mánudagur, júní 16, 2003

...Og aftur í Uppsölum


Það er nú meiri þeytingurinn á mér þessa dagana. Kom aftur hingað í gær rétt eftir hádegi og fer svo aftur eftir viku. Í fyrrakvöld, þegar ég var búin að pakka og ætlaði að taka til farmiðann, var hann ekki á sínum stað, þ.e. í töskunni með þeim gamla. Úff, ég varð stressuð og byrjaði að leita. Og fann hann ekki. Klukkan var orðin tólf og ég ætlaði að vakna fimm. Leitaði áfram. Fann hann að lokum, daddadda, inni í fataskáð inni á milli fatanna. Ég er frekar utan við mig um þessar mundir. Og svo þegar við ætluðum að leggja af stað út á flugvöll fann ég ekki lyklana mína. Aftur panik. Fann þá nú samt fljótlega, á ágætum stað, mundi bara ekkert hvar ég hafði sett þá.

Í fríhöfninni hitti ég Pálínu Margréti með mömmu sinni. (Pálína var með mér í bekk í grunnskóla og kórnum líka). Þær mæðgur voru á leið til Þýskalands í frí. Flugið gekk vel, ég dottaði og svaf svolítið líka, á milli þess sem ég las um einhverfu í Lifandi vísindum. Á Arlanda-flugvelli rakst ég svo á Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing. Hann kenndi mér 3 kúrsa í HÍ og mundi enn eftir mér. Ég tók svo rútuna í bæinn og rogaðist með ferðatöskuna í strætó. Já, þótt ég ætlaði að koma til baka með tóma tösku, tókst mér að fylla hana með ýmislegu drasli, svefnpoka, e-m fötum og svo íslenskum mat. Ég keypti harðfisk og skyr handa Ara (vinnur hér, hálf-íslenskur) og harðfisk handa mér, parta (soðbrauð), flatkökur, súkkulaðirúsínur og kúlusúkk. Ég ætla að leyfa félögum mínum að bragða á þessum ágætismat við tækifæri.

Í dag er ég syfjuð. Er búin að sitja hérna hálf-sofandi við að afrita gögn af UNIX-tölvunni hér yfir á mína. Það er betra að byrja tímanlega að taka til eftir sig. Skilaði verkefninu í morgun. Á morgun verð ég svo að taka mér tak í vinnunni og klára áætlun fyrir endurstaðsetningarnar. Það er ekki gott að koma heim til vinnu með allt niðrum sig!

Engin ummæli: