Ég er stressuð. Er mætt á fyrstu vaktina mína og þegar komin ein stjarna á kortið, skjálfti í Mýrdalsjökli. Ég ætla bara að vona að enginn fari að hringja núna, vonandi eru allir fréttamenn sofandi. Og ég vona líka að jörðin haldi í sér þessa vikuna svo ég fari ekki á taugum yfir e-m stóratburðum sem ég ræð ekki við...
Dagbók eilífðarstúdents sem býr í Reykjavík og þykir alltof gaman að prjóna en slugsar við rigerðasmíð!
mánudagur, júní 30, 2003
Ég er stressuð. Er mætt á fyrstu vaktina mína og þegar komin ein stjarna á kortið, skjálfti í Mýrdalsjökli. Ég ætla bara að vona að enginn fari að hringja núna, vonandi eru allir fréttamenn sofandi. Og ég vona líka að jörðin haldi í sér þessa vikuna svo ég fari ekki á taugum yfir e-m stóratburðum sem ég ræð ekki við...
föstudagur, júní 27, 2003
Komin heim
Já, ég er komin heim. Flaug heim á sunnudaginn og mætti til vinnu á mánudaginn. Ég er búin að fá annan samastað og þessa líka rosalega fínu tölvu. Svarta og töffaralega Dell með stóóórum diski. Útsýni eins og áður yfir Bláfjöllin, Undirhlíðarnar, veðurreitinn, Úlfarsfell og Esjuna. Ég á eftir að setja inn ferðasögu helgarinnar, og myndir... því ég keypti mér stafræna vél í fríhöfninni á leið út aftur (tækjaóð). Ég ætla bara að senda þennan póst og sjá hvort þetta virkar rétt því það er nýbúið að uppfæra Bloggerinn...
fimmtudagur, júní 19, 2003
This is the end...
Já, í dag er síðasti dagurinn hérna í skólanum. Ég er búin að fara eina ferð heim í morgun með bækur og ná mér í kassa niðrí í búð. Mikið svakalega get ég safnað að mér miklu drasli. Þótt ég hafi farið heim með fulla tösku um daginn er meira en nóg eftir.
Nú er hann lagstur í rigningar. Íslenskt þjóðhátíðarveður. Ég er nú ekkert sérlega spennt fyrir því að fara í útilegu í þessu veðri. Eiginlega væri ég nú bara til í að fara heim á morgun. Ég held ég sé búin að fá nóg í bili. En við leggjum af stað síðdegis og komum líklega aftur á laugardag. Þá þarf ég að þrífa herbergið hátt og lágt og klára að pakka. Ég segi því bara bless í bili.
miðvikudagur, júní 18, 2003
Brandari...
Brandari gærdagsins var í boði Academic Press/Elsevier. 25.apríl pöntuðum við bókina fyrir Inversion-kúrsinn í gegnum netið. Þar stóð: "Fast and free delivery within Europe". Kúrsinn byrjaði 6.maí svo við töldum bókina koma á skikkanlegum tíma. Hún kom í gær... Prófið var í þarsíðustu viku. Hahhh.
Þess má geta að í militíðinni spurðumst við fyrir. Þá var okkur sagt að upplagið væri búið í Englandi og það þyrfti að senda eintök frá BNA. En samt... Ég vona að ég eigi eftir að nota inversjón mikið í framtíðinni því bókin er rándýr.
Þjófar, aftur á ferð!
Í morgun hafði ég ætlað mér að vakna klukkan sjö. Ég á erindi á skrifstofuna í húsi nr. 10, ég þarf að láta vita af því að ég sé að flytja út o.fl. En einhverra hluta vegna virðist ég bara ekki geta vaknað þessa dagana. Ég vaknaði níu og skrifstofunni er lokað klukkan hálf-tíu. Nú, nú, ég reyndi að vera svolítið rösk. Þegar ég kom svo út og ætlaði að ganga að hjólinu mínu þar sem ég hafði skilið við það í gærkvöldi, var það ekki á sínum stað. Ég skimaði svolítið um en ákvað svo að hlaupa á skrifstofuna. Þau voru búin að loka þar. Ohhh. Ég hljóp til baka. Gekk hring í kringum húsið. Leitaði inni í hjólageymslunni. Aftur úti. Gafst svo upp. Þegar ég svo gekk fram hjá leikvellinum í næsta húsi, sá ég kunnuglegt hjól uppi við girðinguna. Og víiiii, það var hjólið mitt. Þykki lásinn var enn á, þeir hafa kannski gefist upp á að bera það. En helvítið þjófarnir hafa brotið afturljósið af (rautt, sem blikkar). Og þeir þurftu ekki einu sinni að brjóta því það er einfaldlega hægt að smella því af. En samt. Ég var frekar heppin í þetta skiptið. En menn virðast ekki geta átt neitt í friði hérna fyrir þessum bannsettum dónum sem ganga um rænandi og ruplandi. Ég ætti kannski að kaupa annan lás.
Í gær bauð ég Birni og Cedric upp á ís niðri við ána í tilefni þjóðhátíðardagsins. Aðrir voru ekki á staðnum til að bjóða með. Ég fór svo heim og gerði mér omelettu með grænmeti úr frystinum, annan daginn í röð. Nú er nefnilega átakið "klára matinn úr skápunum" í gangi hjá mér. Ég á nefnilega fullt af mat, og ætla að minnsta kosti að klára það mesta. Ég get svo pakkað þurrmatnum í kassa og gefið, ellegar gengið að honum seinna, ef ég kem þá aftur. Ég plataði svo Sigtrygg út í göngu í skóginum. Ég skammast mín fyrir að segja það en ég hef bara einu sinni farið út í göngu þarna og það var þegar Karl var í heimsókn. Og samt er örstutt út í þetta fallega útivistarsvæði. Stundum þarf ég bara spark í rassin til að drífa mig af stað. Við gengum í tvo tíma. Það var nóg af moskítóflugum í skóginum og í morgun fann ég þrjú ný bit. Það verður bara gott að koma heim og losna við þessar leiðinda flugur.
Nei, fjögur bit, var að finna eitt í viðbót!
mánudagur, júní 16, 2003
...Og aftur í Uppsölum
Það er nú meiri þeytingurinn á mér þessa dagana. Kom aftur hingað í gær rétt eftir hádegi og fer svo aftur eftir viku. Í fyrrakvöld, þegar ég var búin að pakka og ætlaði að taka til farmiðann, var hann ekki á sínum stað, þ.e. í töskunni með þeim gamla. Úff, ég varð stressuð og byrjaði að leita. Og fann hann ekki. Klukkan var orðin tólf og ég ætlaði að vakna fimm. Leitaði áfram. Fann hann að lokum, daddadda, inni í fataskáð inni á milli fatanna. Ég er frekar utan við mig um þessar mundir. Og svo þegar við ætluðum að leggja af stað út á flugvöll fann ég ekki lyklana mína. Aftur panik. Fann þá nú samt fljótlega, á ágætum stað, mundi bara ekkert hvar ég hafði sett þá.
Í fríhöfninni hitti ég Pálínu Margréti með mömmu sinni. (Pálína var með mér í bekk í grunnskóla og kórnum líka). Þær mæðgur voru á leið til Þýskalands í frí. Flugið gekk vel, ég dottaði og svaf svolítið líka, á milli þess sem ég las um einhverfu í Lifandi vísindum. Á Arlanda-flugvelli rakst ég svo á Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing. Hann kenndi mér 3 kúrsa í HÍ og mundi enn eftir mér. Ég tók svo rútuna í bæinn og rogaðist með ferðatöskuna í strætó. Já, þótt ég ætlaði að koma til baka með tóma tösku, tókst mér að fylla hana með ýmislegu drasli, svefnpoka, e-m fötum og svo íslenskum mat. Ég keypti harðfisk og skyr handa Ara (vinnur hér, hálf-íslenskur) og harðfisk handa mér, parta (soðbrauð), flatkökur, súkkulaðirúsínur og kúlusúkk. Ég ætla að leyfa félögum mínum að bragða á þessum ágætismat við tækifæri.
Í dag er ég syfjuð. Er búin að sitja hérna hálf-sofandi við að afrita gögn af UNIX-tölvunni hér yfir á mína. Það er betra að byrja tímanlega að taka til eftir sig. Skilaði verkefninu í morgun. Á morgun verð ég svo að taka mér tak í vinnunni og klára áætlun fyrir endurstaðsetningarnar. Það er ekki gott að koma heim til vinnu með allt niðrum sig!
þriðjudagur, júní 10, 2003
Heim í Hafnarfjörðinn
Þá er ég kominn heim í Hafnarfjörðinn. Pálmi var svo elskulegur að fá lánaðan bíl og þau Stína skutluðu mér á flugvöllinn. Það er heldur ekkert grín að rogast með tvær heví töskur í strætó og í lestina. Gott að eiga góða vini. :-)
Á leiðinni í vélinni sat ég á milli tvegga eldri kvenna. Ég spjallaði svolítið við aðra þeirra. Hún var sænsk, frá Stokkhólmi en hafði gifst bandarískum manni og búin að búa lengi í BNA. Hin, líka á leið til BNA, var þögulli, og mér sýndist hún dotta. Hún hefur líklega verið álíka syfjuð og þreytt og ég. Ég hefði auðveldlega getað sofnað en ákvað að nota tímann og forrita smá í Matlab. Ég var með tölvuna mína í vélinni. Sessunaut mínum leist rosavel á hana (þeirri fyrrnefndu).
Það var 15 stiga hiti þegar vélin lenti í dag. Munur að koma ekki heim í rigningu og roki. Óskaplega finnst mér langt síðan ég var hérna síðast. Og margt hefur gerst. Fjallahringurinn á Reykjanesskaganum brosti á móti mér í sólinni. En engin tré. Ekki eitt einasta.
Ég ákvað að vera sæt við mömmu og elda kvöldmatinn. Labbaði mér niðrí bæ í 10-11. Ætlaði að kaupa kjúklingabringur og núðlur. Einfalt? Neihhh, eggjanúðlurnar voru ekki til. Kjúklingabringurnar voru hins vegar til, frosnar í poka eins og ég vildi hafa þær. Sá hins vegar enga verðmerkingu. Eeeeen, fékk nett sjokk þegar ég ætlaði að borga. Fyrir bringurnar, 4 íspinna og eitt skitið tímarit þurfti ég að borga rúman 3000 kall!#$$!?! Já. úff. matur er dýr á Íslandi.
Er strax farin að sakna Uppsala. Ég hringdi í ferðaskrifstofuna og það er lítið mál að breyta miðanum. Jóhíris nefndi það við mig í morgun að eg ég gæti hugsað mér að vera lengur þá væri ég velkomin með þeim á miðsumarhátíð í Dalarna. Mér leist stórvel á það og fer á skrifstofuna á morgun og fæ miða fyrir sunnudaginn í staðinn. 2 dagar í viðbót er betra en ekki neitt.
mánudagur, júní 09, 2003
Elsku skrifsofan!
Jæja, þá er ég aftur mætt á skrifstofuna. Og í þetta skiftið til að millifæra í netbankanum. Ég gleymdi því í dag. Ég er annars á leið heim frá Stínu og Pálma í Gottsunda. Við Stína sniðum tilrauna-topp úr gömlu laki. Sniðið sem hún keypti reyndist ómögulegt svo við breyttum því svolítið, gerðum aðra prufu og útkoman var bara stórfín! Ég verð spennt að sjá lokaútgáfuna úr fína efninu frá Hong Kong. Svo fékk ég þennan líka rosa fína mat hjá þeim og borðaði á mig gat. Ohh, mikið svakalega á ég eftir að sakna þeirra :( Þau verða farin til Íslands þegar ég kem aftur. Ég á líka eftir að sakna allra hinna hérna í Geocentrum...Snökt... og elsku skrifstofunnar. Hér hef ég átt margar góðar stundir yfir lexíunum mínum. En ætli ég gleymi því ekki fljótt þegar ég kem heim. Eða hvað? Ætti ég kannski að reyna að komast fljótt út aftur? Því ekki það!
Léttir, skemmtan og meiri skemmtan
Netið hefur legið niðri í herberginu mínu á stúdentagörðunum, svo ég hef ekki komist á blogger til að skrifa. Ég er líka búin að taka mér gott frí frá skrifstofunni þessa helgi.
Munnlega prófið var á föstudaginn. Það var ekkert svo slæmt, ég held mér hafi bara gengið ágætlega. Við Stína, og Pálmi, settumst svo á teppi úti í trégarðinum og borðuðum hádegismatinn okkar. Við vorum ekkert í stuði til að fara að vinna svo við röltum niður í bæ. Stína vildi finna snið að topp, sem hún ætlar að sauma sér, og ég var með til ráðgjafar (hmmm). Svo komum við í skóbúð og ég kom út með BLEIKA skó. Já, ég hef alltaf keypt mér svarta spariskó. Því ekki að breyta til?
Ég fór svo snemma heim til að undirbúa kvöldmat. Ég hafði boðið Stínu og Pálma, Mattíasi og Birni í mat. Á boðstólnum var kjúklingabaunarétttur ásamt meðlæti, Stína og Pálmi komu með kampavín og matinn borðuðum við uppi á þaki með þetta líka fína útsýni af 8.hæð. Þetta var skemmtilegasta kvöld.
Daginn eftir dreif ég mig loksins í því að þvo þvott sem safnast hefur upp síðustu daga. Mattías hringdi svo rétt yfir hálf-ellefu og sagði mér að báturinn út í Skokloster færi eftir 40-50 mín. Ég hnringdi í snatri í Gottsundaliðið og Cedric. Öll náðum við í tæka tíð í bátinn. Siglingin út í Skokloster tók tæpa tvo tíma. Þetta er nes úti í vatninu Mälaren og þar stendur höll sem við skoðuðum. Áður en báturinn fór til baka settumst við í grasið og borðuðum af nestinu okkar. Leiðin sem við sigldum er falleg. Siglt er niður Fyrisån ,sem rennur gegnum Uppsali, og áfram út á Mälaren. Á veturna er efnt til skautahlaups milli Uppsala og Stokkhólms á langskautum. Ég held að það sé um 80 km leið, en það er samfellt vatnasvæði héðan og til Stokkhólms. Það er líka hægt að sigla héðan alla leið til Gautaborgar. Langskautana náði ég aldrei að prófa áður en ísinn fór að bráðna. En ég fæ kannski tækifæri seinna :)
Í gærmorgun fórum við svo sex saman í golf. Já, það er í fyrsta skipti sem ég prófa þá íþrótt. Björn var svo almennilegur að fara með okkur á golfvöllinn sinn (eða öllu heldur þar sem hann er félagi) og leifa okkur að prófa. Við byrjuðum á því að æfa höggin, lengri högg og svo upp úr sandgryfju og pútt. Ég verð að viðurkenna að þetta er miklu erfiðara en það sýnist. Ég náði aldrei tökum á lengri höggunum. Var nú eiginlega alveg glötuð. Svo fórum við á minni, níu holu völl til að spila. Á aðalvellinum máttum við auðvitað ekki leika þar sem við erum ekki félagar og höfum ekki tekið próf sem þarf á hann. Sá litli var nú svo sem alveg nógu stór. Við skemmtum okkur konunglega, og ég náði mér aðeins á strik, náði meira að segja að fara eina holu á pari, jessss, hvað það var góð tilfinning. Daginn enduðum við svo á að fara á pizzu-stað hér í bænum, enda voru allir orðnir vel svangir eftir daginn.
Nú fer ég heim á morgun. Ég kláraði að pakka í morgun og er því bara næstum því klár. Það var svo mikil rigning í morgun að ég hafði ekkert annað að gera. Það er langt síðan ég hef verið svona snemma í því að pakka. Venjulega enda ég á því að vaka til 3 aðfararnótt ferðadags. Þið á Íslandi, sjáumst bráðum!
miðvikudagur, júní 04, 2003
Allnighter
Ég vakti í nótt, sá sólina setjast og koma upp aftur. Var að undirbúa fyrirlestur sem ég átti að halda í dag í kúrsinum. Ég kláraði síðust glæruna hálfsjö til sjö í morgun. Dreif mig þá í hressandi sturtu og dreif mig svo í skólann. Ég er enn vakandi. En þó varla. Get ekki hugsað fyrir þreytu og er svona að spá í hvort ég eigi ekki að drífa mig heim núna... Tveif skiptinemar á ganginum hjá mér standa fyrir matarboði í kvöld, kveðjumáltíð. Þetta verður fínt ég kem heim og þarf ekki einu sinni að elda :)
Já og fyrirlesturinn. Huhhhh. Alveg hræðilegur. Sá versti sem ég hef nokkurn tíma haldið. Ég mundi bara ekki rassgat, sat við tölvuna og bara las það sem stóð á powerp glærunum mínum eða var krotað í stílabókina. Og Laust spurði mig hvort þetta væri í fyrsta skipti sem ég væri með fyrirlestur (þegar ég var búin sko).
Ég er búin að vera löt við að skrifa um atburði síðustu daga. En á uppstigningardag bauð Cedric okkur í grillpartý hjá sér. Þar var margt um manninn því íbúðarfélagi hans, Erik, hafði boðið fjöldamörgum vinum sínum. Og þau einu sem mættu héðan vorum við stelpurnar, Kristín og Jóhíris (frá Venesúela). Við hittum bróður hans Cedrics, Davíð. Hann var allt öðruvísi en við höfðum ímyndað okkur... Kannski óþekkari bróðirinn? Annars segir Stína mun skemmtilegar frá þessu (sjá færslu 30.maí). Þar má einnig finna linka á myndir úr síðustu partýum. Já, en svo ég haldi nú samt aðeins áfram... Við enduðum, fimm saman heima hjá Jóhíris og fengum það smá kennslu í salsa og marenge...
Á laugardagskvöld var svo matarboð hjá Daniel Jonker, Hollendingi sem hefur verið með Sigtryggi (Cedric) á sænskunámskeiði. Daniel var að klára doktorsritgerðina sína og bauð okkur af því tilefni.
Annars hef ég hangið hér á deildinni og reynt að læra. Með misgóðum afköstum. Fyrir viku síðan fékk ég sorgarfréttir að heiman. Páll hennar mömmu lést úr krabbameininu sem hann hafði verið að glíma við síðan fyrir jól. Þetta kom mér á óvart. Ég var svo viss um að meðferðin hefði gengið vel... Lífið er ósanngjarnt stundum. Ég fer því heim næsta þriðjudag til að vera við kistulagningu og jarðarför.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)