Þjófar, aftur á ferð!
Í morgun hafði ég ætlað mér að vakna klukkan sjö. Ég á erindi á skrifstofuna í húsi nr. 10, ég þarf að láta vita af því að ég sé að flytja út o.fl. En einhverra hluta vegna virðist ég bara ekki geta vaknað þessa dagana. Ég vaknaði níu og skrifstofunni er lokað klukkan hálf-tíu. Nú, nú, ég reyndi að vera svolítið rösk. Þegar ég kom svo út og ætlaði að ganga að hjólinu mínu þar sem ég hafði skilið við það í gærkvöldi, var það ekki á sínum stað. Ég skimaði svolítið um en ákvað svo að hlaupa á skrifstofuna. Þau voru búin að loka þar. Ohhh. Ég hljóp til baka. Gekk hring í kringum húsið. Leitaði inni í hjólageymslunni. Aftur úti. Gafst svo upp. Þegar ég svo gekk fram hjá leikvellinum í næsta húsi, sá ég kunnuglegt hjól uppi við girðinguna. Og víiiii, það var hjólið mitt. Þykki lásinn var enn á, þeir hafa kannski gefist upp á að bera það. En helvítið þjófarnir hafa brotið afturljósið af (rautt, sem blikkar). Og þeir þurftu ekki einu sinni að brjóta því það er einfaldlega hægt að smella því af. En samt. Ég var frekar heppin í þetta skiptið. En menn virðast ekki geta átt neitt í friði hérna fyrir þessum bannsettum dónum sem ganga um rænandi og ruplandi. Ég ætti kannski að kaupa annan lás.
Í gær bauð ég Birni og Cedric upp á ís niðri við ána í tilefni þjóðhátíðardagsins. Aðrir voru ekki á staðnum til að bjóða með. Ég fór svo heim og gerði mér omelettu með grænmeti úr frystinum, annan daginn í röð. Nú er nefnilega átakið "klára matinn úr skápunum" í gangi hjá mér. Ég á nefnilega fullt af mat, og ætla að minnsta kosti að klára það mesta. Ég get svo pakkað þurrmatnum í kassa og gefið, ellegar gengið að honum seinna, ef ég kem þá aftur. Ég plataði svo Sigtrygg út í göngu í skóginum. Ég skammast mín fyrir að segja það en ég hef bara einu sinni farið út í göngu þarna og það var þegar Karl var í heimsókn. Og samt er örstutt út í þetta fallega útivistarsvæði. Stundum þarf ég bara spark í rassin til að drífa mig af stað. Við gengum í tvo tíma. Það var nóg af moskítóflugum í skóginum og í morgun fann ég þrjú ný bit. Það verður bara gott að koma heim og losna við þessar leiðinda flugur.
Nei, fjögur bit, var að finna eitt í viðbót!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli