miðvikudagur, mars 19, 2003

Vor í lofti


Ég held að vorið sé á leiðinni. A.m.k. er nær allur snjór horfinn, einstaka skítugir skaflar eftir hér og þar eftir snjómokstur, og í síðustu voru allir göngustígar á floti í vatni og drullu. Ég er búin að kaupa mér vorskó, ég gat ómögulega verið áfram í gönguskónum og engir skór voru teknir með utan skvísuskónna og sandalanna minna, sem ég þarf að fara að sauma enn einu sinni saman.


Um helgina slógum við Kristín öllu upp í kæruleysi og nutum þess að vera til á laugardaginn. Það var fallegt veður.Fyrri partinn tók ég reyndar skurk í að ryksuga og skúra en seinni partinn hjóluðum við Kristín í IKEA, um 10km aðra leið. Það var afar hressandi, það er hægt að hjóla á þessum fínu stígum hér nær alla leið, e-ð annað en heima þar sem maður þarf að hjóla úti í kanti víða meðfram stærri vegum, t.d. Reykjanesbrautinni. Ef Reykjanesbrautin væri hér í Uppsölum, væri hjólastígur meðfram henni endilangri... Það er alltaf gaman að koma í IKEA. Ég keypti þar tvö lítil handklæði fyrir mig og matreiðslubók á sænsku. Annars er IKEA hér í Uppsölum svipað og heima, kannski aðeins meira úrval. Um kvöldið kom svo einn héðan af ganginum í mat. Lijam er frá Eritreu (á NA-strönd Eþíópíu) og er doktorsnemi hér. Af því tilefni elduðu Stína og Pálmi Tæ-mat og ég gerði ostaköku með bróm-, hind- og blæjuberjum. Auk þess var boðið upp á íslenskt góðgæti (lakkrís frá Hafnarfirði) og íslenska tónlist.


Annars er ég að ná mér af hálsbólgu og kvefpest, sem verið hefur að hrjá mig síðustu vikuna, og svo þurftum við að klára afar seinlegt heimaverkefni fyrir daginn í dag. Við sátum hér við næstum fram á miðnætti í gærkvöldi við tölvuverkefnið og ég hélt áfram að glíma við Green-falla dæmi til rúmlega 3 í nótt. Ég komst í betra skap seinni partinn í dag, þegar ég gat loksins skilað af mér seinna verkefninu. Ég ætti kannski að fara að hætta í dag fyrst ég var svona iðin í gær? Það er komið að kvöldmat.

Engin ummæli: