Fyrsti skóladagurinn
Ég steingleymdi að skrifa á föstudaginn, en þá var fyrsti tíminn í Seismic Imaging. Ég var frekar skelkuð eftir fyrsta kúrsinn. Úff, ég fylgdi nú ekki alveg kennararum eftir og hann sagði að þetta væri nú auðvelt til að byrja með en yrði svo erfiðara og erfiðara. Ég sit í kúrsinum með 5 doktorsnemum, a.m.k. þrír þeirra hafa verið að vinna með þessi fræði í nokkurn tíma og hafa gott forskot á okkur. Við sjáum hvernig fer, en ég er ekkert sérlega bjartsýn.
Á fimmtudagskvöld fórum við á tónleika með Uppsala Kammarorkester í aðal-háskólabyggingunni, Universitetsaulan. Það er alveg ofsalega fallegt hús með mikilli skreytingu í lofti salsins. Það voru flutt þrjú verk. Ég var hrifnust af miðverkinu þar sem nýja, fína orgel hússins fékk vel að njóta sín í flottum sóló-köflum. Verkið er eftir Francis Poulenc (1899-1963), Konsert för orgel, straakar och timpani. Hin tvö voru eftir Eduard Tubin og Camille Saint-Saëns.
Seinni partinn í gær, um sex-leytið, ákvað ég að ganga ein niður í bæ úr skólanum og kíkja í búðirnar áður en þær lokuðu. Kristín varð efir því það var bjórfundur, sem er oft á föstudögum, fyrir doktorsnemana og prófessorana. Ég fór af stað, það á ekki að taka langan tíma að fara niðureftir. En það var orðið dimmt og þótt ég væri búin að fara niður á Turistinfo og fá mér kort, tókst mér að fara þvílíka króka að það var verið að loka öllum búðum þegar ég kom loksins niður á göngugötuna. En hvað með það, ég get alltaf skroppið seinna.
Í morgun lærðum við og fórum svo í góðan göngutúr gegnum Gottsundagyben (sem er svolítið svipuð og Fossvogsdalurinn), tré beggja vegna og þarna fer fólk mikið á gönguskíði, út að viðra hundinn og börnin og svo er vinsælt að sitja þarna úti í góða veðrinu á sumrin. Gottsundagyben er ekki nema 5 mín í burtu héðan frá Kristínu og Pálma. Og áfram héldum við niður að Maalaren (aa er a með bollu) sem er stórt vatn þarna. Vatnið er ísilagt og þarna eru menn á skíðum en þó aðallega á skautum sem spenntir eru á gönguskó (eða gönguskíðaskó) og skautað er eftir ruddum brautum, stóra hringi í víkinni á Maalaren. Á sumrin fara menn á baðströnd við vatnið og hægt er að leigja kajak. Þetta er frábær staður, það er bara svolítið kalt núna, miðað við vorveðrið heima á Íslandi.
Í fyrramálið tökum við daginn fremur snemma og förum með lest til Stokkhólms á handavinnusýningu, Sollentuna-mässan. Ég hlakka til að sjá herlegheitin. En í kvöld er líka videó-kvöld. Við komum nefnileg við í gær á leigunni og þar er hægt að fá 3 spólur fyrir 500-kall (49 sænskar). Meira síðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli