sunnudagur, febrúar 29, 2004

Hálfónýtur sunnudagur


Ég fór á árshátíð í gær. Ballið stóð ekki til nema tvö og ég slóst með í för sprækra vinnufélaga sem ekki voru búnir að fá nóg af djammi og dansi. Við fórum niður á Laugaveg og ég fór ekki heim fyrr en rétt fyrir sex í morgun. Það var bara svo gaman að dansa á 22 að það var bara ekki hægt að fara heim fyrr, þótt skórnir sem ég var í væru að drepa mig (ég tók reyndar ekki eftir þvæi fyrr en ég var hætt að dansa og komin út af staðnum). Dagurinn í dag var því hálfónýtur. Ég píndi mig til að sofa til hálf-tvö (það er erfitt fyrir suma að sofa svo lengi fram eftir og gerist ekki oft á ári). Ég fór á fætur hálftuskuleg og dreif mig í góðan tveggja tíma göngutúr um Hafnarfjörð. Fór upp að Flensborg, niður leynistíg af Hamrinum, yfir í Vesturbæinn í gegnum Hellisgerði, ýmsa króka niður að sjó við Herjólfsgötu og svo frv. Ég gekk fram á brúðarpar í myndatöku í Hellisgerði. Reyndi að trufla sem minnst og tók krók fram hjá þeim. Sama parið var svo mætt í fleiri tökur í fjörunni við Sundhöllina. Sniðug hugmynd, rammíslenskt og voða rómó. Það vantaði bara þurrkhjallana með harðfiskfökunum í baksýn. Ég lét hugann reika og hugsaði með mér að kona á faldbúningi og skinnskóm, með sóleyjavönd tæki sig líklega ekkert verr út á mynd þarna í fjöruborðinu en stúlkan í hvíta brúðarkjólnum með rauðu rósirnar. Alltaf gaman að láta sig dreyma.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Hitt og þetta


Afi Þórður kvaddi á laugardaginn var. Hann var ekki búinn að liggja lengi á líknardeild og hrakaði mjög hratt undir það síðasta. Ég hafði heimsótt hann í sömu viku, á 91 árs afmælinu. Það er erfitt að horfa upp á sína nánustu veslast svona upp og sjá lífið fjara út. En það hefur hver sinn tíma. Ég sat hjá ömmu um helgina og hélt henni félagsskap. Ég sótti bollur á sunnudag fyrir okkur og við duttum ærlega í bolluát, eða ég öllu heldur. Á mánudag þegar ég kom við hafði hún eldað baunasúpu, ömmu súpa er alltaf best. Ég slapp því við eldamennsku það kvöldið, sem og flest önnur kvöld.

Það er ekki útlit fyrir að ég komist út á neinar ráðstefnur þetta árið. Niðurskurður í utanlandsförum. Svolítið svekkt, en það minnkar þá bara stressið. Ég reyni bara að sækja um að fara næsta vor, þá ætti ég að vera komin með allar niðurstöður og í þann mund að klára. Stefni þá bara á jarðfræðaráðstefnuna hér heima í maí þetta árið. Svo verður Raunvísindaþing haldið í nýja Náttúrufræðahúsinu í apríl og ég er búin að sækja líka um að hafa seminar á Norrænu í apríl. Það er því nóg af stress-verkefnum framundan.

Ég faldaði toppinn í gær og setti inn tvær myndir (að ósk Stínu). Þetta var skemmtilegt verkefni, en því miður eru myndirnar afleitar, fékk ekki almennilega fyrirsætu í myndatökuna. Sorrý! Er nú farin aðeins að pæla í hvað ég geti gert við fullt af fínu svörtu efni sem ég keypti þegar gömul vefnaðarvöruverslun í Austurstræti hætti fyrir nokkrum árum. Á alveg nóg í síðan svartan sparikjól. Var að pæla í túrkis og broslituðum útsaum og pallíettum. Er samt hrædd um að það verkefni verði að bíða betri tíma.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Þjóðlegir réttir


Eftir ærleg hádegisátök þurfti ég á nóg að próteinum að halda. Sit því hér og treð í mig köldum hrognum, kartöflum og steiktum þorski, sem pabbi sendi mig heim með í gær. Ég var svo heppin að vera
boðin í mat. Og reyndar í kvöld líka, til Bergrúnar. Þvílíkur lúxus, og á meðan safnast ekki upp óhreint leirtau heima. Sólin er farin að skína aftur eftir síðustu rigningardaga. Frost og þunn, hvít föl yfir öllu. Svona aðeins meira í takt við árstímann. Helgin framundan. Lífið barasta alveg bærilegt, held ég.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Tímaskortur


Ég var e-ð ægilega lúin þegar ég kom heim í gær. Rétt náði að setja í vél áður en ég datt í sófan og nærri sofnaði yfir veðurfréttunum. Ég var rétt að festa blund þegar Ella Sigga kom í heimsókn. Settum upp netdagbók fyrir hana svo nú getum við hinar fylgst með ævintýrum hennar í Ítalíu, hún fer út á föstudag.
Ég var e-ð upprifin þegar ég fór loks í rúmið um niðnætti. Var rétt búin að leggja höfuðið á koddann þegar ég fór að fá hugmyndir að hinu og þessu, aðallega e-r saumaverkefni. Hvenær á ég eiginlega að hafa tíma fyrir þetta allt? Ég fæ reyndar svona tímabundna dellu af og til. Sökkvi mér niður í e-ð í nokkrar vikur, missi svo áhuga á því aftur einn daginn og stend upp frá hálfkláruðu verki. Sem betur fer eiga mínar dellur "comeback". Saumadellan á sum sé comeback núna. Og prjónadellan. Skrautskriftardellan hefur því miður legið niðri allt of lengi, verð að fara að gera e-ð í því. Langar líka að hitta vini mína oftar. læra að spila á gítar, ganga meira á fjöll og og og... Hjálp, mig vantar tvo aukadaga í vikuna. Gjarna frídaga!

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Ella orðin bloggari!!!


Jæja, nú er Ella Sigga komin í Blogg-hópinn, bætti henni á listann hér til hliðar. Eigum ábyggilega eftir að "heyra" svaka krassandi sögur frá Ítalíu á næstu mánuðum...

Slagveðursrigning


Uppsalabúar, stúdínur í Kantaraborg og aðrir sem hafa verið að kvarta yfir logni og of góðu veðri hjá sér undanfarið ættu að vera hér í drulluveðrinu á Íslandi núna. Eðal-, íslenskt rok og rigning og alltof hlýtt miðað við árstíma. Snjórinn orðinn að krapi og fossandi lækjum uppi á fjöllum og ekkert hægt að skíða. Á laugardagskvöldið síðasta næddi svo um húsið heima að ég hélt að allt ætlaði um koll. Dreif mig í úlpu og setti á mig húfu og rauk út til að athuga hvort það væri stætt. Það var ansi hvasst er ég gekk fyrir hornið í vindinn, enda strengur milli húsanna. Uppi á vellinum var þetta hins vegar ekki jafn slæmt og ég hafði búist við. Líklega einhverjir 15m/s. Ég ákvað nú samt að færa Móa litla í skjól undir húsvegg, bara svona til öryggis.

Annars kætti það mig mikið að heyra að Kraftwerk ætlar að koma og spila í byrjun maí. Það er því nokkuð ljóst hvað ég fæ í afmælisgjöf frá sjálfri mér þetta árið!!!

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Rautt flauel, bleikt flauel, blátt flauel og svart, og allt rifflað...


Ofangreind fyrirsögn lýsir helginni í hnotskurn. Ég sat við saumavélina nærri alla helgina og saumaði. Er í e-u stuði núna. Ég byrjaði á að klára á laugardagsmorgni skokk sem litla dóttir Dóru vinkonu á að fá, en hún fæddist einmitt þann morgun. Svo réðist ég loks í að klára rauðar flauelisbuxur sem ég saumaði reyndar í haust en nennti aldrei að klára. Jú, tvinninn var reyndar búinn. Ég gerði hnappagat og festi á hnapp og dreif mig í þeim í vinnuna í dag. Þær eru Eeeeldrauðar og eiginlega of víðar. Ég sé að ég þarf að setjast við saumavélina í kvöld og setja á þær beltislykkjur og þrengja. Allt sem ég sauma á sjálfa mig verður alltaf a.m.k einu númeri of stórt, sem þýðir helmingi meiri vinnu í allt. Nú, nú. Ég sneið líka topp úr svörtu riffluðu flaueli sem ég átti og fína Hong-Kong silkinu sem Stína gaf mér fyrir saumaskapinn í desember. Er búin að sauma bútana saman og þarf nú að fara að kaupa rennilás, fóður og spangir. Ég átti rétt nóg af bleika silkinu til að hafa í fram og bakstykkin. Hliðarstykkin fjögur eru úr flauelinu. Svo datt mér í hug að kaupa dökkbleikar pallíettur eða e-ð annað til að sauma líka á flauelið, til að hafa hann svolítið skrautlegri. Bara hugmynd. Ég rétt kíkti út á laugardag til að kaupa tölur. Freistaðist líka til að kaupa bút af röndóttu flaueli á helmingsafslætti. Fannst það bara flott. Sé til hvað verður úr því.

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Kosningar!


Síminn hringdi áðan. Ég hélt að ég væri að fá e-r slæmar fréttir og fékk sting í magann. Þá var þetta bara e-r frá Vöku að minna mig á kosningar í Háskólanum og bjóða á kosningavöku á Pravda. Huhh. Mér gæti ekki staðið meira á sama. Hef nú um nóg annað að hugsa.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Alvarleg ritstífla


Er haldin slæmri ritstíflu. Þetta hefur komið fyir áður. Eftir að hafa setið í þrjá tíma fyrir framan auðan skjáinn setti ég Rammstein í tækið. Og bara allt af stað. Held þetta virki ekki núna. Þar eð ég er að skrifa á ensku. En ég er þó komin af stað. Með The Cult., Echo and the Bunnymen (the Killing Moon). Mæli með þessari meðferð. Varist bara að lögin leki inn í textann...
...crosscorrelation of waveforms, yeah yeah, ciao baby....
the study area has been divided into fifteen killing killing boxes....
Ha ha, kannski bara fyndið?

mánudagur, febrúar 09, 2004

Enn eitt netprófið:

How evil are you?

Hannyrðir, kjetát og skíðagöngur


Ég mætti seint á þorrablótið á föstudag. Var samt búin að safna saman gleði-tónlist til að spila ef fólk yrði í dansstuði. Ég bjóst við að koma í rífandi stemningu og gleði. Hmmmm. Það var e-r bjartsýni. Það vantaði stuðliðið. Flestir voru farnir og þeir sem eftir sátu nenntu ekki einu sinni að dansa við harmónikkuspil Þórðar. Ég fór því fljótlega aftur.
Á Laugardag ríkti baðstofustemning heima. Ég sat öðrum meðin við stofuborðið og saumaði, Þorsteinn sat á móti mér með tölvuna sína og tók saman fjöldann allan af lögum sem síðan voru brennd á disk. Nú er ég loksins búin að eignast Cult-Wildflower og fleira gott sem bara var til á vínyl-plötum heima. Öngvan hef ég plötuspilarann. Undir hljómuðu níunda-áratugs poppslagarar. Um kvöldið fór ég með þeim Söru í þorramat vestur í bæ. Ég át yfir mig að hangikjeti og uppstúfi, fékk mér nokkra hákarlsbita fyrir ónæmiskerfið og við sátum og töluðum fram að miðnætti.
Skíðaganga helgarinnar hófst að þessu sinni uppi í Heiðmörk. Þar var fullt af fólki á skíðum. Fór líka upp í Bláfjöll og gekk vanalega hringinn. Það var ansi kallt. Ég var a.m.k. orðin illa köld þegar ég kom heim og lá hálftíma í baði til að ná í mig hita. Fór svo loks í mat til pa og horfði að sjálfsögðu á Nicolai og Julie. Ég er búin að bíða spennt eftir framhaldinu. E-a hluta vegna hélt ég í síðustu syrpu að þau næðu saman aftur. Mér líst ekkert á verðandi barnsföður Julie. Hmmm. Og hvenær ætla þeir svo að klára Beðmálasyrpuna sem þeir hættu að sýna fyrir jól? Er sjónvarpið hætt við þetta allt saman?

föstudagur, febrúar 06, 2004

snjór


Í nótt snjóaði hér á Suðurlandinu. Sem og síðustu nótt. Hér er því allt á "kafi" í snjó. Mæni á fannhvita breiðuna fyrir utan og óskaði þess að ég væri uppi á fjöllum á skíðum.


Ég á von á helgargestum á Vallarbrautina í kvöld. Af því tilefni ákvað ég að elda (já!). Ég undirbjó 15 lítil hnetufuff í gær. Ég á því bara eftir að velta þeim upp úr eggi og hnetu/kókos raspi og steikja. Með verður sveppasósa, sams konar og mér tókst að sletta lengst út á stofugólf síðast þegar ég hafði matargesti fyrir jól. (Að þessu sinni mun ég ekki þykkja sósuna með sjóðandi vökva.) Ætli ég kíki svo ekki á þorrablótið hér á VÍ. Ætli það verði dansað jafnmikið og lengi og á októberfest fyrir jól?

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Handlagin húsmóðir?


Ég er alveg hætt að prjóna. Ég er a.m.k. ekki tilbúin með neitt til að færa barni vinkonu minnar, sem von er á á föstudag. Hér áður fyrr notaði ég hvert slíkt tilefni til að koma út prjónaflíkum mínum. Ég fór því í Virku í gær og keypti tvenns konar efni til að sauma skokk á barnið (veit það verður stelpa). Það ætti ekki að taka langan tíma. Ég keypti líka garn í peysu. Fékk nefnilega góða hugmynd og langar að útfæra hana. Svo hefur mér fundist ég eyða allt of miklum tíma við sjónvarpið. Ég ætla að hafa það að reglu hér eftir að ég verði helst að gera e-ð í leiðinni. Hér eftir verður það því skylda að prjóna í sjónvarpsletiköstum. Og það er bara hreint ótrúlegt hvað hægt er að afkasta þannig. Og tímanum er ekki kastað á glæ!


Í gær tók ég mig líka til og hengdi upp kertakrónu upp í herbergið mitt. Hingað til hefur hún legið á gólfinu inni í stofu. Ég sótti tröppurnar niður í geymslu og stóð svo með vasaljósið í kjaptinum og reyndi að aftengja rússnesku ljósakrónuna sem hangir þar. Ég þurfti nefnilega að koma vírunum í gegnum dós sem ég skrúfaði í loftið. Það var hægara sagt en gert. Þeir hafa verið með e-t nýtt "system" á víratengingunum í stað gömlu hvítu tengjana (krónutengi?). Það tók mig óratíma að smella þeim í sundur til að geta losað vírana. Sérstaklega þar sem ég var hætt að sjá nokkuð til því vasaljósið lognaðist út af. En þetta hófst allt saman að lokum og ég er reynslunni ríkari.


Ég er svona aðeins farin að huga að snemmsumarleyfi ársins. Ætla að fara í lok maí til Englands og ferðast um með mömmu í svona 10 daga. Það er því borin von að e-ð bætist við á kortið hjá mér. Ég verð nú að segja að það er hálftómt hjá mér, 4% er fremur slök frammistaða. Mig langar mikið til að bæta Grænlandi á listann, og Færeyjum. En ég býst við að ég komist varla lengra en til Vestmannaeyja í ár, fyrir utan England, auðvitað.



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

mánudagur, febrúar 02, 2004

Léleg frammistaða


Síðasta mánudag skrifaði ég langa færstu um stórskemmtilega skíðaferð frá Hellisheiði inn í Innstadal, þar sem við hittum skíðakappa sem hafði á sínum yngri árum keppt í heimsmeistarakeppninni og bókstaflega flaug áfram skautandi yfir ísbreiðuna. Því miður tapaðist allt sem ég hafði skrifað þegar ég ýtti á "Post" hnappinn. Ég nennti ekki að færa það allt inn aftur. Var annars á fullu alla síðustu viku við að klára hitt og þetta fyrir fundinn á föstudag. Vakti tvisvar fram á nótt við undirbúning. Það er nú bara fastur liður fyrir erindaflutning. Nú nú. Ég varð auðvitað yfir mig stressuð, byrjaði á að mismæla mig og varð bara eins og hálfviti. Gleymdi samt að líta á blöðin sem ég hafði í höndunum og romsaði þessu e-n veginn út úr mér. Fannst ég svo ekki geta horft framan í nokkurn mann eftir á af skömm. Ohhh. Var svo sagt eftir á að þetta hefði bara verið allt í lagi. Ég ákvað því að taka gleði mína á ný og fór með hópnum út að borða. Fékk svona líka nammi nammi mat hjá Einari Ben. Kíktum svo fjögur saman á Næsta bar.
Þrjár andvökunætur og áfengi fara ekki vel með kroppinn og ég var eins og aumingi á skíðunum á laugardeginum, máttlaus og komst varla úr sporunum. Og þrátt fyrir æðislegt veður í gær fór ég ekki lengra út úr húsi en rétt út á svalir til að dusta rykugar mottur og afþurrkunarklúta. Dagurinn fór sum sé í tiltekt og þrif þar sem ég hef algerlega vanrækt allt slíkt síðasta mánuðinn! Það er orðið aðeins huggulegra heima núna, og eftir smá meiri tiltekt ætti ég að geta tekið á móti gestum án þess að skammast mín.