mánudagur, febrúar 02, 2004

Léleg frammistaða


Síðasta mánudag skrifaði ég langa færstu um stórskemmtilega skíðaferð frá Hellisheiði inn í Innstadal, þar sem við hittum skíðakappa sem hafði á sínum yngri árum keppt í heimsmeistarakeppninni og bókstaflega flaug áfram skautandi yfir ísbreiðuna. Því miður tapaðist allt sem ég hafði skrifað þegar ég ýtti á "Post" hnappinn. Ég nennti ekki að færa það allt inn aftur. Var annars á fullu alla síðustu viku við að klára hitt og þetta fyrir fundinn á föstudag. Vakti tvisvar fram á nótt við undirbúning. Það er nú bara fastur liður fyrir erindaflutning. Nú nú. Ég varð auðvitað yfir mig stressuð, byrjaði á að mismæla mig og varð bara eins og hálfviti. Gleymdi samt að líta á blöðin sem ég hafði í höndunum og romsaði þessu e-n veginn út úr mér. Fannst ég svo ekki geta horft framan í nokkurn mann eftir á af skömm. Ohhh. Var svo sagt eftir á að þetta hefði bara verið allt í lagi. Ég ákvað því að taka gleði mína á ný og fór með hópnum út að borða. Fékk svona líka nammi nammi mat hjá Einari Ben. Kíktum svo fjögur saman á Næsta bar.
Þrjár andvökunætur og áfengi fara ekki vel með kroppinn og ég var eins og aumingi á skíðunum á laugardeginum, máttlaus og komst varla úr sporunum. Og þrátt fyrir æðislegt veður í gær fór ég ekki lengra út úr húsi en rétt út á svalir til að dusta rykugar mottur og afþurrkunarklúta. Dagurinn fór sum sé í tiltekt og þrif þar sem ég hef algerlega vanrækt allt slíkt síðasta mánuðinn! Það er orðið aðeins huggulegra heima núna, og eftir smá meiri tiltekt ætti ég að geta tekið á móti gestum án þess að skammast mín.

Engin ummæli: