Mér var boðið í partý á laugardagskvöld til Mörtu. Hún flutti inn í nýja íbúð í vor og ég hef lengi verið á leiðinni í heimsókn. Kíkti því aðeins inn með B og dreif hann svo niður í bæ að dansa, því mér finnst svo óskaplega langt síðan síðast... Eftir að hafa farið á nokkra misjafna staði (og hálf-dansdauða) enduðum við á 22. Auðvitað. Fyndið hvað við vorum feimin fyrst við að dansa og sleppa fram af okkur beislinu. Og þá aðallega út af hvort öðru. En eftir mikið ,,headbang og slam'' var ég með vöðvabólgu dauðans í herðum og hálsi í gær. Lítið eitt skárri í dag. Þetta tekur á:-o
Sat og reiknaði og reiknaði í gær. Upprifjun á hornafræði fyrir forrit svo ég geti farið að koma draslinu frá mér (skriðvektorar lagðir saman, finna ofanvarp meðalvigurs á bestu sléttu í gegnum skjálftadreif og horn milli vigra o.s.frv.). Reiknaði (með smá hléi þó) til tíu og rölti svo með B eftir Ægissíðunni í kvöldgjólunni og léttum úða. Wunderbar...
Í hita leiksins (=dansins) á laugardag gengur upp að mér ungur maður (sem ég þekki ekki neitt) og segir við mig: Fyrirgefðu, en ég varð að koma og segja þér það, mér finnst þú alveg ofboðslega falleg! -og gekk svo í burtu. Ég varð hlessa, lendi ekki alveg í þessu á hverjum degi, stundi upp: Takk. Gott að fá smá búst fyrir egóið. Mér veitir ekki af. Í búðinni áðan ætlaði ég að næla mér í sætabrauð en gömul kona hafði lagt körfunni sinni fyrir framan og var lengi að næla sér í það sem hún ætlaði að fá. Ég náði mér í poka, var alveg að verða pirruð en ákvað að vera smá þolinmóð og bíða bara. Sú gamla tók sér pistasíuvínabrauð og fór svo að tala um að hún hefði heyrt af þessum brauðum og smakkað, og þau hefðu nú aldeilis verið góð en hún hefði bara alls ekki munað hvað þau hétu, bara e-ð sem byrjaði á Péi og svo frv. Ég bara jánkaði og brosti. Svo hafði hún á orði að það væri nú aldeilis ekki á hverjum degi sem hún fengi svona fallegt bros við svona blaðri, og fannst það nú aldeilis gaman og mér hlýnaði um hjarta og brosti enn breiðar. Hmmmm. Það borgar sig nú aldeilis að vera viðmótsþýð:-)
En einna vænst þótti mér þó að heyra ungan mann segja: ,,Þú ert svo yndisleg...'' Sumir dagar eru bara hreint ekki svo slæmir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli