Slagveðursrigning
Uppsalabúar, stúdínur í Kantaraborg og aðrir sem hafa verið að kvarta yfir logni og of góðu veðri hjá sér undanfarið ættu að vera hér í drulluveðrinu á Íslandi núna. Eðal-, íslenskt rok og rigning og alltof hlýtt miðað við árstíma. Snjórinn orðinn að krapi og fossandi lækjum uppi á fjöllum og ekkert hægt að skíða. Á laugardagskvöldið síðasta næddi svo um húsið heima að ég hélt að allt ætlaði um koll. Dreif mig í úlpu og setti á mig húfu og rauk út til að athuga hvort það væri stætt. Það var ansi hvasst er ég gekk fyrir hornið í vindinn, enda strengur milli húsanna. Uppi á vellinum var þetta hins vegar ekki jafn slæmt og ég hafði búist við. Líklega einhverjir 15m/s. Ég ákvað nú samt að færa Móa litla í skjól undir húsvegg, bara svona til öryggis.
Annars kætti það mig mikið að heyra að Kraftwerk ætlar að koma og spila í byrjun maí. Það er því nokkuð ljóst hvað ég fæ í afmælisgjöf frá sjálfri mér þetta árið!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli