæli: