Hálfónýtur sunnudagur
Ég fór á árshátíð í gær. Ballið stóð ekki til nema tvö og ég slóst með í för sprækra vinnufélaga sem ekki voru búnir að fá nóg af djammi og dansi. Við fórum niður á Laugaveg og ég fór ekki heim fyrr en rétt fyrir sex í morgun. Það var bara svo gaman að dansa á 22 að það var bara ekki hægt að fara heim fyrr, þótt skórnir sem ég var í væru að drepa mig (ég tók reyndar ekki eftir þvæi fyrr en ég var hætt að dansa og komin út af staðnum). Dagurinn í dag var því hálfónýtur. Ég píndi mig til að sofa til hálf-tvö (það er erfitt fyrir suma að sofa svo lengi fram eftir og gerist ekki oft á ári). Ég fór á fætur hálftuskuleg og dreif mig í góðan tveggja tíma göngutúr um Hafnarfjörð. Fór upp að Flensborg, niður leynistíg af Hamrinum, yfir í Vesturbæinn í gegnum Hellisgerði, ýmsa króka niður að sjó við Herjólfsgötu og svo frv. Ég gekk fram á brúðarpar í myndatöku í Hellisgerði. Reyndi að trufla sem minnst og tók krók fram hjá þeim. Sama parið var svo mætt í fleiri tökur í fjörunni við Sundhöllina. Sniðug hugmynd, rammíslenskt og voða rómó. Það vantaði bara þurrkhjallana með harðfiskfökunum í baksýn. Ég lét hugann reika og hugsaði með mér að kona á faldbúningi og skinnskóm, með sóleyjavönd tæki sig líklega ekkert verr út á mynd þarna í fjöruborðinu en stúlkan í hvíta brúðarkjólnum með rauðu rósirnar. Alltaf gaman að láta sig dreyma.